04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (3652)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og ég tjáði hv. fyrirspyrjanda, er hann gat þess við mig áður en fundur hófst, að hann mundi bera fram fsp. varðandi þetta mál, þá er hér um svo mikið mál að ræða, að eðlilegra hefði verið að spyrja um það í fyrirspurnatíma, þannig að um nokkurn fyrirvara væri að ræða. Hins vegar get ég nú aðeins gefið lauslegt og stutt svar. Í stuttu máli er ekki annað hægt að segja um þetta en það, að dómurinn barst hingað fyrir fáum dögum. Hann hefur þegar verið tekinn til athugunar, og ég get lýst því yfir, að hann verður tekinn til gaumgæfilegrar athugunar nú á næstunni. Ég skal ekki segja neitt um það ákveðið, hvernig þessum athugunum verður hagað, en að sjálfsögðu verður haft samráð við stjórnmálaflokkana, áður en ákvarðanir verða teknar til frekari aðgerða í málinu. Munu fulltrúar Alþfl. að sjálfsögðu verða hafðir þar með í ráðum. Að hinu leytinu heyrir þetta mál, hvað vísindalegri verndun landgrunnsins við kemur, undir hæstv. sjútvmrh., en ekki undir mig.