04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

19. mál, áfengislög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði, að hv. þm. Barð. gat enga grein gert fyrir því, hvaða atvinnubót væri að samþykkt þessa frv., og því síður, hvaða auknar tekjur mundu fljóta í ríkissjóð eða bæjarsjóð. Hitt tekst honum ekki að draga fjöður yfir, að bæði hæstv. ráðh. og hann sjálfur vildu ræða um þetta mál á þeim grundvelli, að þetta væri atvinnubótamál og fjárhagsmál, sem hefði þýðingu. Hæstv. ráðh. talaði um, að af þessu fengist vinna fyrir íslenzkar hendur, sem annars fengist ekki, og auk þess kæmu af þessu skattar til bæjar og ríkis. Engar tölur voru nefndar af honum né mér, svo að allt tal hv. þm. Barð. um rangar tölur af minni hendi er út í hött eins og fleira af hans hendi. Sannleikurinn er sá, að n. hefur ekki fengið öruggar upplýsingar um neina hlið þessa máls, meðan hún hafði það til meðferðar og tók ákvörðun um að mæla með því til samþykktar.