18.12.1951
Neðri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Það kemur satt að segja úr hörðustu átt frá hæstv. ríkisstj. að heyra, að hér sé verið að tefja málið. Ég vil láta hæstv. viðskmrh. vita, að hefði ég ætlað að tefja málið, þá var enginn vandi að tefja það í allan dag og nótt. Hæstv. ríkisstj. virðist alls ekki gera sér ljóst, að þegar mál sem þetta á ekki að fá umr. nema einn klukkutíma, þá er það bara af kurteisi við hæstv. ríkisstj., að það er hægt, og ætti hún að þakka fyrir og sízt af öllu láta sér til hugar koma að viðhafa svona ummæli.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að ekki væri vani, að ég verði kaupmannavaldið, vil ég segja þetta: Það er nú kannske sitt hvað, smáar verzlanir og smá atvinnufyrirtæki hér í Reykjavík og annars staðar á landinu eða stórfyrirtæki eins og hæstv. viðskmrh. á og stjórnar. Ég býst við, að bæði smærri kaupmenn og smærri atvinnurekendur þurfi fyllilega á því að halda, að þeirra hlutur sé varinn betur á Alþ. En þeir hafa alls ekki átt hauk í horni þar, sem hæstv. viðskmrh. er, vegna þess að hann hefur þá stóru á þessu sviði í huga meir en þá smærri. Og það er dálítið hart af honum að standa upp og vera á móti mannúðlegri innheimtuaðferð á þessum rangláta skatti. Hann er með annarri hendinni að skrifa bréf til bankanna til þess að leggja fyrir þá að veita ekki lán til smærri atvinnurekenda og smærri kaupmanna til þess að gefa þeim stóru nægilega góða möguleika til þess að féfletta þá og gleypa þá, eins og nú er verið að gera. Það er ákaflega hentug féflettingaraðferð að loka bönkunum fyrir smærri atvinnurekendum og smærri kaupmönnum, svo að ég tali ekki um, hvernig er farið að því að ná húsunum af þeim, sem hafa eignazt þau. Það þarf ekki annað en lesa Lögbirtingablaðið undanfarið. Hverjir kaupa húsin upp, þegar dýrmætar eignir eru seldar fyrir slikk, eins og nú er farið að gera? Hverjir nema þeir, sem hafa látið loka bönkunum fyrir öðrum?