12.10.1951
Efri deild: 12. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

40. mál, lántaka vegna áburðarverksmiðjunnar

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þessar upplýsingar. Það er sýnilegt, að áætlunin hefur hækkað mjög, en þó er eftir að vita, á hvaða tíma þessi 93 millj. kr. áætlun er gerð, með tilliti til hækkunar erlendis og innanlands. Með því viðhorfi, sem er, er hætt við, að áætlunin reynist sízt of há. Þó að 40 millj. kr. fáist sem gjafafé, er sýnt, að þessar framkvæmdir hvíla að meira en hálfu leyti á íslenzkum aðilum sem framlag eða lán. Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en mér fannst rétt að minnast á, hvernig málið standi og hvað sé útlit fyrir að verksmiðjan muni kosta. Þær upplýsingar eru fengnar, að svo miklu leyti sem hægt er. Hæstv. ráðh. hefur gefið okkur þá mynd, sem fyrir liggur. Það væri vel farið, ef ekki þyrfti að taka frekara erlent lán, og þætti það ekki stórvægilegt, ef þetta hrykki til. Ég vildi óska, að það reyndist svo.