13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (3734)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það liggur við, að mér finnist þær miklu umr., sem orðnar eru um þetta mál bæði í hv. Nd. og virðast ætla að verða hér í þessari hv. d., séu næstum ofviða því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég er fylgjandi þessu frv., þó að ég telji, að á því þurfi að gera nokkrar breytingar. Tel ég þó ekki, að það geti leyst vandræði iðnaðarins í bráð og lengd. En ég held, að það geti eitthvað hjálpað og eitthvað bætt úr í bili, þótt ekki sé svo frá málum gengið, að þarna verði mikil umskipti fyrir þessa starfsgrein þjóðfélagsins.

Í 3. gr. frv. er svo ákveðið, að hlutafé félagsins skuli nema allt að 61/2 millj. kr. Af því skal ríkissjóður leggja fram allt að 3 millj. kr., en aðrir aðilar allt að 31/2 millj. kr. Með því verðlagi, sem nú er, og eins og fjárhagurinn er hjá okkur, er auðséð að þessi upphæð hrekkur skammt til lánveitinga, þó að hún geti kannske greitt úr fyrir nokkrum einstökum atriðum í bili, því að þótt fé sé flutt milli bankanna, eins og gera má ráð fyrir að verði þá gert, skapast ekkert nýtt fé til útlána við það, heldur er aðeins um það að ræða, hverjir eigi að sitja fyrir því fé, sem kynni að verða veitt til útlána úr þessum nýja banka. Nú hafa allir hinir Bankarnir, sem eru þrjár ríkisstofnanir, ríkisábyrgð fyrir innstæðum í þeim bönkum, Landsbankanum, Útvegsbankanum og Búnaðarbankanum. Það fólk, sem leggur sitt fé inn í þessa banka, hefur ábyrgð ríkisins fyrir því, að það verði skilvíslega greitt, þegar þess er krafizt, að vísu ekki með sama verðgildi, en með sömu krónutölu. Þessi banki á ekki að hafa slík fríðindi. Ég hygg því, að það verði svo um marga, að þeir verði ekki mjög fúsir til að flytja fé sitt úr banka, sem hefur ríkistryggingu, yfir í þennan banka. En jafnvel þó að mikið verði að því gert, þá er ekki hægt að dyljast þess, sem hv. 1. þm. N-M. benti á, að það skapast ekkert nýtt fé, — féð eykst ekki, þó að stofnaður verði nýr banki, heldur flyzt það aðeins milli banka. Ég tel, að ef þessi banki á að koma að því haldi, sem til er ætlazt, megi aðeins líta á þetta frv. sem lítinn og mjóan visi, sem þarf að skapa skilyrði til að vaxa, svo að bankinn geti sinnt því hlutverki að styðja iðnaðinn. Með það fyrir augum tel ég mjög áhyggilegt að láta þennan banka hafa aðrar aðstæður en hina bankana, sem hér eru starfandi, en þeir eru annaðhvort ríkisbankar eða ríkissjóður á meiri hlutann í þeim, eins og t.d. Útvegsbankanum. En þessi nýi banki á að vera einkabanki og starfa eftir þeim reglum, sem hann setur sér, svo framarlega sem það brýtur ekki í bága við landslög og hann hefur samráð við hina bankana, sem allir hlíta æðstu yfirstjórn landsins. Það er óheppilegt og þar að auki óskynsamlegt, að við hliðina á þeim þremur ríkisbönkum, sem starfa í landinu, sé settur einkabanki, svo framarlega sem honum er ætlað að vaxa og dafna.

Ég leyfi mér því að flytja brtt. Er hún fyrst og fremst um að hækka framlag til bankans og í öðru lagi, að ríkisábyrgð skuli vera á fé stofnunarinnar.

Ég skal ekki fara langt út í það að ræða ástandið í iðnaðarmálunum nú. Það hefur verið drepið á það í útvarpsumræðum, sem fram hafa farið, og í sambandi við það vil ég aðeins segja, að því miður er útlit fyrir það, að sú mynd, sem dregin var upp af ástandinu nú, verði öll önnur og dekkri eftir einn eða tvo mánuði, ef ekkert verður aðhafzt. Hæstv. dómsmrh. kvaðst viðurkenna, að þetta væru erfiðleikatímar hjá þjóðinni, tímabilserfiðleikar, sagði hann, og óvissa rétt í bili. Ég vildi óska, að þetta reyndist réttmæli. En ég hygg, að litlar líkur séu til þess, að svo verði, nema eitthvað annað verði gert en að velta vöngum. Svolítið spor í rétta átt er það kannske að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég mun því greiða atkv. með því, jafnvel þó að mínar brtt. verði ekki samþ. En ég endurtek það, að þetta er vísir að öðru meira, og stoðar ekki að blekkja sig með því, að þetta muni leysa vandræðin, sem að steðja. — Skal ég svo ekki hafa þennan formála lengri. Leyfi ég mér að leggja fram tvær brtt., önnur er aðaltill., en hin varatill.

Á þskj. 357 er brtt. frá hv. 4. landsk. þm. (StgrA) um að hækka hlutafé félagsins í allt að 11 millj. kr. og ríkissjóður skuli leggja fram allt að 5 millj. kr. Við þá brtt. hef ég leyft mér að bera fram aðra brtt., sem hljóðar svo: „Ríkissjóður skal leggja fram 6 millj. kr.“ Ef þessi brtt. yrði samþ., yrði framlag ríkissjóðs röskur helmingur hlutafjárins. — Til vara hef ég leyft mér að leggja fram brtt. við 3. gr. frv. eins og hún er í frv. um, að 1. og 2. málsl. 3. gr. frv. orðist svo: „Hlutafé félagsins skal nema allt að 71/2 millj. kr. ríkissjóður skal leggja fram 4 millj. kr.“ Verði þessi till. samþ., tel ég eðlilegt, að veitt yrði ríkisábyrgð fyrir því fé, sem bankinn fengi.