05.11.1951
Efri deild: 24. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

91. mál, togaraútgerð ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þar sem málið fer í n., sem ég á ekki sæti í, og ég er kunnugur þessum málum, óska ég eftir, að gerð sé nánari grein fyrir þessum málum en kom fram hjá hv. þm. og í grg. frv.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að „ríkið kaupi og geri sjálft út eigi færri en fjóra togara af þeirri stærð og gerð, sem að áliti reyndustu útgerðarmanna eru taldir heppilegastir . . .“ Nú er spurningin, hvað vakir fyrir hv. flm. Er ekki rétt að heimila að verja fé á næstu fjárl. eða taka lán til að kaupa skipin, eða þá að taka fram í l., með hverju þeir hugsi sér, að skipin séu greidd og hvaða upphæð sé notuð til þess? Það kemur fram í 5. gr. frv., að „togaraútgerð ríkisins hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald, og ber ríkissjóður ábyrgð á rekstri fyrirtækisins og sér því fyrir rekstrarfé.“ Það er nauðsynlegt að taka fram í frv., til að tryggja fyrirtækinu nægilegt rekstrarfé, hve upphæðin er há og hvar eigi að afla þessa fjár, hvort sem það er rekstrarfé eða lán. Það er meiri ástæða til að minna á þetta, þegar það er kunnugt, að ríkið átti fiskiðjuver, sem kostaði 10 millj. kr., en nú er búið að auglýsa það til sölu fyrir áföllnum skuldum. Sá maður, sem veitir þessu fyrirtæki forstöðu, hefði fremur þurft á sérþekkingu að halda til að afla rekstrarfjár en að sjóða niður hráefnið, svo að hægt væri að reka fyrirtækið. — Ég held, að það sé bezt að forðast þá erfiðleika í upphafi, sem vitað er að verða, þegar ekki er séð fyrir nægilegu fé til byggingar eða rekstrar.

Ég vil einnig fá upplýsingar um það, hvort hv. flm. hyggjast kaupa þessi skip frá útlöndum og auka með því skipastólinn, og hvort þau eigi þá að vera ný eða gömul. Það er eðlilegt, að hv. þm. fái upplýsingar um þetta. — Sé hugsað að kaupa skipin innanlands, kemur tvennt til greina, annaðhvort að kaupa eitthvað af hinum nýju togurum, sem mér heyrðist að hv. þm. teldi óheppilega stærð, eða þá einhverja af hinum 30–40 ára gömlu togurum, sem eru ekki til annars en taka á land. Það er lítið eða ekkert vit í því að eyða miklu fé í að breyta þessum skipum. Við slit síðasta þings veitti hv. Alþ. ríkisstj. heimild til að ábyrgjast slík kaup, og hygg ég, að allir þeir erfiðleikar, sem ég benti á, hafi komið í ljós. Í eitt þessara skipa, sem var tekið til breytinga, er allt verðmæti fyrri eigenda horfið, og meira til. Viðgerðar- og breytingarkostnaður er kominn upp fyrir það verð, sem skipið var selt fyrir í því ástandi, sem þeir áttu að skila því. En nú er engin reynsla fengin á eyðslu þeirra við veiðar, en það er sýnilegt, að vonir standa ekki til góðs árangurs. Ég benti þá á, að þrátt fyrir það að það væri erfitt að reka slík skip, mundi reynast erfiðara að halda úti skipum af þessari stærð vegna þess, að þau gefa skipshöfninni ekki svipaðar tekjur og stærri skip. Ef á að reka þessi skip hér á Íslandi, fæst enginn maður á þau, sem þekkir þægindi og aflamöguleika stærri skipanna. Það getur komið til greina, að þessi skip afli á heimamiðum. Ég vil benda á, að þótt Jörundur sé ekki nema 450 smál., þá hefur hann stundað hér síldveiðar með ágætum árangri og togveiðar með líkum árangri og stærri skip í hlutfalli við stærðarmismun, en tekjur mannanna hafa verið hlutfallslega minni. Slík skip eru ekki fáanleg hér innanlands og vafasamt, hvort þau fást frá öðrum löndum. Ef kaupa á þessi skip hér innanlands, bætir það ekkert úr atvinnúmöguleikum, nema keyptar verði fleytur, sem ekki eru reknar og liggja í höfn. Þá kemur það til athugunar, hvort ríkissjóður eigi að fara í slík ævintýri og tapa árlega fé á því, en kaupa ekki ný skip.

