06.12.1951
Neðri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (3644)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar hin margumtalaða skýrsla verðlagsstjóra um álagningu á innfluttar vörur var birt á sínum tíma, lét hæstv. ríkisstj. þess getið, að áframhald mundi verða á þeirri starfsemi að afla skýrslna um álagningu á innfluttar vörur. Í umræðum, sem hér urðu um fyrirspurn eina fyrir nokkrum dögum, spurði ég hæstv. viðskmrh. að því, hvort þetta hefði ekki verið gert og hvort skýrslur þessar mundu ekki bráðlega verða birtar. Hæstv. ráðh. svaraði því til, að skýrsluöflun þessi héldi áfram og verðlagsstjóri annaðist hana, og mér skildist á hæstv. ráðh., að ein slík skýrsla væri nú fullgerð og hún mundi bráðlega verða birt.

Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort þessi skýrsla hafi ekki verið fullgerð og hvort ekki megi nú vænta þess, að hún verði birt almenningi, og í öðru lagi, hvort þm. gætu ekki fengið aðgang að þeirri skýrslu, þótt hún yrði ekki birt í blöðunum.