05.11.1951
Efri deild: 24. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (2946)

91. mál, togaraútgerð ríkisins

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. til l. um togaraútgerð til atvinnujöfnunar var flutt á síðasta Alþ., en þó eru nokkrar breyt. á efni þess, eins og það er nú, borið saman við frv. í fyrra. Þá stóð þannig á, að íslenzka ríkið átti allmarga togara í smíðum í Bretlandi, og var þá lagt til, að ríkið gerði sjálft út fjóra af togurunum, en seldi þá ekki. Nú hefur svo farið, að ríkið hefur selt öll þessi skip eða ráðstafað þeim, þegar smíði þeirra verður lokið. Nú er því ekki um það að ræða, að hægt sé að ráðstafa til þessa þeim togurum, sem þá var talað um, og er frv. því breytt efnislega að því leyti. Nú er gert ráð fyrir, að ríkið kaupi fjóra togara af nokkuð annarri stærð og gerð en áður var gert ráð fyrir.

Ástæðan til þess, að frv. var upphaflega flutt, var sú, að atvinnuleysi var farið að gera vart við sig í kaupstöðum og kauptúnum landsins og ekki líkur til þess, að úr því fengist bætt, nema með sérstökum ráðstöfunum. Þessar meginástæður, sem upphaflega voru til þess, að frv. var flutt, eru enn þá óbreyttar. Atvinnuleysi gerir enn þá vart við sig víðs vegar um land, vegna þess að aflabrestur er víða og ekki eru heldur fullnotuð þau atvinnutæki, sem eru til í kaupstöðum, til þess að vinna að fiskverkun og fiskiðnaði. Spurningin er, hvernig fara eigi að því að fullnýta það vinnuafl, sem nú er ónotað, og hvernig nýta eigi þær vélar, sem löngum eru ónotaðar. Sumir mundu segja, að það ætti að láta vélbátaflotann afla hráefna fyrir þessi fiskiðnaðartæki og þá fullnýttist þetta. En þessu er ekki þannig farið. Það er víða svo langsótt á fiskimiðin, að vélbátaflotinn fær ekki aflað fanga með línu og togarar, sem að vísu eru ekki til nema í stærri útgerðarbæjum landsins, eru að stærð og gerð miðaðir við það fyrst og fremst að flytja aflann á erlendan markað sjálfir, án þess að þeir hafi viðkomu í útgerðarstöð togarans og þar sé unnið úr honum. Það er ekki hægt að bæta úr þessu tvennu með vélbátaflotanum, og reynslan virðist benda til þess, að okkar stóru og dýru togarar bæti ekki úr þessu heldur. Stórútgerðin er annaðhvort eign einstaklinga eða bæjarfélaga og rekstur þeirra þá miðaður við hag útgerðarinnar sjálfrar eða þá við heimastöðvar togaranna, þar sem eigendurnir telja sig hafa skyldu til þess að sjá fyrir atvinnuþörf fólksins. En það getur verið atvinnuleysi í þessu þorpinu í ár, en í öðru næsta ár. Þess vegna er það ekki hent fáum einstaklingum að ráða við þetta. Þá má segja, að það geti verið hlutverk viðkomandi sveitarfélags að ráða fram úr atvinnuleysinu með svokallaðri atvinnubótavinnu. En slík vinna verður dýr og hún skilar ekki þeim verðmætum, sem bein aukning framleiðslunnar gerir.

Það er hugmynd okkar flm. að nota betur vinnuaflið og bæta þannig úr atvinnuleysi og nota betur atvinnutæki og á hagfelldari hátt og þetta megi gera, t. d. með því, að ríkið eigi fjögur skip og láti þau leggja upp afla sinn einkum á þeim stöðum, þar sem atvinnuleysi er. 1. gr. þessa frv. greinir frá því, hvers konar skip þetta ættu að vera. Þar segir:

„Ríkið kaupir og gerir sjálft út ekki færri en fjóra togara af þeirri stærð og gerð, sem að áliti reyndustu útgerðarmanna eru taldir heppilegastir til öflunar hráefnis á heimamiðum fyrir hraðfrystihús og önnur fiskiðjuver, sem eru illa hagnýtt vegna hráefnisskorts.“

Það má vel vera, að okkar stóru nýsköpunartogarar, sem flestir eru um 700 tonn að stærð, þyki of dýr tæki til þess að fara út á miðin og vera þar nokkra daga og fiska og fara síðan inn og leggja síðan aflann upp nýjan eins og þarf að vera, þegar á að vinna úr honum. Ég hef heyrt útgerðarmann halda því fram, að ef togarar ættu að bæta úr þessu, þá ættu skipin að vera 2–3 hundruð smál. að stærð. Slík skip eru ódýr í rekstri og þurfa ekki að hafa eins langa útivíst hverju sinni og geta skotizt inn með tveggja, þriggja sólarhringa millibili og notað til þess þann tíma, þegar veður er slæmt, og bætt með því úr atvinnuleysi í landi og afkomu fyrirtækja, sem annars skortir hráefni til vinnslu. Ef þetta væri gert, þá sýnist mér svo, að aflafengur þessi bætti mikið úr atvinnuleysi í landi og yki mikið verðmæti framleiðslunnar og bætti afkomu vinnandi fólks í þorpunum og atvinnurekstur þeirra fyrirtækja, sem hráefnið fengju. Ég hef hugsað um þetta þannig, að togararnir ættu heimilisfestu á ákveðnum stað og stjórn síldarverksmiðja ríkisins annaðist rekstur þeirra og framkvæmdarstjórn og síðan semji hún við hlutaðeigendur, sem þurfa að fá bætt úr atvinnuleysi hjá sér, um að fá til sín togara, einn eða fleiri, til þess að leggja upp aflann til vinnslu. Væri um það að ræða, að togarar ríkisins skyldu bæta úr atvinnuleysi á Vestfjörðum, þá færu skipin á fiskimiðin úti fyrir Vestfjörðum. Mér sýnist, að víða væri hægt að bæta úr atvinnuleysi á þennan hátt með því að koma upp þessari togaraútgerð.

