19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Haraldur Guðmundsson:

Ég ber fram nokkrar brtt. á þskj. 520 og 522 og leyfi mér að gera nokkra grein fyrir efni þeirra.

Hæstv. forseti lét í ræðu sinni áðan falla þau orð, að í þeim tiltölulega ríflegu fjárveitingum, sem undanfarið hafa verið lagðar til gagnlegra framkvæmda, hafi sjúkrahúsmálin orðið útundan. Þetta er vissulega fullkomlega rétt. Till. á þskj. 520, III. liður, lýtur að því að bæta nokkuð fyrir vanrækslusyndir í þessu efni, að til heilbrigðisstofnana í Reykjavík verði varið ekki einni millj. kr., heldur 3 milljónum, eða til vara 2.4 millj. kr. Ég veit ekki, hvort hv. þm. gera sér fyllilega grein fyrir, hversu óskaplegt — vil ég segja — ástandið er orðið í þessu efni hér í Reykjavík. Mörg hundruð manns eru á biðlista við sjúkrahúsin, og verða þeir að liggja illa haldnir í heimahúsum við allt aðra og lakari aðhlynningu en sjúkrahúsin geta veitt, auk þess sem fjöldi manna bíður nauðsynlegra handlæknisaðgerða, þó að slíkir séu kannske ekki allir rúmliggjandi, og ekkert rúm fæst á sjúkrahúsunum. Bærinn á ekkert sjúkrahús. Landsspítalinn, sem byggður er fyrir röskum 20 árum, var ekki byggður fyrst og fremst fyrir Reykjavík, enda lætur fjarri, að hann fullnægi nema örlitlu broti af sjúkrahúsþörfinni í bænum. En hann er að miklu leyti notaður fyrir utanbæjarfólk, eins og eðlilegt er. En önnur sjúkrahús í bænum, að undanskildu Hvítabandinu, eru einkasjúkrahús, annað rekið af einstökum manni, en hitt af sankti Jósefs reglunni, eins og kunnugt er. Bæjarstjórnin hefur gert samþykkt um að byggja sjúkrahús, og er þar miðað við 300 sjúkrarúm. Og það er fullkomlega rétt mál, sem læknar segja, að hér sé ekki gert ráð fyrir vexti bæjarins, heldur aðeins til að bæta úr þeirri brýnu aðkallandi dagsins þörf. Ég veit ekki, hvað kostnaður við byggingu þessa sjúkrahúss er áætlaður, en þykir líklegt, að hann sé eitthvað um 35–40 millj. kr. Eitthvað mun vera farið að róta upp jörðinni fyrir grunni hússins, en um aðrar framkvæmdir er ekki enn að ræða. Þá ber bænum að byggja heilsuverndarstöð, sem komin er nokkuð áleiðis, en skammt. Enn fremur er gert ráð fyrir lækningamiðstöð, sem ekki er farið að teikna enn. Allt eru þetta nauðsynlegar stofnanir, sem óhjákvæmilegt er að byggja innan tíðar. Ef veitt er til þessa úr ríkissjóði, sem ætlað er að bera 2/3 af kostnaðinum, ein milljón á ári, verður eilífðarmál að koma nokkru í framkvæmd, sem um munar. Að vísu er loforð frá Tryggingastofnuninni um 12 milljónir til þessara framkvæmda, eftir því sem miðar áfram. Með þeirri fjárveitingu, sem hér er lagt til að velta, má eiga von á að sjá fyrir endann á þessu verki á 4–6 árum, og það er sá allra lengsti tími, sem fært er að láta þessi mál óleyst enn. Ég fæ ekki annað séð en að þeir hv. þm., sem til þekkja um ástandið í Reykjavík og raunar víðar, hljóti að ljá þessari till. stuðning.

