17.10.1951
Sameinað þing: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3078)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður. — Ég vil þakka þær góðu undirtektir, sem þessi þáltill. hefur fengið. Sumum þm. hefur þó fundizt till. nokkuð væg. Hv. þm. Vestm. sagði, að full ástæða væri til þess, að n. herti á ákvæðum till. En oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Ég hygg, að svo megi verða, að þessi litla till. verði til þess, að hér rætist verulega úr vandanum. Mér virðist, að aðrar till., sem komið hafa fram um þetta efni, sanni rétt þessarar till. Þessi till. er ekki eins væg og hv. þm. vilja vera láta. Hv. þm. hafa talað um, að aðalefni till. þessarar væri, að ríkisstj. eigi að rannsaka málið og safna skýrslum og leggja síðan fyrir þingið tillögur til úrbóta. Þetta er ekki vægt, ef það nær fram að ganga, að lagðar verði fram till., sem við það miðist, að hægt sé að fullnægja lánsfjárþörf til að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Það mætti hugsa sér að vísa þessu máli til þingn., en ekki hæstv. ríkisstj., og það væri lítils virði að vísa svona máli til ríkisstj., sem maður bæri ekki traust til og byggist ekki við að mundi sinna því. Ég gat þess, að við flm. till. vissum, að einstakir ráðh. innan ríkisstj. væru okkur sammála um efni till. Með hliðsjón af þeirri afstöðu einstakra ráðh. og hæstv. ríkisstj. tel ég veigameira að hafa þann hátt á málinu að vísa því til hæstv. ríkisstj. fremur en til þingn. — Þetta vildi ég árétta, til þess að menn líti ekki smáum augum á gildi þessarar till. og telji, að hún mætti vera ákveðnar orðuð.