03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Frsm. 1. manni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vildi, að hæstv. fjmrh. heyrði mál mitt. Ég vildi víkja nokkrum orðum að því, sem hann sagði nm framsöguræðu mína.

Hæstv. fjmrh. hefur reynt að gera mikið úr þeirri hugmynd sinni, að það væri óforsvaranlegt, að stjórnarandstæðingar flytji ekki í þinginu sömu brtt. og í fjvn. Yfir þetta hefur hann breitt sig, og var þetta mikið aðalatriði í hans ræðu. Ég hef dálitla reynslu í þessu efni, og fjvn. hefur það öll, eins og ég tók fram í framsöguræðu minni. Fyrir þrem árum stóð þannig á, að ég gerði að vísu ekki eins harða gagnrýni á fjárl, við 2. umr., en bendi á, að lækkunartill., sem ég flutti þá og fleiri fluttu einnig, voru allar felldar. Hæstv. fjmrh. kom með nákvæmlega sömu rök þá og nú. Og ég sagði honum, að hægt væri að flytja brtt. fyrir 3. umr., og ég gerði það líka. Þær voru allar felldar. En ég vil benda hæstv. fjmrh. á, að á þskj. 306 hef ég flutt nokkrar brtt. til lækkunar, sem nema nokkrum hundruðum þús. kr. nú, og ef þær verða samþ. við 2. umr., þá skal ég flytja fleiri fyrir 3. umr., og ég vil biðja einhvern af flokksbræðrum hæstv. fjmrh., ef hann heyrir ekki mál mitt hér, að flytja honum þetta. En verði þessar brtt. felldar við 2. umr., þá sé ég ekki betur en þessi röksemdafærsla hæstv. ráðh. sé meira gerð til þess að koma sér úr klípu heldur en að hann geti sjálfur talið, að hans röksemdafærsla verði tekin gild. En það, sem hæstv. fjmrh. hefur sagt í sambandi við þetta, var, að stjórnarandstaðan hefði skyldur til að koma með gagnrýni á stjórnina og hennar gerðir og minna á hennar skyldur og þessi gagnrýni yrði gerð þannig, að hún kæmi að notum. En ég vil benda hæstv. fjmrh. og öðrum ráðh. á, — það er nú víst enginn viðstaddur eins og er, — hvað farið er nú að gera af ríkisstj. sjálfri til þess að hindra stjórnarandstöðuna í því að geta rækt þessar skyldur. Það er æðimikið farið á því að bera, að hæstv. ríkisstj. er farin að ráðstafa þýðingarmestu og örlagaríkustu málum þjóðarinnar utan við þingið, til þess að stjórnarandstæðingar fái ekki aðstöðu til að gagnrýna gerðir stj. Skarpasta dæmið í þessu efni var á síðasta sumri, þegar 43 þm. var hóað saman til að taka ákvörðun um hersetu á Íslandi á friðartímum. Því var komið svo fyrir, að stjórnarandstæðingar hefðu ekki aðstöðu til að koma sinni gagnrýni að þar. Líklega hefur stj. búizt við, að hægara mundi vera þannig að fá þá þm. á sitt mál, ef sá hluti stjórnarandstæðinga, sem gert var ráð fyrir að væru á móti málinu, fengi ekki aðstöðu til að koma með sína túlkun á þessu máli, sem þar var um að ræða. Þetta gerði ríkisstj. til að hindra stjórnarandstöðuna í að geta rækt sínar skyldur og losna við andstöðu í þessu máli. Mér þykir því undarlegt, að hæstv. fjmrh. breiðir sig svo mjög út yfir það, að stjórnarandstaðan hafi skyldur gagnvart þjóðinni, sem hún eigi að rækja í þessu efni. Ég vil segja, að það er ein af skyldum ríkisstj. að þora að minnsta kosti að hlusta á gagnrýni stjórnarandstæðinga.

Þá hefur hæstv. ráðh. viljað gera mikið úr því, að aðalatriðið í ræðum okkar, sem hófum gagnrýni á afgreiðslu fjárlagafrv., væri það, að við værum að minnast á þessa hálfu menn í ráðuneytunum. Ég skal taka fram, að það er ekki stórt atriði, þessir hálfu embættismenn rn. Það er kannske eðlilegt, að það þurfi menn í þessi rn., og fjvn. hefur fengíð áþreifanlega sönnun þess, hvernig vinnubrögðin hafa verið í fjmrn. T.d. þegar kemur þaðan prentað skjal til fjvn., sem á að vera upplýsingar um hag ríkissjóðs um síðustu mánaðamót og skýrsla, sem fjvn. á að byggja sínar till. á, þá kemur fram nokkrum dögum seinna og upplýsist hér í þinginu, að prentvilla sé hér í þessari skýrslu, sem nemur 36 millj. kr. Þetta eru vinnubrögð rn. Svona má hv. fjvn. treysta skýrslum frá því rn. Það er vorkunn, þó að hæstv. fjmrh. þurfi að setja hálfan fulltrúa í rn., til þess að svona komi ekki fyrir aftur.