Önnur till. mín á sama þskj. er nr. XXII, þess efnis, að fjárveiting skuli ákveðin til viðbótarhúsnæðis á Kleppi, ein milljón, en til vara 600 þús. kr. Fyrir þessu þingi liggur nú frv. til l. um að leggja þá skyldu á geðveikrahælið á Kleppi að hafa rúm ávallt og án fyrirvara til að taka við mönnum, sem skyndilega brjálast. Það segir sig sjálft, að erfitt er að samþ. slíka skuldbindingu á hendur stofnun sem þessari, nema samtímis séu gerðar ráðstafanir til að auka húsnæði. Það er ekki hægt að segja við forráðamenn slíks sjúkrahúss: Nú vantar pláss fyrir 2–5 menn. Gerið svo vel að fleygja einhverjum út! — Af þeim ástæðum tel ég nauðsynlegt í sambandi við fyrirætlun þingsins um að leggja kvöð á Klepp í þessu efni að gera ráðstafanir til þess, að unnt sé að verða við þeim réttmætu kröfum, sem beint er til stofnunarinnar, eftir að slík l. eru sett. Ég veit, að öllum er kunnugt ófremdarástandið í þessu efni. Bæði í Reykjavík og úti um landið kemur það fyrir, að menn verða að borga svo að þúsundum króna skiptir á dag fyrir gæzlu óðs manns. Fæstir hafa efni á að greiða þetta sjálfir, og lendir það á sveitarfélaginu eða öðrum opinberum aðilum. Slíkt ástand er gersamlega óþolandi. Þess vegna er frv. um að leggja þessa skyldu á Klepp fram borið, sem gerir þá einnig óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til þess, að unnt sé að verða við þessari kröfu. Ég hygg, að enginn þeirra, sem þekkja til ástandsins í þessu efni, geti annað en viðurkennt nauðsyn þessa. Og með hliðsjón af öðrum fjárveitingum, sem þegar eru samþ. og verða samþ., verð ég að segja, að það er óafsakanlegt að láta þetta ógert.

Þá ber ég fram á sama þskj. brtt. nr. XXIX, að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 5 millj. kr. til atvinnubóta og atvinnuaukningar í kaupstöðum og kauptúnum, gegn allt að því jafnmiklu framlagi frá hlutaðeigandi sveitarsjóðum, og til vara 3 millj. kr. Þm. Reykvíkinga hafa fengið heimsóknir undanfarið frá fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík og stjórnendum Iðju og sennilega fleiri verkalýðssamtökum hér í bænum. Það er ekki dregið í efa af neinum, að að minnsta kosti um 1200 manns séu atvinnulausir í Reykjavík, og skal ekki að þessu sinni rekja orsakir til þess. Staðreynd er staðreynd, og við hana verður að horfast í augu. Allt bendir til þess, að eftir jólaannríkið ágerist þetta atvinnuleysi, ef ekki er að gert. Ekki hefur fengizt samkomulag á þessu þingi, sem sýslar mjög við lagasetningu, að setja í almenn lög nokkrar ráðstafanir til þess að bæta úr þessu böli, sem ekki þarf að lýsa, en hver maður þekkir, sem nokkru sinni hefur augu opin. Það fé, sem lagt er til að verði varið í þessu skyni, er hugsað að verði bráðabirgðaráðstöfun til þess að mæta því ástandi, sem yfir er skollið og verður ekki umflúið, bæði hér í bænum og annars staðar þar, sem svipað stendur á. Í till. er gert ráð fyrir mótframlagi frá hlutaðeigandi sveitarsjóði og frá bæjarsjóði Reykjavíkur að því leyti, sem bæinn varðar. Enn fremur vil ég benda á það, að í þessari till. er ekki ætlazt til, að fénu verði varið eingöngu til atvinnubóta, heldur einnig til atvinnuaukningar, og geta bæjarfélögin ákveðið um það, hvort fénu skuli varið til atvinnuaukningar eða til atvinnubóta, þ.e., hvort þau verja því til framkvæmda, sem mundu þá koma meira að gagni í framtíðinni. Ég fæ ekki betur séð en þingfulltrúar þeirra kaupstaða, sem nú standa uppi alveg ráðalausir gegn atvinnuleysinu, hljóti að greiða þessari tili. atkv.

