08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (3091)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er verst, að frsm. meiri hl. skuli ekki vera staddur hér núna. Það er óvanalegt að halda kvöldfundi svona snemma þings. Málið er þess eðlis, að umræður um það verða sennilega ekki langar, sérstaklega þegar meiri hl. nefndarinnar hefur ekki svo mikið við að mæta hér á þessum fundi.

Hv. þm. Ak., frsm. meiri hlutans, kom nokkrum orðum inn á þær forsendur, sem meiri hlutinn telur sig hafa fyrir því að samþ. þessa till. með því orðalagi, sem á henni er. Hann komst svo að orði í sinni ræðu, að bankarnir teldu sig ekki hafa peninga til þess að lána til íbúðarhúsabygginga. Mér virtist svo sem hann vildi ekki fara nánar inn á þau mál. Hann vildi ekki sjálfur dæma um það, hvort peningar væru til í bönkunum og hvort bankarnir gætu þetta eða ekki. Það er í þessu sambandi eðlilegt að koma að því máli, að hér á Alþ. líður ekki sá dagur, að ekki sé útbýtt frv. til þess að tryggja lánsfé bankanna, og nú síðast í dag var einu slíku frv. útbýtt. Það er sýnilegt, að flm. þessara till. telja, að bankarnir hafi peninga til umráða. Mér þótti farið nokkuð einkennilega í þetta af hv. frsm. meiri hl., því frá því að málið var hér fyrst til umr. hafa komið fram upplýsingar í þessu máli, sem sé hvernig á þessari lánsfjártregðu standi. Hæstv. viðskmrh., sem fer með fjármál bankanna fyrir hönd ríkisstj., hefur lýst því yfir hér á Alþ., að hann hafi skrifað til bankanna um það, að þeir skyldu fara ákaflega varlega í að lána út fé, að þeir skyldu næstum hætta útlánum. En hvers konar fyrirmæli eru þetta, sem ríkisstj. hefur gefið til bankanna um útlánastarfsemina? Það ætti að vera hægt um heimatökin að spyrja hæstv. ríkisstj. um það, hvað hún hafi eiginlega lagt fyrir bankana að gera og gera ekki. Það hefur upplýstst síðan fyrri umr. fór hér fram, að það er hæstv. ríkisstj., sem stendur fyrir því, að lánveitingar til íbúðabygginga eru bannaðar. Það væri því eðlilegt, að fyrst og fremst væri rætt við bankamálaráðherra um þetta mál og hann fenginn til að svara fyrir sína afstöðu í þessu máli. En nefndin gerir þetta ekki. Hún notar ekki tækifærið til þess að ræða við hæstv. ráðh. um þetta.

Hv. þm. Ak. sagði orðrétt: „Til þess að tryggja góða lausn málsins telur meiri hluti n. eðlilegt, að ríkisstj. hafi forustuna“. Forusta hæstv. ríkisstj. hefur hingað til verið slík, að það er hún, sem hefur gefið fyrirmælin um að banna að lána til íbúðarhúsa. Þannig er hægt að færa sönnur á, að það er hæstv. ríkisstj., sem hefur bannað að lána til íbúðarhúsabygginga, og að hún hefur sérstakan ráðunaut til þess að athuga um þetta. Og svo segir meiri hluti n., að það sé eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. hafi forustuna til að tryggja lán til íbúðarhúsabygginga. Mér virðist þetta alleinkennileg ályktun. Ég er hræddur um, að samþykkt þessarar till. væri yfirvarp til þess að drepa allar aðrar till., sem hér koma fram til raunhæfra úrbóta. Þá mundi verða alltaf vísað til þessa og sagt, að við höfum falið hæstv. ríkisstj. forgöngu í þessum málum, og svo drepnar allar þær till., sem raunverulega stefna til úrbóta í þessu vandamáli.

