04.02.1953
Sameinað þing: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

182. mál, fjáraukalög 1950

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Á undanförnum þingum hefur fjvn. fundið að því formi, sem frv. til fjáraukalaga hefur verið í, og lagt áherzlu á, að leitað væri heimildar fyrir öllum umframgreiðslum á hverjum lið fjárlagagreinanna, en ekki, eins og verið hefur undanfarið, að tekinn hefur verið aðeins sá mismunur, sem hefur orðið á hverri einstakri grein. Vitanlega verða fjáraukalögin með þessu formi, sem fjvn. hefur óskað eftir, hærri en ella, en hins vegar því sannari.

Nú er frv. til fjáraukalaga lagt fyrir í því formi, sem fjvn. hefur óskað, en ýmislegt reyndist samt athugavert. Þar á meðal komu í ljós furðulegar samlagningarskekkjur, og þurfti n. því að gera allmargar brtt., sem flestar varða niðurstöðutölur hinna ýmsu greina og eins lokatölu frv.

Í 2. gr. frv., sem nær yfir öll þau ríkisfyrirtæki, þar sem umframgreiðslur hafa átt sér stað samkvæmt ríkisreikningi 1950, eru með talin 6 ríkisbú, sem ekki hafa verið sett inn í fjárlög, og þarf því að fá aukafjárveitingu fyrir öllum rekstrargjöldum þeirra, sem urðu árið 1950 milli 1.8 og 1.9 millj. kr. Fjvn. hefur áður bent á, að eðlilegast sé, að rekstraráætlun þessara búa sé sett inn á fjárlög eins og annarra ríkisfyrirtækja. Hefur það sjónarmið í orði kveðnu verið viðurkennt af fjmrn., en aldrei framkvæmt. Við þessa grein frv. gerir fjvn. engar tölulegar brtt., sem hafa nokkur áhrif á niðurstöðutölur gr., en brtt. við 2. gr. eru þessar:

Við tölul. 2, þ.e. síminn. Fyrir orðin „umfram fjárlagaáætlun“ komi: tekjum umfram fjárlagaáætlun. — Má gera ráð fyrir, að hér hafi orðið „tekjum“ fallið niður við prentun og sé um þannig vaxna leiðréttingu að ræða.

Við 6. lið 2. gr. og 9. lið, þ.e. Ríkisprentsmiðjan Gutenberg og Landssmiðjan, gerir fjvn. þær brtt., að í staðinn fyrir, að tekið er fram í gr., hverjar hafi orðið brúttótekjur þessara fyrirtækja, þá leggur n. til, að tekið sé fram, hvað tekjur þessara fyrirtækja hafi farið fram úr áætlun. Þessi brtt. er bæði til samræmis við það, sem er annars staðar í gr., og eins meira upplýsandi, þ.e. hvað tekjurnar hafi farið fram úr áætlun, til samanburðar við það, sem rekstrargjöldin hafa líka farið fram úr áætlun.

Við 5. gr. frv. er flutt brtt. Þar kemur fram í niðurstöðutölu mikil samlagningarskekkja, og á niðurstöðutala þeirrar gr. að vera 5.661.917.98 í staðinn fyrir í frv. 2.930.032.04.

Við 8. gr. er fyrst lítils háttar leiðrétting við íþróttakennaraskóla ríkisins, aðeins um 40 aura. — Við niðurstöðutölu B-liðs 8. gr. er sömuleiðis leiðrétting á samlagningu, þannig að út á að koma kr. 6.684.961.78 í staðinn fyrir kr. 2.205.607.15. Þar af leiðandi breytist svo niðurstöðutala gr. samtals, að sama skapi, í kr. 7.324.922.75.

Við 13. lið 11. gr. er smávægileg brtt. Það er leiðrétting á umframgreiðslu hjá upptökuheimilinu í Elliðahvammi um 6 aura.

Við samtölu 3.–13. gr. frv. er einnig brtt., og er það niðurstaða þeirra leiðréttinga, sem brtt. n. leiða af sér. En þar við bætist svo, að samkvæmt 19. gr. fjárl. frá 1950 eru veittar 14 millj. kr. til greiðslu vegna launahækkana, uppbóta úr lífeyrissjóði, eftirlauna o.fl. Þessi útgjöld koma auðvitað fram á réttum stöðum á hinum einstöku greinum ríkisreikningsins, en þar að sjálfsögðu ekki settar neinar tölur á móti samkv. fjárl. Í 3.–13. gr. frv., sem ná yfir allar rekstrargreinar fjárl., eru m.a. taldar allar þær greiðslur, sem heimilaðar voru með 14 millj. kr. fjárveitingunni á 19. gr., og á því niðurstöðutala þessara greina að lækka að sama skapi.

14. gr. frv. fjallar um eignaaukningar á 20. gr. fjárl. Heimilaðar voru þar samkvæmt fjárl. út kr. 3.6417.506.00, en við þessa upphæð á að bæta 570 þús. kr. Stafar það af því, að á fjárl. 1950, 16. gr. D. VI, voru heimilaðar 650 þús. kr. til lána til kaupa á dieselrafstöðvum. Af þessari upphæð voru útborgaðar 570 þús. kr., sem á ríkisreikningi eru færðar á 20. gr. út og er út af fyrir sig rétt. En þær koma fram aftur á fjáraukalagafrv. sem umframgreiðsla. Hins vegar var, eins og ég hef sagt, heimild á 16. gr. fyrir þessari greiðslu, og á því umframgreiðslan á eignaaukningargreininni að lækka um þessar 570 þús. kr.

Niðurstöðutala frv. lækkar því, samkvæmt því, sem ég hef lýst lauslega, og samkvæmt e-lið 7. brtt. í nál. 665 niður í kr. 122.786.561.69.

Ég kem þá í lokin, að 1. gr. frv., og um hana er í raun og veru ekkert að segja annað en að tölur 1. gr. breytast eðlilega í samræmi við niðurstöðutölur brtt.

Ég hef þá lauslega gert grein fyrir brtt. fjvn., og leggur n. til, að frv. verði samþ. með brtt. á þskj. 665. Jafnframt væntir n. þess, að ekki komi oftar fyrir jafnfráleitar tölulegar skekkjur og nú voru í frv., sem reyndar hafa verið meiri og minni mörg undanfarin ár í frv. til fjáraukal. Slíkar skekkjur virðast óþarfar og í raun og veru óafsakanlegar. Þá er það skoðun n., að þótt dálítið hafi þokazt í áttina til lagfæringar, þá séu frv. til fjáraukal. enn of síðbúin og að réttu

lagi hefði frv. til fjáraukal. fyrir árið 1951 átt að liggja fyrir þessu hv. Alþ.