Þá er það till. á þskj. 522, nr. V, sem ég flyt ásamt hv. 6. landsk. þm. (HV). Hún er þess efnis, að fjárveitingin til Alþýðusambands Íslands, sem ganga á til fræðslustarfsemi og gert er ráð fyrir í fjárl. að nemi 10 þús. kr., verði hækkuð upp í 100 þús. kr., og til vara 50 þús. kr. Ég hygg ekki ofmælt, að útgjöld Búnaðarfélags Íslands í sambandi við útgáfu rita og aðra fræðslustarfsemi muni nema um 220–250 þús. kr. á ári. (GJ: Þar frá dregst ágóðinn af bókasölunni, sem er um 150 þús. kr. á ári.) Hv. form. fjvn. telur, að þarna megi frá draga andvirði þeirra bóka, sem seldar eru á árinu, og er það áætlað um 150 þús. kr. Ég verð þó að leyfa mér að efast um, að þarna séu öll kurl komin til grafar. En þótt svo væri, þá sé ég ekkert réttlæti í því að ætla Alþýðusambandi Íslands aðeins 1/10 hluta af þeirri upphæð, sem Búnaðarfélagið fær. Mér finnst vart þurfa að mæla mörgum orðum með þessari till. Þetta er fjölmennasta stéttasamband í landinu, sem þarna á í hlut, og allir hljóta að vera sammála um það, að ekkert er nauðsynlegra fyrir almenning í landinu en að fá sanna fræðslu um málefni, sem snerta almannahag, og þá fyrst og fremst um málefni sinnar eigin stéttar.

Á sama þskj., þskj. 522, flyt ég ásamt hv. 6. landsk. þm. brtt. í tveim liðum, brtt. nr. IX á því þskj. Fyrri liðurinn er um það, að ríkisstj. verði heimilað að verja allt að 13 millj. kr. til þess að inna af hendi vangreidd framlög ríkisins vegna skólabygginga, hafnarmannvirkja og sjúkrahúsa. Fyrir liggja ekki nokkrar tölur um það, hvað hárri upphæð þessar vangreiddu skuldir nema, og skal ég ekki blanda inn í þessar umræður deilum um það, hvaða kröfur, sem fram kunna að koma frá sveitarfélögunum nú, séu lögfestar. En hinu neitar enginn, að það sé eðlileg krafa, að ríkissjóður verði að veita fé einhvern tíma á fjárl. til þess að mæta þessum löglegu kröfum. Við Alþýðuflokksmenn fluttum við 2. umr. fjárl. till. í þessa átt, og töldum við ekkert eðlilegra, þegar tekna í ríkissjóð væri aflað svo óvægilega, en nokkurt fé yrði látið renna til slíkra greiðslna. Þessi till. var þó felld, en síðan hefur verið viðurkennt, að hún hafi verið á rökum reist, með því að nú á að greiða til bæjar- og sveitarfélaga 7 millj. kr., sem ganga skulu til skóla og hafnarmannvirkja. Till. okkar hv. 6. landsk. er við það miðuð, að það, sem á vantar, að þessar lögboðnu greiðslur séu inntar af hendi, sem við gizkum á að sé um 13 millj. kr., verði nú greitt að fullu.

Mikið hefur verið rætt á þessu þingi um hinn erfiða fjárhag bæjar- og sveitarfélaga og nauðsynina á því, að Alþ. gerði einhverjar ráðstafanir til úrbóta. Till. var samþ. í Nd. um það, að 1/4 hluti söluskattsins skyldi renna til bæjar- og sveitarfélaga, einmitt með tilliti til þeirra fjárhagsörðugleika, sem þau eiga nú við að stríða. Þessi tillaga fór síðan þann veraldar veg, sem hv. þm. er kunnugt um. En eftir að fyrir liggur viðurkenning hv. alþm. á því, að fjárhagur sveitar- og bæjarfélaga sé slíkur, að þörf sé ráðstafana af hálfu ríkisins, fyrst í samþykkt á ráðstöfun 1/4 söluskattsins og í öðru lagi með till. um, að ríkissjóður verji 7 millj. kr. í þessu skyni, þá er óréttlætanlegt með öllu, ef ríkissjóður, sem nú er vel stæður, dregur enn að greiða þessi réttmætu framlög til þessara sömu félaga. Það væri að gera gys að sjálfum sér að vera sífellt að tala um og viðurkenna erfiðleika bæjar- og sveitarfélaganna, en láta sér þó ekki detta í hug að stuðla að því, að ríkið borgi þessi vangreiddu framlög. Mér virðist einsýnt, að nú eigi að grípa tækifærið, þegar ríkissjóður er svo vel stæður sem raun ber vitni, og koma þessum félögum til hjálpar með því að greiða þessi framlög nú, þegar erfiðleikarnir steðja að.