Það hefur verið upplýst nýlega af manni, sem þekkir náið til, að síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði hafi ekki fengið meira hráefni til vinnslu s. l. ár en sem nemur tveggja sólarhringa vinnslu. Svona stór fyrirtæki hljóta að skila tapi, þegar þau standa ónotuð meginhluta ársins. Það er ætlun okkar flm., að þetta risavaxna fyrirtæki standi ekki ónotað meginhluta ársins, og höfðum við það í huga, að togarar legðu þar upp afla sinn og með því væri aukinn vinnslutími verksmiðjanna. Á sumrin mætti vonast til þess, að atvinnuleysi yrði lítið, þar sem þessi skip, 200–300 smál. dieseltogarar, eru vel fallin til síldveiða í þjónustu verksmiðjanna sjálfra. Ef einhverjum dytti í hug, að skipin yrðu gerð út af einstaklingum, er auðsætt, að skipin mundu leggja afla sinn upp víðs vegar um landið. Það yrði að gera skipin út af ríkinu sjálfu, og þá eru þau ekki bundin til atvinnuöflunar fyrir einstaka staði. Það er því lagt til, að á þessum skipum verði ríkisrekstur, sem bein afleiðing af því hlutverki, sem þau eiga að gegna. Það hafa vafalaust ýmsir gert sér vonir um, að nýsköpunartogararnir yrðu stórvirk atvinnutæki, sem mundu eiga mikinn þátt í því að eyða atvinnuleysi. En reynslan er í þá átt, að svo er ekki. Þau eru fyrst og fremst byggð af þeirri stærð og gerð, að þau séu hentug til að flytja aflann á erlendan markað. Þau eru góð atvinnutæki fyrir þá, sem vinnu njóta á skipunum, en skapa litla atvinnu í landi. Það er e. t. v. ekki við öðru að búast en að rekstri þeirra sé hagað þannig vegna þess, að gert er ráð fyrir með stærð þeirra, að þeir sigli á fjarlæg mið og með aflann óunninn á erlendan markað. Það má búast við því, að svona verði það í framtíðinni.

Reynslan af veiðunum við Grænland bendir í þá átt, að það er farið fram hjá Íslandi til að leggja aflann upp óunninn í Esbjerg. Þar er engin vinnsla á aflanum, nema hann er pakkaður inn í hessian-umbúðir og sendur með lestum til Ítalíu á sömu markaði og við seljum okkar saltfisk. Þetta er gert á meðan hér er atvinnuleysi og útgerðarmenn telja sér ekki annars úrkosta en að haga rekstrinum svona. Ef þetta er rétt, er ekki um annað að ræða en stíga annað spor til úrlausnar. Vélbátarnir ná ekki í aflann, og svo ættu togararnir e. t. v. að vera af annarri gerð. Núna er góður afli á Halamiðum, og togararnir fara ekki inn á bæi á Vestfjörðum til að láta vinna úr aflanum, heldur sigla þeir til Englands og Þýzkalands með þann afla, sem þeir fá úti fyrir Vestfjörðum. Það virðist auðsætt, að ef aflinn væri unninn í landinu, græddi þjóðfélagið mikinn gjaldeyri á því. Einstaklingar og ríkið í senn mundu bæta afkomu þeirra fyrirtækja, sem fengju aflann til vinnslu, og sveitarfélög væru aðstoðuð með þessu til að sjá mönnum fyrir vinnu, sem annars mundu leita sveitarstyrks. Okkur er kunnugt um, að fjöldi sveitarfélaga telur sig ekki geta staðið undir sínum byrðum og heimtar aðstoð. Ég og meðflm. minn töldum rétt, að ríkið aðstoðaði sveitarfélögin með því að rétta atvinnulífinu hjálparhönd. Ég var rétt í þessu að opna bréf frá Súðavík. Þar er lýst atvinnuástandinu þar, og fylgir samþykkt, er gerð var í verkalýðs- og sjómannafélaginu þar. Hún er á þessa leið:

„Fjölmennur fundur, haldinn í Verkalýðs- og sjómannafélagi Álftfirðinga 26. okt. 1951, skorar á Alþingi og ríkisstjórn að gera nú þegar alvarlegar úrbætur gegn atvinnuleysi úti um land. Fyrst og fremst með því að láta lögin um hlutatryggingasjóð (línubáta) þorskveiðideildar taka til starfa nú þegar. Enn fremur að láta togarana leggja afla sinn á land til vinnslu þar, sem skilyrði eru til þess.“

Úr mörgum áttum berast nú óskir um, að togararnir verði látnir leggja aflann á land til útvegunar hráefnis, en þó einkum frá Siglufirði, þar sem horft er á atvinnulausar hendur og skort á fjölda heimila.

Þetta þarf ekki ýtarlegri túlkun, og læt ég því útrætt um málið, en vona, að það fái góðar undirtektir, því að þetta er mikilsvert mál. — Að lokum legg ég svo til, að málinu verði vísað til hv. sjútvn.