04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

139. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég ætla að segja örfá orð vegna ummæla hv. 4. þm. Reykv. varðandi 2. gr. frv. Hv. þm. talaði um, að ekki væri enn þá nógu tryggilega um hnútana búið gagnvart almannatryggingunum. Fyrst og fremst er hér um geysimikla breytingu að ræða. Í staðinn fyrir að miða við meðalvísitölu ársins á undan á að miða við vísitölu marzmánaðar ársins. Það má segja, að það sé komizt eins nærri þessu eins og hægt er með því að miða við marz. — Ríkisstj. lítur svo á, að rétt sé að raska ekki hlutfalli milli einstakra sveitarfélaga og ríkissjóðs og eitt og sama verði yfir þau að ganga. — Ég vil enn fremur segja það, að hv. Alþ. verður að gera það upp við sig, hvort það eigi að mæla svo fyrir, að athugun skuli fara fram á bráðabirgðaákvæðinu, en mér finnst þetta vera óþarfa vantraust á ríkisstj. og félmrh. — Annars sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta frekar á þessu stigi málsins. N. mun fá þetta til meðferðar og athuga alla þessa hluti og sjálfsagt fleiri.