23.01.1952
Sameinað þing: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (3288)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég flutti brtt. á þskj. 630, og vil ég nú lýsa því yfir, að ég tek hana aftur. Ég geri það í fullu trausti þess, að með afgreiðslu þeirrar till., sem hv. meiri hl. fjvn. hefur nú lagt fram, verði sæmilega leyst úr atvinnuerfiðleikum Ísfirðinga ásamt erfiðleikum annarra þeirra staða, sem við þá eiga að búa. Mér er þó ljóst, að þessi upphæð hefði þurft að vera hærri, og veit ég, að fleiri nm. var það ljóst, og var gerð tilraun til að fá hana hækkaða, en það fékkst ekki, og varð þá að setja endanlega þá upphæð, sem fullt samkomulag náðist um við hæstv. ríkisstj. Ég varð ekki var við annað en hinn bezta vilja á að leysa þetta mál, og tel ég því, að málið sé nú komið á þann grundvöll, að með góðri framkvæmd þess verði hægt að leysa nokkuð úr þeim miklu erfiðleikum, sem þarna hafa steðjað að. — Ég tek sem sagt till. mína aftur.