14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (3211)

51. mál, mótvirðissjóður

Flm. (Pétur Ottesen):

Það eru aðeins örfá orð. — Hv. 2. þm. Reykv. fór nokkrum orðum um þá yfirlýsingu, sem ég gaf um þessa till. Hann bar fram fyrirspurn um það, hvaða skilning við flm. legðum í þessa till. Ég held ég hafi gefið skýra yfirlýsingu um það, hvað í till. felst. Hæstv. landbrh. hefur svo sagt sitt álit á því, hvernig ríkisstj. mundi líta á slíka yfirlýsingu, og er það í samræmi við skoðun okkar flm. á því, hvernig skilja beri till.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að till. þessi rækist á niðurlag þeirra l., sem hann minntist á. Vil ég í þessu sambandi benda á, að svo er ekki, því að við gerum ráð fyrir, að fé þessu verði síðar ráðstafað með l., en að sú ráðstöfun brjóti ekki í bága við anda og tilgang till.

Hv. þm. Hafnf. talaði um, að það væri gott, að ríkisstj. hefði fé þetta til ráðstöfunar til þess að leysa efnahagsvandamálin á hverjum tíma. Við viljum gera þær ráðstafanir, sem við álítum raunhæfastar, til að koma í veg fyrir efnahagsvandræði í þessu landi, þ. e. að skapa sem bezt skilyrði fyrir landbúnaðinn. Þetta er megingrundvöllur þessa máls, og það er bjargföst skoðun okkar flm., að með till. sé efnt til raunhæfra ráðstafana í þessu efni.