12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (3118)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég bað um frest á sínum tíma vegna fram kominnar brtt. frá hv. þm. Barð., sem fer í þá átt að teygja þessa rannsókn inn á breiðari grundvöll, þannig að hún nái til allra skipa. En upphaflega till. frá hv. 4. landsk. var þannig, að farið var fram á, að rannsaka skyldi slys á togurum, en allshn. virðist rétt, að rannsóknin nái til slysa á vélbátum líka, og heldur sér þar við fiskiskipin. Nú kom brtt. hv. þm. Barð. fram, og sé ég að vísu, að hún er samhljóða till., sem Farmanna- og fiskimannasambandið hefur gert. Eins og ég áður lýsti, þá vildi ég ræða við nefndarmenn um það, hvaða viðhorf þeir hefðu gagnvart þessari sérstöku breytingu. Ég lagði þessa till. hv. þm. Barð. fyrir nefndina, og leit n. svo á sem heild, að það væri ekki heppilegt að hafa rannsóknina svo víðtæka sem hún yrði með brtt. hv. þm. Barð., þar sem þá ynnist minni tími til þess að gæta að slysum á fiskiskipum, en manni virðist, að þau komi miklu oftar fyrir á togurum og vélbátum en á flutningaskipum. Hins vegar gerir n. þetta ekki að sérstöku deilumáli og hver nefndarmaður sjálfráður, hvernig hann greiðir atkv., en n. leggur öll áherzlu á, að brtt. á þskj. 185 verði samþykkt.