Í sambandi við það, sem hv. flm. sagði um nýju togarana, að þeir reyndust ekki þau atvinnutæki, sem vonazt var eftir, held ég, að hjá honum gæti misskilnings. Það fer að sjálfsögðu eftir því, hvernig rekstrinum er hagað.

Ég vil benda hv. flm. á, að nú um langt skeið hefur togarinn Bjarni Ólafsson sótt sína veiði vestur á Halamið og lagt hana upp á Akranesi. Það, að önnur skip hafa fremur kosið að sigla með aflann, er sjálfsagt af því, að af því er talinn meiri hagnaður. Ég hygg, að afkoma þeirra skipa, sem keypt voru á gamla genginu, sé ekki betri en svo, að þau verði að halda öllu saman, selja aflann fyrir sem bezt verð og kosta sem minnstu til. Hér er ekki eingöngu um að ræða útgerðarmenn, heldur bæjarfélögin sjálf. Þar, sem bæjarfélögin eiga helming af skipunum, þá eru þau svo sterk, að þau gætu haft áhrif á þetta. Ég hygg, að reynslan hafi sýnt þeim mönnum, sem eitthvað hugsa um þetta, að veiðin getur ekki greitt allan kostnaðinn. Ég hygg, að sú hugmynd liggi á bak við hjá hv. flm. að koma þessari ábyrgð á ríkissjóð. Bæjarfélögin eru nú búin að fá nokkra reynslu af þessu og vilja nú koma þunganum á ríkissjóð, er þau telja sig ekki megnug að standa undir þessu. En nú er svo komið, að þeir staðir fara hungurgöngu til ríkissjóðs, sem höfðu útgerð á góðum árum, eins og t. d. Hafnarfjörður, er ætti að hafa í vasanum 500 þús. kr., er hefði þurft að greiða á ári, ef útgerðin hefði verið rekin af einstaklingum. Þetta ætti að vera til í Hafnarfirði og ætti að geta fullnægt atvinnuþörf í sambandi við útgerð, þó að eitthvað bjátaði á. Það er sýnilegt, að ef skipin væru minni, stæðu þau verr að vígi að afla á þessum miðum. Þegar komið er út á Hala á 200–250 m dýpi, eru stærri skip færari um að halda áfram veiði í illviðri, en þá verða minni skipin að veiða á grunnmiðum og fá þar verri fisk, en hin stærri skip geta veitt á Halamiðum og veiða þá karfa, sem er talinn seljanlegasta varan fyrir frystihúsin. Það þarf að athuga nánar, hvort rétt sé að smækka skipin. Ég held, að bezt sé að halda sér við þá stærð, sem gefur mestan hagnað, en hitt er aðeins skipulagsatriði, hvort skipin leggja upp afla sinn á Vestfjörðum eða sigla með hann, og kemur þá til greina samkomulag, er fólkið semur um kaup og kjör. — Hv. frsm. minntist á, að það væri sorglegur sannleikur, að skip, sem eru á saltfisksveiðum við Grænland, sigla til Danmerkur og leggja þar upp aflann, sem svo er seldur til Ítalíu. Ég á bágt með að skilja, hvers vegna hér eru ekki gerðar róttækar ráðstafanir til að fá einhverju um þokað. Ég er nú ekki kunnugur í landafræðinni, en ég hélt nú, að Ísland væri í leiðinni frá Grænlandi til Danmerkur og styttra væri til Ísafjarðar en Esbjerg. Það tekur um átta daga að losa skipin í Danmörku, svo að hér hlýtur að vera einhver önnur og veigameiri ástæða. Er það minni kostnaður, sem gerir ódýrara að haga rekstrinum þannig, eða er það verð, sem þeir fá fyrir aflann í Danmörku, hærra en þeir geta fengið gegnum útflutningsaðila á Íslandi? Þetta er stórt atriði, og eðlilegt er, að þetta verði upplýst. Ég mælist til, að hv. sjútvn. athugi, hvar þessi mismunur liggur.

