21.11.1951
Sameinað þing: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (3186)

52. mál, rannsókn virkjunarskilyrða á Vestfjörðum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir góðar undirtektir undir þessa till. Ég verð þó að segja, að mér urðu nokkur vonbrigði að þeim upplýsingum, sem hann gaf. Hann taldi, að ef fjárveitingar yrðu svipaðar til raforkuframkvæmda á fjárlögum og verið hefur undanfarin ár og lánsfé yrði svipað á næstu 2–3 árum, yrði aðeins hægt að ljúka þeim framkvæmdum, sem þegar eru hafnar. Það er engan veginn til að vekja miklar vonir um, að skriður komist á framkvæmdir, að heyra þær upplýsingar, að ekkert verði hægt að gera í þessum efnum næstu 2–3 ár, og á þeim tíma getur margt gerzt og gerist áreiðanlega margt.

Ég dreg ekki í efa, að það muni vera nokkuð erfitt að fá fjármagn til að fullnægja í skjótu bragði kröfum fólksins um raforku. En ég vil benda á, að það er ekki hægt með nokkurri sanngirni að láta fjárskort til slíkra framkvæmda alltaf bitna á sama fólkinu. En það er það, sem er að gerast. Hvað þýðir í dag fjárskortur til þessara framkvæmda? Hann þýðir ekki það, að þeir, sem fyrir löngu hafa fengið rafmagn, eigi að bíða eftir viðbótarframkvæmdum. Hann þýðir ekki, að stærstu kaupstaðirnir og kauptúnin, sem fyrst fengu raforku, eigi að bíða, meðan þeir, sem ekkert hafa fengið, fái einhverja úrlausn. Þetta er reynsla, sem hv. þm. er áreiðanlega vel kunnugt um. Það eru fyrst og fremst tveir landshlutar, sem hafa orðið útundan í þessum efnum, og það eru Austfirðir og Vesturland, nema hluti af Suðvesturlandi. Og sagan á að endurtaka sig. Skorturinn á fjármagni á framvegis sem hingað til að bitna á sama fólkinu. Þar á ekkert að gera, og fólkið á bara að trúa á ljós og birtu hinum megin. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að menn ylja sér varla við tilhugsunina um, að barnabörn þeirra fái að njóta raforkunnar einhvern tíma í framtíðinni. Þó að menn hugsi til framtíðarinnar og geri sér ljósar skyldur sínar við hana, líta þeir þó allajafna meira á eigin hag. Það er ekki nema mannlegt að líta á eigin hag og aðstæðurnar til að lifa og starfa. — Skal ég svo ekki fara frekar út í þetta. Þetta er ósanngjarnt, og við getum talað eins lengi og við viljum um þá öfugþróun, að fólkið flytji í kaupstaðina, en þessi þróun hættir ekki fyrr en meira er gert til að stöðva hana en gert er.

Ég vil svo ljúka þessum hugleiðingum með því að beina því til hæstv. landbrh., sem ég veit að hefur fullan skilning á þessum málum, að hæstv. ríkisstj. leggi áherzlu á, að sá skortur á fjármagni, sem nú er, verði ekki alltaf látinn bitna á sama fólki og að hærri upphæð verði tekin upp í fjárlög til raforkuframkvæmda og reynt verði að afla lánsfjár til að koma upp virkjunum í þeim landshlutum, þar sem fólkið á undanförnum áratugum hefur orðið að lifa í voninni, en er nú orðið þreytt á að lifa í svo veikri von sem þessi reynist. — Það er sjálfsagt rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það er ekki nóg að fara fram á rannsókn á virkjunarskilyrðum, en hitt er líka rétt, að frumskilyrðið er að hafa fyrir hendi nákvæmar rannsóknir og áætlanir til þess að geta ráðizt í framkvæmdirnar sjálfar. Rannsókn verður alltaf að vera undanfari framkvæmdanna og einnig nú. — Ég vil svo ítreka þá ósk mína, að þessu máli verði vel tekið hér og að ríkisstj. geri það, sem frekast er unnt til aukningar fjármagninu til þessara framkvæmda, svo að þeir landshlutar, sem orðið hafa útundan, fái leiðréttingu sinna mála.