08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3070)

75. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Einar Olgeirsson:

Það eru nokkur orð, sem hv. þm. Vestm. (JJós) lét sér um munn fara, sem gera það að verkum, að mér finnst nú rétt að kveðja mér hljóðs, þó að þess hefði reyndar ekki þurft eftir þá ræðu, sem hv. 7. landsk. (FRV) hélt hér áðan sem frsm. minni hl. Þar voru svo skýr rök lögð á borðið, ef rök gætu eitthvað gilt í þeim umr., sem nú fara hér fram, að ef þeir þm., sem stjórnarflokkunum og Alþfl. fylgja, væru nokkurn veginn sjálfráðir um það, sem þeir gera nú, þá hefðu þeir tekið tillit til þeirrar ræðu. Hitt er annað mál, að þannig er í pottinn búið, að það er lagt fyrir Íslendinga að gera þennan hlut, lagt fyrir Íslendinga af ríkisstj., sem hefur fjárhagsleg tök á Íslendingum nú sem stendur, þannig að hún þykist þess umkomin að gefa fyrirskipanir varðandi íslenzka utanríkispólitík, sem eru hliðstæðar þeim hegningarákvæðum, sem nú er verið að framkvæma á Íslandi með lánsfjárbanni því, sem nú gildir. Það er þess vegna til lítils að svara slíkum rökum sem komu fram í ræðu hv. 7. landsk. með því að koma með skammir til Rússa, en það er raunar ekki neitt nýtt, því að það er hlutur, sem hefur viðgengizt þar, sem ekki hefur verið hægt að koma við rökum í umræðum, eins og nazistarnir hvað bezt sýndu, sem beittu því fyrir sig í öllum sínum aðgerðum í Evrópu, þegar þeir börðu niður lýðræðisríkin, að hér væri verið að berjast gegn kommúnismanum. Á sama hátt og það var yfirvarp Hitlers að drepa lýðræðið í hverju landinu á fætur öðru, á sama hátt er kjörorð ameríska auðvaldsins barátta gegn kommúnismanum, og undir því yfirskini er verið að gleypa smáríkin í heiminum af Ameríku, verið að ræna nýlendunum af þeim og gera þessi lönd að nýlendum Bandaríkjanna og níðast á landi eins og Íslandi. Það er alls staðar yfirvarpið og alls staðar sama aðferðin, þ. e. að ná efnahagsyfirtökum á viðkomandi þjóðum og nota það vald, er þeir þannig fá, til þess að brjóta þær á bak aftur og sölsa undir sig nýlenduríki þeirra með rangindum, þannig að t. d. nýlenduríki, sem brotizt hafa undan kúgun Vestur-Evrópuríkjanna, komast nú undir aðra kúgun, þ. e. bandaríska kúgun í stað hinnar brezku, hollenzku o. s. frv. — Við Íslendingar ættum að þekkja þetta manna bezt, með tilliti til þeirrar reynslu, sem við höfum öðlazt í þessum efnum. Hvar var þetta ægilega herveldi Rússa og barátta móti kommúnismanum, þegar Bandaríkin fóru fram á það 1. okt. 1945, — er Sovét-Rússland var í sárum eftir styrjöldina, meðan Bandaríkin græddu 50 milljarða dollara, — að fá þrjár herstöðvar hér á Íslandi til 99 ára? Við Íslendingar höfum séð framan í smettið á bandarísku stórveldastefnunni án nokkurs yfirvarps. Við áttum að borga viðurkenningu þeirra á lýðveldi okkar með því að gangast undir bandaríska yfirdrottnun í stað hinnar dönsku. — Og hvernig stóð á því, að þessu smánartilboði var neitað? Af því að Íslendingar voru þá efnahagslega óháðir Bandaríkjunum. Og af hverju er Ísland nú innlimað í hernaðarkerfi Bandaríkjanna? Af því að Íslendingar komust fjárhagslega í klærnar á Bandaríkjunum og ríkisstj. þorir ekki að hreyfa sig, ekki einu sinni að byggja hús í Reykjavík, án þess að spyrja Bandaríkin, og svo koma þm. og tala um erindreka Rússa!

Við vitum vel, hvaða klær það eru, sem kreppa nú að okkur á öllum sviðum, og við vitum líka, að Bandaríkjamenn ætlast til ákveðinnar borgunar fyrir sitt Marshallfé. Samþykkt þessarar till. í dag, þessi smán, er ein afborgunin.

Bandaríkjamenn byrjuðu á herveldisstefnu sinni strax að lokinni síðustu styrjöld. Roosevelt var ekki fyrr dáinn en þeir menn, sem tóku þá við stjórn í Bandaríkjunum, tóku að búa til heilan hring af herstöðvum fyrir Bandaríkin í heiminum, og þarf þess vegna ekki annað en líta á kortið, alla leið hér frá Íslandi og Noregi um Evrópu, Asíu allt til Japans, til þess að sjá, hvernig bandarískar herstöðvar og bandarískir hermenn eru í þessum löndum. Það þarf enginn að reyna að telja mönnum trú um, að þetta sé gert til varnar Bandaríkjunum, eða mundi nokkrum þm. detta í hug að trúa því, ef Rússar gerðu samning við Mexíkó eða Kanada, að slíkt væri gert til þess að vernda Sovétríkin?