Mér er vel kunnugt um, að þessi skip kosti 10 þús. kr. á dag. Þau eru um 8 daga að sigla til Danmerkur, og eru þar komnar 80 þús. kr. A. m. k. fara 14 dagar í þessar ferðir, og kosta þær því 140 þús. kr. Í hverju liggur það, að hægt sé að eyða þessu í ferðirnar? Mér finnst vera ástæða til að athuga þetta mál og nær að snúa frv. upp í að fyrirskipa ríkisstj. að athuga þetta nánar en að kaupa nýja togara. Þetta er bæði athyglisvert og alvarlegt, en það er ekki hægt að kenna stríðsgróðamönnum þetta, heldur bæjarútgerð Reykjavíkur, sem tók upp þessa siði. Það hlýtur að vera eitthvað alvarlegt, sem þvingar til þessarar breytni. Ég held, að það sé byggt á misskilningi, þegar hv. flm. segir, að hægt sé að leysa þennan vanda með því að samþ. frv. og kaupa þau skip, sem hér um ræðir. Væri farið að kaupa togara, sem vit væri í að flytja til landsins, mundi það taka langan tíma og miklu lengri tíma en þeir menn gætu beðið eftir úrlausn á yfirstandandi atvinnuleysi, sem í dag líða fyrir atvinnuleysi, því að mér er ljóst, að nú mundi ekki vera hægt að fá slík skip smíðuð á styttri tíma en 2—3 árum. Ættu Íslendingar að kaupa tilbúin skip í þessu augnamiði, þá veit ég ekki, hvað þau kosta, þegar búið er að gera þau upp þannig, að íslenzkir sjómenn vilji vinna á þeim og að þau geti hentað íslenzkum veiðisvæðum. Það gæti líka tekið langan tíma. Hitt dettur mér ekki í hug, að meiri hl. Alþ. fari að eyða stórum fjárfúlgum í að kaupa gömul skip, hvorki á lágu né háu verði, af íslenzkum útgerðarmönnum til þess að fara með þau inn í það ævintýri, sem því miður sumir hafa glæpzt inn á, og fara að gera þau út á ríkiskostnað. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að svo margir skammsýnir menn finnist á hæstv. Alþ., að það kæmi til mála, því að hvað mikið sem við deilum um það atriði, hvort hyggilegt og æskilegt sé að kaupa fjögur eða fimm skip og gera þau út af ríkinu til atvinnuöflunar, þá verður ekki um það deilt, að það er ekki vit í því fyrir bæi eða ríki eða einstaklinga að kaupa neitt af þeim gömlu skipum, sem nú liggja í höfnum á Íslandi, til þess að gera við þau og gera þau út. Það væri dauðadæmt fyrirtæki. Það er því miklu fremur hér um framtíðarmál að ræða, og væri kannske rétt að taka það þeim tökum að fá upplýsingar um það, hvaða skip henta okkur bezt í framtíðinni til slíkra veiða, láta svo ríkissjóð halda áfram og láta smíða þau skip og láta ríkið annaðhvort svo selja þau til annarra eða þá eiga þau sjálft. Það er annað atriði. En þetta mundi taka langan tíma, og ég er ekki viss um, þegar menn settust á rökstóla til að ákveða um stærð þessara skipa, að stærð þeirra yrði önnur eða þau yrðu minni en nýsköpunartogararnir nú, miðað við skip til venjulegra fiskveiða. Ég er hins vegar alveg viss um, að það gætu verið mjög hentug síldveiðiskip, þó að þau yrðu smærri. En það er ákaflega erfitt að koma því heim og saman að hafa sömu skipin, og þá hvort sem er að ræða um togara eða önnur skip, til þess að fiska á djúpmiðum að vetrinum og svo til þess að veiða síld á sumrin. Þó er það hægt, ef um er að ræða dieseltogara — og varla væri líka að tala um aðra togara til þessa — þó að áhættan sé of mikil til að láta þessi skip taka á sig, sem er í sambandi við síldveiðarnar að jafnaði. — Það er ekki hægt að taka í þessu sambandi dæmið af Jörundi, því að um það skip stendur nokkuð sérstaklega á. Framkvæmdastjóri útgerðar hans er hinn prýðilegasti dugnaðarmaður, og er hann stundum skipstjóri á skipinu; hann fylgist með rekstri fyrirtækisins daglega og hefur gert rekstur þessa togara að lífsstarfi sínu. Þar er stjórnað af stakri árvekni, og það er ekki víst, að slíkur árangur fengist af öllum skipum. En hvað sem því líður, held ég, að óhjákvæmilegt sé, að frv. þurfi að taka þeirri breyt., að ákveðið sé í því, hve miklu fé ríkissjóður skuli hætta í þessu fyrirtæki, fyrst í kaupverði og síðan í rekstrarfé, og þá jafnframt, hvernig fjárins skuli aflað, hvort það á að gera með lánum eða hvort á að taka það beint úr ríkissjóði með ríkisgjöldum.

Þetta vildi ég láta koma strax fram við 1. umr., fyrst frv. fer ekki til athugunar til þeirrar n., sem ég á sæti í.