09.10.1951
Efri deild: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

23. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Af því að ég er á annarri skoðun en margir af hv. þm. þessarar d., þá vil ég fara nokkrum orðum um þetta frv., áður en það fer til n.

Ég tel, að þjóðvegir eigi þeir vegir að vera, sem tengja saman helztu byggðarlög landsins og kaupstaði. Þær leiðir eiga að vera góðar og greiðar, og þær á ríkið að kosta að öllu leyti. T. d. á Barðastrandarvegur, þ. e. vegur eftir endilangri sýslunni frá sýslumörkum í Gilsfirði og til Bíldudals, að vera þjóðvegur, en þegar þeirri leið sleppir, tel ég vafasamt, hvað ríkið eigi að kosta að öllu leyti. Ef við athugum í hinum ýmsu byggðarlögum, hvað mikið af vegum er komið í þjóðvegatölu, þá er það mjög misjafnt. Sums staðar eru allar aðalleiðir komnar í þjóðvegatölu, en leiðirnar um einstaka hreppa eru sýsluvegir, en sums staðar er þetta svo komið, að allar lelðir eru komnar í þjóðvegasamband, og er farið að reyna að koma afleggjurum heim á einstaka bæi í þjóðvegatölu. Ég er ekki með þessu að segja, að svo sé þetta í þessu frv. Á hverju ári, sem ríkið hefur breytt vegalögunum, hafa sýsluvegir stytzt í sumum sýslum, en í öðrum hafa þeir lengzt jafnframt. Þetta kemur af því, að sýslurnar leggja mismikið á sýslubúa til að fá vegina. Sumar eru komnar það langt með lagningu sýsluvega, að þær eru farnar að taka í sýsluvegatölu vegi heim á einstaka bæi. Það þarf að auka vegakerfi landsins, og tel ég, að ríkið ætti að taka að sér aðalvegi, en sýslan svo hina, sem tengja vegakerfið saman, en ríkið taki ekki að sér að leggja vegi heim í hlað á bæjunum.

Þetta vil ég biðja n. að athuga, bæði hvaða vegir verði teknir upp í þjóðvegatölu og hvernig vegunum verði skipt milli ríkis, sýslu og hreppa.