Ég held þess vegna, að það sé ekki rétt af hv. þm. að vera að þreyta umr. um þessi mál. Ef þeir ætla að halda sér á þessu striki rakanna, væri eiginlega miklu viðkunnanlegra fyrir þá að heyra og hlýða bara, þegar yfirboðarar þeirra segja við þá: Nú gangið þið í Atlantshafsbandalagið. Nú gerið þið Hund-Tyrkjabandalag. Nú gangið þið í bandalag við Franco. Nú gerið þið yfirleitt það, sem við óskum. — Og það er einmitt þetta, sem Bandaríkin eru eiginlega að gera. Þau neyta sinnar efnahagslegu aðstöðu til þess að pína smáríkin til að láta undan sínum kröfum. Svo er komið hér og sagt til okkar fólks, að við séum talsmenn einræðis og postular ofbeldis, á sama tíma og verið er af hálfu Bandaríkjanna að skipuleggja ofbeldi og einræði í hverju landinu á fætur öðru.

Nú á allra síðustu árum hefur gengið mjög öflug frelsisalda yfir hinar undirokuðu nýlendur, sem hvarvetna hafa hafið uppreisn gegn kúgurunum, og er nú þessi frelsisbarátta að komast í algleyming. Asía er nú að létta af sér þessum fjötrum auðvalds Evrópu og Ameríku. Það væri sú argasta blinda, sem við, sem höfum verið kúgaðir sem nýlenduþjóð, gætum gert okkur seka um, ef við færum að túlka þessa frelsishreyfingu hinna undirokuðu nýlenduþjóða í þessum löndum sem einhverja einræðis- og ofbeldishreyfingu. Hitt er annað mál, að flestum þessum þjóðum er ekki eftir skilin önnur leið en sú, sem Bandaríkin sjálf á sínum tíma grundvölluðu ríki sitt með, uppreisn og bylting gegn nýlendukúgurunum til þess að koma frelsishreyfingu sinni fram. Það, sem nú er að gerast í löndum eins og Indókína, er nákvæmlega það sama og gerðist fyrir 150 árum, þegar Bandaríkjamenn sjálfir hófu uppreisn gegn Bretum til þess að losna undan kúgun þeirra. Við værum að smána alla okkar frelsisbaráttu og alla okkar fortíð sem þjóðar, sem hefur barizt sem nýlenda fyrir frelsi sínu, ef við stæðum ekki aðeins skilningslausir gagnvart þeirri frelsishreyfingu, sem þarna gerist, heldur stæðum beinlínis gegn henni.

