19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni frá hv. þm. Hafnf. taka fram, sem ég hélt að væri óþarfi, að bæði forsrh. og fjmrh. lýstu yfir, að Framsfl. er fylgjandi þeim till., sem hér hafa verið bornar fram af tveim flokksbræðrum mínum, þeim hv. þm. Ak. og hv. 5. þm. Reykv., um að skattalöggjöfin verði öll endurskoðuð. Í því sambandi verður auðvitað tekið til athugunar, hvaða leiðir eru færar til að ráða bót á viðurkenndri þörf á auknum tekjustofnum fyrir bæjar- og sveitarfélögin. Það er m.a. í trausti þess, að sú endurskoðun leiði til úrbóta, að ég get ekki með góðri samvizku samþ., að ríkisstj. afsali sér nú hluta af tekjum sínum. Auk þess þorir stj. ekki að taka við fjárlögum með þeim gjöldum, sem vitað er að verða á þeim, ef tekjustofnar ríkissjóðs verða rýrðir.

Út af þessum metnaði um stjórnarforustu býst ég við, að stjórnarflokkarnir haldi þar hvor sínum hlut fyrir hinum. Ég hef aldrei sagt annað en að Sjálfstfl. hafi borið fram fyrstur þær tillögur, sem stjórnarframkvæmdirnar byggjast á, en í þeim till. er meginatriðið að afgreiða ekki fjárlög með greiðsluhalla. Það er því óþarfi að brýna okkur á því, að við svíkjum okkar yfirlýsingar og lútum öðrum. Hitt er svo fróðlegt að heyra, að nokkrir af þm. telja það einskis virði fyrir sín kjördæmi, sem ríkisstj. hefur haldið sig gera þeim í vil með því að greiða vissar skuldir. Er ekki sízt fróðlegt að heyra, að hv. þm. Hafnf. telur þetta einskis virði fyrir sitt kjördæmi, ef má ganga út frá því, að hann meini það, og má þá greiða öðrum meira.