17.01.1952
Sameinað þing: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (3278)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Umr. um þessa till., er borin var fram af hæstv. ráðh., eru nú komnar á allbreiðan grundvöll, þar sem nú er farið að ræða um atvinnuástand almennt um allt land. Fram hafa komið hér till. um að veita Siglufirði aðstoð og enn fremur Ísafirði og Reykjavík, og er þá komið nokkuð út fyrir þann grundvöll, er upphaflega till. gaf tilefni til.

Eins og öllum hv. þm. mun kunnugt, er atvinnuástandið á Akureyri síður en svo gott. Þetta er engin nýlunda, því að atvinna hefur oft verið mjög lítil þar yfir vetrarmánuðina. Bæjarstjórnin á Akureyri hefur eðlilega haft miklar áhyggjur út af þessu slæma ástandi og hefur haft til athugunar, hvað helzt væri tiltækilegt til að bæta úr þessu ástandi. Hefur þá þótt einna tiltækilegast að leita úrlausnar á þessu máli í sambandi við togara bæjarins, en þar eru nú gerðir út fjórir nýsköpunartogarar, og hefur verið ráðgert að stuðla að aukinni uppskipun togaranna í bænum og nýtin afla þeirra þar. Á sínum tíma mun því bæjarstjórnin hafa skipað fjögurra manna nefnd til að rannsaka þetta mál, og taldi hún mestar líkur til þess, að þetta mál yrði hægt að 1eysa með því að koma upp stóru, nýtízku hraðfrystihúsi á Akureyri, sem gæti tekið á móti afla togaranna og þannig aukið mjög atvinnu í bænum. Á Akureyri er nú ekkert nægilega stórt hraðfrystihús til þess að taka á móti afla svo stórra skipa sem togararnir eru. Formaður þessarar nefndar kom nýlega til Reykjavíkur til þess að athuga möguleika á framkvæmd þessa máls, m. a. kostnað við að koma upp slíku húsi og lánsmöguleika. Að sjálfsögðu verður mestur vandinn að útvega nægilegt fé til að koma þessari byggingu í framkvæmd, þar sem allar lánsstofnanir eru nú svo að segja lokaðar. Ég efast ekki um, að bærinn mun leggja eitthvað af mörkum í þessu skyni, en það er þó óhjákvæmilegt, að bankarnir og ríkisvaldið veiti aðstoð sína og liðveizlu til að leysa þetta mál.

Ég vildi með þessum fáu orðum minna á, að ef hér er meiningin að fara út fyrir þann ramma þeirrar upphaflegu till., sem ríkisstj. lagði fram, þá hljóta að sjálfsögðu fleiri en einn kaupstaður að bera fram sínar kröfur um ríkisaðstoð til að bæta úr atvinnulífinu, og Akureyri er þar ekki undanskilin.