Hv. frsm. meiri hl. minntist á Grikkland og talaði um frelsisbaráttu þess. Gríska þjóðin var búin þegar árið 1944 að hrinda af sér oki nazismans. Hún var búin að reka nazismann af höndum sér, þegar brezkur her var settur á land í Grikklandi. Og hvert var svo byrjunarverk Bretanna, eftir að þeir komu til landsins? Það var að ráðast gegn grískum skæruliðum og grískum frelsishetjum með það fyrir augum að reyna að festa tökin á Grikklandi, þau illræmdu tök, sem Bretar eru vanir að beita. Og þegar Bretar treystust ekki einir til að ráða niðurlögum grísku skæruliðanna, var kallað á Bandaríkin til hjálpar, enda þótt brezku imperialistunum væri síður en svo vel við að fá þá amerísku með í leikinn. Síðan er það sendiherra Bandaríkjanna í Aþenu, sem er hinn raunverulegi stjórnandi Grikklands, svo að það mun komið svo, að ráðuneytisfundir fara yfirleitt fram að honum viðstöddum. Gríska þjóðin er nú aftur hneppt í viðjar nazismans, og sömu mennirnir sem börðust gegn þýzku nazistunum á stríðsárunum verða nú að berjast gegn yfirdrottnunarstefnu Bandaríkjanna og Bretlands. Og fangabúðirnar í Grikklandi eru alræmdar um allan heim og það meira að segja svo, að jafnvel í brezka þinginu komast menn illa hjá að fletta ofan af þeirri skuggalegu starfsemi. Og þegar verið er að tala um það, að Grikklandi sé stjórnað með lýðræðis- og þingræðisfyrirkomulagi, er gott að minnast þess, að enn sitja 10 þingmenn, sem kosnir voru við síðustu kosningar, í fangabúðum þvert ofan í ákvæði stjórnarskrárinnar, og meðal þeirra er einn af mestu frelsishetjum Grikklands, ritstjóri blaðs kommúnistaflokksins. Ég býst við, að það hafi verið af vanþekkingu, þegar hv. þm. Vestm. talaði um hryðjuverk, sem hefðu verið framin á grískum börnum, þegar grísku skæruliðarnir voru að koma börnum sínum undan til landa, þar sem þau áttu ekki á hættu að verða myrt, eins og nú er gert í Grikklandi. Voru það hryðjuverk? Þegar borgarastyrjöld geisar í einu landi og barizt er af þvílíkri hörku sem gert var í Grikklandi, ætti að vera hægur vandi að setja sig í spor þeirra bænda og annarra skæruliða, sem berjast við konungssinna, þegar þeir sáu, að þeir voru að tapa og þeirra fjölskyldur að falla í hendur óvinanna. Hver mundi þá lá þeim, þótt þeir reyndu að bjarga sínum börnum frá því að lenda í höndum andstæðinganna og eiga það á hættu að verða myrt? (JJós: Er þetta hin kommúnistíska skýring á barnaránunum?) Þetta er engin kommúnistisk skýring, heldur staðreynd, sem hver og einn getur kynnt sér, ef hann les skýrslur nefndar þeirrar, sem Sameinuðu þjóðirnar sendu til Grikklands. Þar er líka hægt að sjá, hvað margir aðstandendur grískra barna dveljast í löndunum norðan grísku Landamæranna, og hefur verið reynt á allan hátt að knýja þetta fólk til að hverfa til baka heim aftur. Það er ekkert til í þessu, sem heitir kommúnistisk skýring. En menn gætu auðveldlega haldið, eftir að hafa lesið sífelldan áróður Morgunblaðsins og annarra auðvaldsblaða, að það fælist einhver sannleiksneisti í þessu. Það voru engir kommúnistar eða þeirra blöð, sem hv. 7. landsk. vitnaði í hér áðan. Það voru vel metnir amerískir borgarar, demókratar, replublikanar, hershöfðingjar og dómarar. Utanríkispólitík Bandaríkjanna hefur verið með þeim hætti, að þessum mönnum og öðrum Bandaríkjamönnum hefur ógnað, hve gífurlega afturhaldssöm hún hefur verið. Þeir hafa beinlínis óttazt um það, að Bandaríkin mundu að lokum standa ein uppi í heiminum, vegna þess að þau studdu sig við allt það afturhaldssamasta og hataðasta í heiminum, svo sem hin nazistísku öfl Grikklands og Tyrklands. Það er þetta, sem allir sjáandi menn koma auga á. Ég hefði því haldið, að viðkunnanlegast væri að lofa þessari till. að fara og taka hana ekki upp að nýju. Við skiljum ósköp vel, hvað er að gerast, þegar meiri hl. Alþ. flekar Ísland inn í þetta bandalag og gengur síðan í bandalag með Grikklandi og Tyrklandi. Og mér þætti gaman að kasta þeirri spurningu hér fram, hvort þeim hv. þm., sem standa að þessum samningi, mundi nokkuð flókna við, þótt næstur í röðinni yrði samningur við Spán. (LJóh: Gerðu ekki kommúnistar samning við Hitler um árið?) Ég er reiðubúinn hvenær sem er til að ræða við þennan hv. þm. um pólitík Evrópu yfirleitt og reyna að fræða hann betur um þessi mál en hingað til virðist hafa verið gert, því að ég er hræddur um, að honum sé ekki fyllilega ljóst, um hvað hann er að tala. Og mér finnst það honum varla samboðið að kasta hér fram gömlum og þvældum slagorðum úr Morgunblaðinu. En það, sem hér er til umræðu, er afstaða okkar Íslendinga til þessa samnings við Grikkland og Tyrkland, og það yrði sannarlega smán fyrir Ísland, ef þessi till. yrði samþ. En þeir hv. þm., sem vilja gera okkur það til skammar, þeir um það. En rök hafa ekki verið færð hér fram fyrir þessu máli, enda er hér um fyrirskipun að ræða frá herraþjóðinni, Bandaríkjunum. Þau hafa sýnt áður, t. d. í október 1945, að þau líta á okkar land sem herstöð og bækistöð hinnar amerísku heimsveldisstefnu, og þau halda því fram, að stjórn landsins beri að hlýða þeirra kalli, hvort sem um er að ræða hermál eða utanríkismál. Ég býst við, að nú sé verið að undirbúa þingheim undir þá fyrirskipun, sem leggja eigi fyrir Alþ. næst, sem sé þá, að nú eigi Ísland að hervæðast, nú eigi Ísland að leggja til hermenn og búast til vopna, svo að það verði verðugt þess heiðurs að berjast við hlið Hund-Tyrkjanna. Ég býst við, að það verði næsta skref, sem þingmenn verða látnir stíga, að samþ. hervæðingu Íslands. Mér sýnist, að nú séu hæstv. ráðh. Sjálfstæðisfl. orðnir þreyttir á að standa einir í hervæðingunni og nú eigi að taka Heimdellinga með í leikinn. En þeir menn, sem vilja og geta hugsað um, hvert við erum að fara með því að ganga fyrst í Atlantshafsbandalagið, síðan í bandalag við Tyrki og Grikkland, — þeir menn, sem vildu athuga, hvar þvílíkt mundi enda, þeim væri bezt að spyrna nú þegar við fótum.