Hv. 7. þm. Reykv. fór nokkuð inn á það í ræðu sinni, hversu vel mætti treysta forustu Sjálfstfl. í þessu máli og hvernig hann hefði haft forustu í öllum þeim málum, sem lögð voru fyrir síðasta Alþ. Það er rétt, að þm. Sjálfstfl. fluttu þáltill. um að gefa frjálsa byggingu smáíbúða. Þáltill var að vísu samþ. á Alþingi, en ráðh. Sjálfstfl. hafa svikizt um að framkvæma það, sem í henni fólst. Og hvernig fór um frv. um sama efni á síðasta þingi? Hv. 7. þm. Reykv. minntist á, að það hefði verið Sjálfstfl., sem hefði haft forgönguna um þessi mál þá, sem meiri hluti fjhn. lagði fram. Það er ekki von, að honum sé vel við það nú, að ég komi inn á þessi mál, en það var þá ágæt samvinna við Sjálfstfl., og frv. gekk gegnum Nd., og í Ed. fékk það góðar undirtektir, og fjhn. Ed. mælti með frv. og lagði til, að það væri samþ. En man hv. 7. þm. Reykv. eftir því, hvað gerðist svo? Jú, þá gerðist það, að kippt var í spottann. Það gerðist hlutur, sem aldrei fyrr hafði gerzt síðan ég varð þm., og ég held, að langt megi leita til þess að finna slík dæmi. Það, sem gerðist, var það, að meiri hlutinn skipti skyndilega um skoðun og lagði til að vísa frv. frá með rökstuddri dagskrá. Og það gekk svo langt, þegar atkvgr. fór fram um þetta mál, að sumir þm., eins og þm. Alþfl., sem höfðu verið tregir í þessu máli, sögðust ekki geta gengið inn á þessa afgreiðslu og greiddu atkv. móti hinni rökstuddu dagskrá sökum þess, hve einkennilega þetta mál bar að, og einn sjálfstæðismaður greiddi atkv. gegn þessari rökstuddu dagskrá. Það hefur komið í ljós, að það, sem gerðist, var, að fulltrúi hinna bandarísku stofnana á Íslandi bannaði þetta, bannaði, að efni til byggingar íbúðarhúsa væri gefið frjálst með lögum, og nefndin var ekki sein á sér að skipta um skoðun og breyta eins og af henni var krafizt. Með öðrum orðum, þessi ágæta forusta Sjálfstfl. fyrir þessum málum, sem hv. þm. var að tala um, reyndist ekki haldbetri en svo, að hún bilaði, þegar kippt var í spottann, og frv. var vísað frá og allt jafnófrjálst og áður. Nú, þegar lagt er til, að allt verði með sama hætti, er sýnt, hver árangurinn verður. Ég held þess vegna, að ef á að gefa Íslendingum kost á að byggja yfir sig íbúðarhús, þá beri ekki að fela ríkisstj. forustuna í þessu máli.

Það er nú orðið alllangt síðan fyrri hluti þessarar umr. fór fram, og þess vegna hirði ég ekki um að ræða um allt það, sem þá kom fram í ræðum manna og ég hefði tekið með, ef umr. hefðu þá verið lengri. Mig hefði langað til þess, satt að segja, að stríða svolítið hv. 7. þm. Reykv. og 6. landsk. þm. Ég man, að hv. 7. þm. Reykv. talaði um það, að Sjálfstfl. hefði gert mikið gott á Ísafirði. En hvernig gerði hann þetta? Hann hafði víst ekki hreinan meiri hluta þar. Hv. 6. landsk. þm. var að hæla sér af því að hafa þurrkað út kommúnismann á Vestfjörðum, meðan hann greri vel hér í Reykjavík. En þessir menn hafa undanfarið orðið að stjórna Ísafirði með þeim. En látum það nú vera.

Ef athuguð er till. meiri hlutans, er það svo, að svo framarlega sem Alþ. vill endilega afgr. þetta mál nú í skyndi með nokkurri tryggingu fyrir því, að eitthvað verði gert í þessu máli, þá væri réttast, ef samþ. á till. þessa, að orða hana með nokkuð öðrum hætti en meiri hlutinn vill orða þessa till. Ég skal geta þess, að ég mun greiða atkv. með þeirri rökstuddu dagskrá, sem minni hlutinn flytur, vegna þess að ég álit, að það sé sjálft Alþ., sem á að afgr. þetta mál. En ef svo færi, að hin rökstudda dagskrártill. yrði felld, þá ættu þeir, sem eru svo bráðlátir að samþ. þetta mál, að geta fallizt á að breyta orðalagi sinnar till., og þess vegna ber ég fram brtt. við till. meiri hlutans, sem ég skoða sem varatill., ef rökstudd dagskrártill. minni hlutans verður ekki samþ. En brtt. mín er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj. að rita bönkum ríkisins tafarlaust hin eindregnustu tilmæli um að auka nú þegar lán til íbúðarhúsabygginga og aðstoða svo sem þeir frekast megna alla aðila, sem að því vinna að útrýma heilsuspillandi íbúðum og bæta úr húsnæðisskortinum. Skal bönkunum þar með tjáður sá vilji Alþingis, að aukin séu nú þegar stórum lán til íbúðarhúsabygginga, unz því þingi, er nú situr, hefur unnizt tími til þess að afgreiða lög, er tryggi enn frekari lánveitingar til íbúðarhúsabygginga og mæli fyrir um aðrar ráðstafanir í lánsfjármálum til lausnar húsnæðisvandamálunum.“

Í fyrri hluta þessarar till. felst það, að ríkisstj. beini þeim tilmælum til bankanna eftir vilja og ósk Alþ., að bankarnir auki lán til íbúðarhúsabygginga. Nú er það upplýst, að bankamálaráðherra hefur fyrirskipað bönkunum að ganga í öfuga átt, að vanast að lána til íbúðabygginga. Með þessu væri það tryggt, að hæstv. ríkisstj. mundi þá skora á bankana að lána allt það fé, sem þeir gætu, í þessu skyni. — Með síðari hluta till. minnar tekst Alþ. á herðar þá skuldbindingu að afgr. á þessu þingi lögin um þetta mál, og með því móti mundi ríkisstj. gefast kostur á að hafa forustu um að tryggja lánin. Ég vona þess vegna, að þeir, sem ekki sjá sér fært að samþ. hina rökstuddu dagskrá, geti samþ. þessa till. í því formi, sem ég hef lagt til.