08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (3093)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta verða rétt örfá orð — aðeins athugasemd.

Hæstv. dómsmrh. tók til máls eftir að ég talaði hér og bar á móti því, að er hv. þm. Vestm. gegndi störfum fjmrh., hafi hann gert kröfu þess efnis, að framkvæmd III. kafla l. um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis yrði frestað, en eignar sér heiðurinn af því. Það er nú gott og blessað. Það má vera, að hann hafi gert það, ég skal ekki metast um það við hæstv. dómsmrh., en svo mikið er víst, að þessir höfuðstólpar Sjálfstfl. hafa reist sér hurðarás um öxl fyrir ríkið. En hafi það nú verið svo, að ríkinu hafi verið um megn að færast það í fang að útrýma heilsuspillandi húsnæði, þá hefði mátt búast við, að þessi flokkur reyndi að finna aðrar leiðir. — Hæstv. dómsmrh. vildi halda því fram, að flokkur sinn hefði haft forustuna í húsnæðismálunum. Þessu eru nú reyndar haldið fram í öllum málum hér á Alþingi af forkólfum Sjálfstfl., að hann einn allra flokka hafi forustu í öllum málum. En hvernig er þessu annars varið með húsnæðismálin? Það ætti að vera kunnara en frá þurfi að segja, að í húsnæðismálunum hefur þeim allra merkasta áfanga verið náð, er l. um verkamannabústaði voru sett að frumkvæði Alþfl.

Sjálfstæðismenn börðust sem ljón á móti þessari lagasetningu á sínum tíma. Þetta mál hefði ekki komizt heilt í höfn, ef Sjálfstfl. hefði mátt þar nokkru ráða. Þessi gagnmerku l. voru knúin í gegn af þeim Héðni Valdimarssyni, Guðmundi Í. Guðmundssyni o. fl., sem stóðu að þessari lagasetningu. Hefði merki Alþfl. verið haldið uppi í þessu máli í öllum kaupstöðum landsins, væru viðhorfin til húsnæðismálanna nú með öðrum hætti.

Þá vék hæstv. dómsmrh. að Ísafirði, að Ísfirðingar hefðu orðið seinir til byggingar verkamannabústaða. Vegna þess, hversu Ísfirðingar áttu erfitt um vik fjárhagslega, þá varð harla erfitt um framkvæmdir. Hins vegar er úr rættist, þá var fljótt hafizt handa, og nú eru 28 íbúðir tilbúnar og 18 nýjar eru í smiðum. Á Ísafirði búa nú 8–9% íbúanna í verkamannabústöðum. En hversu margir búa í verkamannabústöðum í Reykjavík? Hver er hundraðstalan í höfuðstaðnum? (Dómsmrh.: Hvar hefur fjölgun fólksins verið meiri?) Ég vil benda hæstv. dómsmrh. á það, að því örari sem fólksfjölgunin er í bænum, því brýnni skylda hvílir á herðum yfirvaldanna að leysa húsnæðisvandræðin. Það var ranghermt hjá hæstv. ráðh., að Sjálfstfl. hafi bætt úr húsnæðismálum Ísafjarðar. Bæjarbyggingarnar, sem byggðar voru fyrir nokkrum árum á Ísafirði, voru grundvallaðar af Alþfl. meðan hann hafði meirihlutaaðstöðu í bæjarstjórn kaupstaðarins. Og kommúnistar áttu heldur engan heiður af því, að ráðizt var í þær framkvæmdir, fremur en íhaldið. Heiður þeirra beggja var sá, að hvorugur þorði að hætta við þær framkvæmdir, sem byrjað var á í þessum efnum, og þakka ég þeim það ekki. Hæstv. ráðh. lét sem hann hefði einhvern kunnugleika af húsnæðisleysinu á Ísafirði og sagði, að þá hefði ekki verið þar nema urðin ein, á þeim tíma, sem hann tiltók, á sama tíma og verkamannabústaðir hefðu þegar verið byggðir í Reykjavík. Þetta er ekki rétt. Á þeim tíma var byrjað að byggja verkamannabústaði á Ísafirði. Þetta var á þeim tíma, þegar núverandi hæstv. dómsmrh. bauð sig fram til þings á Ísafirði, en kolféll. Gremja hans stafar af því, að hann féll við þær kosningar. Afrek Sjálfstfl. sjást frá þeim tíma á Ísafirði á Pálsborg og Vallarborg. Það er vitað mál, að Sjálfstfl. hefur engin afrek unnið í húsnæðismálum Ísafjarðarkaupstaðar. Niðurstaða þessa máls í samanburði á húsnæðismálum í Reykjavík og á Ísafirði er í stuttu máli: Á Ísafirði er sem stendur ekkert húsnæðisvandamál, og er það fyrst og fremst að þakka aðgerðum Alþfl. En hvernig er húsnæðisástandið í Reykjavík að loknu mesta góðæri, sem komið hefur yfir þjóðina? Húsnæðisástandið í Reykjavík er að loknu mesta góðæri í sögu þjóðarinnar svo ömurlegt, að telja verður það smánarblett á þjóðfélaginu. Á þskj. 53 er ástandinu lýst svo:

„Árið 1946 voru 1884 kjallaraíbúðir í Reykjavík, og í þeim bjuggu 6089 manns. 2037 manns bjó í kjallaraíbúðum, sem taldar voru lélegar, 411 íbúðum, sem taldar voru mjög 1élegar, og 260 í óhæfum íbúðum. Flestar þessara íbúða munu enn vera í notkun. Og íbúum herskálanna hefur lítið fækkað á undanförnum árum. Í árslok 1948 bjuggu 2158 manns í bröggum, þar af 869 börn, og í árslok 1949 2170 manns, þar af 924 börn. Samkvæmt athugun, sem gerð var á fyrri hluta þessa árs, kom í ljós, að íbúar herskálanna voru 1709,þar af 774 börn innan 16 ára aldurs. Í mörgum öðrum kaupstöðum og kauptúnum landsins er ástandið sízt betra.“

Hæstv. dómsmrh. hefði ekki átt að gera þennan samanburð við Ísafjörð. Annaðhvort hefur hann ekki kært sig um að fara rétt með eða bregður fyrir sig að skrökva eða hann þekkir ekki eins vel til mála á Ísafirði og hann hefði átt að gera fyrir nokkrum árum að minnsta kosti.