Annar liður þessarar sömu brtt. er þess efnis, að ríkisstj. verði heimilað að lána Ísafjarðarkaupstað allt að 4 millj. kr. til byggingar fiskiðjuvers á staðnum. Mjög hefur verið rætt um ástandið á Siglufirði að undanförnu, að það nálgist það að vera neyðarástand. Hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn. hafa þótzt bregða stórmannlega við. Það hefur verið veitt 1/2 millj. kr. til atvinnubóta á staðnum og lofað aðstoð við frystihúsið og útvegun á láni til þess að bæta úr atvinnuleysi bæjarbúa, svo að þeir þyrftu ekki að flytjast burt. En það eru fleiri kaupstaðir, sem svipað er komið fyrir og Siglufirði. Það eru fleiri kaupstaðir, sem eiga sína afkomu undir síldveiðunum og þorskveiðunum, þar sem veiðin hefur brugðizt hin síðari ár. Síldveiðin, sem jafnan hefur bætt upp hallann af þorskveiðunum, hefur brugðizt Ísafirði hin síðari ár á sama hátt og Siglufirði. Mér er þó ekki kunnugt um, að ríkissjóður hafi greitt nema einar 100 þús. kr. til atvinnubóta á Ísafirði. Í fleiri ár mun hafa verið rætt um að koma upp fiskiðjuveri á Ísafirði til að hagnýta sem mest þann afla, sem berst þar á land, og til kaupstaðarins hefur nú lánazt að fá tvo botnvörpunga til viðbótar öðrum fiskiskipum til þess að styðja þessar framkvæmdir. En skilyrðið fyrir því, að hægt verði að hagnýta að fullu afla þessara skipa, er, að til sé á. staðnum fiskiðjuver. Með hliðsjón af því, hvað gera hefur þurft fyrir Siglufjörð í þessu efni, fæ ég ekki betur séð en óhjákvæmilegt sé að veita Ísafirði nokkra aðstoð líka. Hér í okkar till. er ekki farið fram á, að ríkissjóður leggi fram fé, heldur farið fram á heimild ríkisstj. til handa til að ábyrgjast og útvega Ísafjarðarkaupstað beint lán til þessara framkvæmda. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir neinum skuldum, sem Siglufjarðarkaupstaður beri í sambandi við fiskiðjuverið og hraðfrystihúsið þar. Ég vil því mælast til þess við hv. alþm., að þeir gefi þessari till, nokkurn gaum og beri saman ástæðurnar á Siglufirði og Ísafirði.

Þá hef ég mælt hér fyrir nokkrum helztu till. Alþfl., og skal ég ekki gera aðrar till. að umræðuefni. Mér þykir sennilegast, að allar tili. meiri hl. fjvn. verði samþ., svo sem venja er. En mér þykir þó rétt að gera nokkra grein fyrir því, hverjum breyt. á fjárlagafrv. till. okkar Alþfl.-manna, ef samþ. yrðu, mundu valda. Eins og frv. liggur nú fyrir frá meiri hl. fjvn., er um 17 millj. kr. greiðsluhalli á því. En hv. 6. landsk. hefur getað sýnt glögglega fram á það, að óhætt er að áætla tekjurnar allt að 49 millj. kr. hærra en gert er í frv., og liggja fyrir frá honum sundurliðaðar till. í þessu efni. Þessar hækkanir komu nokkuð heim við þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf í ræðu sinni í gær. Till. Alþfl. um hækkun á gjaldaliðunum hljóða upp á 26 millj. kr. Sé við þá upphæð bætt 17 millj. kr. greiðsluhallanum, sem meiri hl. fjvn. gerir ráð fyrir, verða það 43 millj. kr., eða 6 millj. kr. lægra en sú hækkun á tekjuáætluninni, sem við teljum rétta. Í frv., eins og það nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir 46 millj. kr., sem ríkið greiði sem afborganir af skuldum. Ef till. Alþfl. yrðu samþ., mundu því þessar greiðslur hækka um 7–9 millj. kr. Nú viðurkenni ég, að ekki er hægt að fullyrða neitt í þessu efni, en á það má benda, að hv. fjvn. og hæstv. fjmrh. hafa nú viðurkennt, að tekjuáætlunin hafi verið of lág, með því að hækka hana um allt að 20 millj. kr. Og ég er ekki í minnsta vafa um það, eftir að ég hef heyrt eftir góðum heimildum, að hæstv. fjmrh. hafi lagt blessun sína yfir till. meiri hl. fjvn., að það er gott svigrúm til að mæta þessum till. okkar Alþýðuflokksmanna.