04.01.1952
Sameinað þing: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (3671)

Innflutningsréttindi bátaútvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt svar út af fyrirspurn hv. þm. Siglf. Hann sagði, að þegar þetta var sett á í fyrra, þá hefði verið ákveðið, að það yrði ekki nema í eitt ár. Þetta er ekki rétt. Ég lét í ljós, að ég vonaði, að þetta yrði ekki nema í eitt ár. Ástæðan fyrir því, að þessar vonir okkar brugðust, var fyrst og fremst sú, hvað aflabresturinn varð mikill. Ríkisstj. setti lögin í þeirri von, að þau þyrftu ekki að gilda nema eitt ár, en þegar þær vonir brugðust, varð að taka málið upp að nýju.

Ég ætla mér ekki að fara að karpa við 2. þm. Reykv. út af lagaákvæðum eða því, hvort heimild sé fyrir hendi í þessu efni. Ég lít svo á, að heimild sé skýlaus og ótvíræð í l. frá 5. júní 1947. Þar er skýrt tekið fram, að fjárhagsráð geti gefið undanþágu með auglýsingu, að fengnu samþykki ríkisstj. Ég lít þannig á, að þessi heimild sé skýlaus. — Aðalatriðið í heimild þessari er, að fjárhagsráð getur gefið undanþágu með auglýsingu, að fengnu samþykki ríkisstj.

Hin langa ræða hv. 3. landsk. gæti gefið tilefni til að flytja hér langa ræðu. Ég held þó, að ég sleppi því nú, enda gætti svo mikilla missagna og misskilnings í ræðu hv. þm., að ég undrast það. Tilvitnanir hv. þm. í orð hagfræðinganna tveggja, er ráðnir voru sem ráðunautar ríkisstj., eru alveg dæmalausar. Það væri vissulega gaman, ef hv. þm., sem er hagfræðingur, og hinir létu í ljós álit sitt. Það væri gaman að fá að hlýða á þessa hagfræðinga, er þeir leiddu saman hesta sína. Ég held, að aðalmisskilningurinn byggist á skilningi hans á l. um fjárhagsráð frá 5. júní 1947, en eins og ég sagði áðan, þá er þar skýr heimild fyrir gerðum ríkisstj. — Það gætir einnig annars grundvallarmisskilnings í ræðu hv. þm., þegar hann talar um gróða milliliðanna. Þetta er ekki gert fyrir nokkra menn sem gróðafyrirtæki. Hv. þm. verður að gera sér grein fyrir því, að það leggst mikið á þann fisk, sem útgerðin flytur út, þegar búið er að verka hann og gera söluhæfan. Ég skal ekki fara nánar út í þetta, það er þýðingarlaust að þrátta um, hvert gróðinn renni, því að það er aðeins til að lengja umr. Það er á móti almennum rökum, að frjáls verzlun gefi kaupmönnum of mikinn gróða. Ég get ekki komið auga á, að með þessu sé verið að skapa vissum einstaklingum gróða, og því síður, að verið sé að lækka gengi krónunnar. Hv. þm. segir, að stjórnin sé hér með undanbrögð og fari í kringum gildandi lög og reglur. Ég vil spyrja, hvað það er, sem stríðir á móti gildandi reglum. Eins og ég hef margoft sagt, þá er fyrir þessum aðgerðum stj. skýr heimild í l. Það yrði aðeins til að lengja umr. að halda áfram að þrátta um þetta, og get ég því látið þetta nægja.