Þá hefur hæstv. fjmrh. einnig viljað tala um það og talaði langt mál hér áðan um greinar nokkrar á fjárl., sem hann nefndi, og spurði annan þm. en mig um, hvað ætti að lækka á nefndum greinum, sem voru upp á 330 millj. kr. alls, og hann spurði, hvernig ætti að lækka hvern einstakan lið þar. Og svo kemur hann með þá röksemd, að það, sem stjórnarráðið og utanríkismálin kosta, væri ekki nema sem næmi 1/9 hluta af söluskattinum. Og þessar 330 millj. kr., sem liðirnir nema, sem hæstv. ráðh. talaði um, allir þessir liðir eru háðir verðlaginu í landinu. Og þá liggur það þannig fyrir, að ef hægt væri að lækka verðlagið í landinu um 10%, þá ættu þessar greinar að lækka að sama skapi. Ef dýrtíðin lækkar um 10%, ættu þessar greinar að lækka alls í 300 millj., eða um 30 millj. kr. Dæmin, sem ég nefndi við síðustu umr., voru glögg, þar sem ég sýndi, að Skipaútgerðin og landhelgisgæzlan þyrftu að greiða 900 þús. kr. fyrir hver 6 vísitölustig. Það sýnir, hvert stefnir í þessu efni.

Þá vildi hæstv. ráðh. halda því fram, að það væri nauðsynlegt að taka verulegan hluta af tekjum þjóðarinnar aftur með sköttum og tol1um. Ég vil benda á, að meðal annars hafa allar launagreiðslur hækkað frá árinu 1950, og ég tel enga fjarstæðu, að hægt sé að lækka þessar greiðslur, svo að nokkru nemi, ef hið almenna verðlag í landinu lækkar. En nú sést á þessu, að það er ekki hægt að reka starfsemi ríkisins nema með verulegri hækkun. Hvað ætlar ríkisstj. að gera viðkomandi atvinnulífinu? Hefur það ekki verið yfirlýst stefna ríkisstj. á undanförnum árum, að það þyrfti að draga fé úr atvinnulífinu og í ríkisreksturinn? Þar þarf meira fé, enda þótt atvinnulífið fái minna fé en áður að sama skapi. Hve lengi getur ríkisbáknið gengið með síaukinni fjárþörf? Ef atvinnulífið hefur sífellt minna og minna fé til umráða, hvað verðum við þá lengi að komast á hreppinn hjá öðrum þjóðum með því móti? Hvað lengi getum við haldið áfram, þannig að við verðum algerlega orðnir ómagar annarra þjóða með þessu móti? Ég sé ekki, að það verði mörg ár. Þetta er atriði, sem hæstv. fjmrh. hefur ekki vogað að svara enn þá. Ég benti á þetta í minni framsöguræðu við þessa umr. En hæstv. ráðh. vogaði sér ekki að minnast á þetta.

Þá er eitt atriði, sem ég þarf að minnast á í sambandi við ræðu hæstv. ráðh. Það er starfsmannaskrá, sem fjvn. fékk með fjárlagafrv. Hún var ekki sú skrá, sem átt hefði að vera og óskað var að fá. Þá spurði hæstv. ráðh.: Hvers vegna semur þessi þm. ekki þessa skrá sjálfur, og hvers vegna gefur hv. þm. ekki út þessa skrá? — Þá vorum við að ræða skýrslu eins og þá. sem ríkisskattan. gaf út á sínum tíma. Ég benti á, að það er réttur þingmanna og réttur allra nm. í fjvn. að fá þessi gögn vel undirbúin í sínar hendur, svo að hún geti farið eftir þeim. En það er ekki skylda fjvn. að vinna slíka skrá út úr skýrslukerfi ríkisins. Og það er þar af leiðandi ekki ástæða til að ætla, að einn þm. geri þetta og að einstakur þm. geti gefið út slíka skrá. Það minnsta, sem hæstv. ráðh. hefði átt að segja, var, að hann vildi gefa út skrá, ef ég hefði búið hana undir prentun. Nei, þetta eru allt undanbrögð hæstv. ráðh. Þegar hann kemst í vandræði með að svara gagnrýni, sem kemur fram á ríkisstj., þá nálgast það, að hann segi: Hvers vegna tekur stjórnarandstaðan sig ekki til og fer að stjórna landinu?

Þetta held ég að nægi sem svar við því, sem hæstv. ráðh. vék að í síðustu ræðu. Og ég verð að láta þetta nægja. Eins og ég sagði áðan, þá vonast ég til þess, að flokksmenn hæstv. fjmrh. beri honum þessi orð mín og ekki sízt þá yfirlýsingu, að ef samþ. verða þær lækkunartill., sem ég hef flutt hér, t.d. að komast af með ½ millj. í utanfararflakk í staðinn fyrir 800 þús., sem hæstv. ríkisstj. þykist þurfa nú, þá skal ég koma með fleiri tillögur til lækkunar fyrir 3. umræðu.