07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

156. mál, skattfrádráttur vegna skuldaskila bátaútvegsins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í skattalögunum segir, að menn megi draga frá sem útgjöld við skattframtal tapaðar skuldir vegna atvinnurekstrar, þó þannig, að skuldin sé dregin frá, þegar staðreynt er, að hún sé töpuð. Nú voru sett sérstök lög um skuldaskil bátaútvegsmanna. Í sambandi við þau urðu margir að gefa eftir af útistandandi skuldum, sem þeir höfðu áður talið með tekjum sínum af atvinnurekstri. Og ef þetta er rétt, þá kemur það til frádráttar á árinu 1951. Nú er málið þannig vaxið, að hér er um mikla fjárhæð að ræða í sambandi við þessi skuldaskil. Ef þetta mál nú stæði óbreytt, þá gæti svo farið, að þeir, sem eiga hlut að máli, gætu ekki notað sér skuldatöpin nema að litlu leyti til frádráttar tekna á þessu ári. Nú er hér um sérstakt ástand að ræða, vegna þess að þetta eru lögboðin skuldaskil, og hafa þeir, sem hlut eiga þar að máli, bent á, að þeim finnist ákvæði skattal. mjög þröng fyrir sig og að þeir gætu ekki notið þeirra nema að litlu leyti. Stjórnin hefur haft þetta mál til athugunar og álitur, að það sé rétt að breyta eða setja sérstök ákvæði um það að heimila mönnum að draga þessi skuldatöp frá á allt að 5 ára tímabili.

Á þessu ári var lagður á sérstakur stóreignaskattur. Hann var lagður á á miðju síðastliðnu ári, áður en skuldaskilin fóru fram. Og það er gert ráð fyrir því, að margar af þessum skuldum, — þó ekki allar, — hafi verið taldar fram sem eign við stóreignaskattinn. En við nánari íhugun á þessu þótti ríkisstj. eða þeim, sem málið höfðu til athugunar, þetta ekki sanngjarnt eins og háttað var og vildu fá heimild til að breyta þessu þannig, að þær skuldir, sem hafa tapazt á skuldaskilunum, verði dregnar frá eignum, en stóreignaskatturinn verði þó þannig ákveðinn, að um endurgreiðslu yrði að ræða á skattinum. Og vegna þess að gjalddagi er kominn, þá er ekki hægt að gera breyt. á þessu áður en greiðslan fer fram.

Bið ég hv. n., sem fær þetta mál, að breyta orðalagi 2. gr. frv. nokkuð, þannig að um endurgreiðslu verði að ræða á skattinum í sambandi við þessa nýju frumvarpsgrein. Mun ég koma orðalagsbreytingu á framfæri við n., að í staðinn fyrir „eftir nánari ákvörðun ráðherra“ komi þarna, að endurgreiðsla eigi sér stað á skattinum.

Ég sé ekki ástæðu til að útskýra þetta nánar en ég hef gert, og óska ég, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr.