03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

199. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Þeir hv. 7. landsk. þm. og hv. þm. Barð. fluttu við frv. þetta, þegar það var til umr. í Ed., till. um, að fjölskyldubætur með 2. og 3. barni skyldu vera háðar þeim takmörkunum, að hreinar árstekjur hlutaðeiganda færu ekki fram úr 44 þús. kr. á 1. verðlagssvæði og 33 þús. kr. á öðru. Jafnframt skyldu grunnupphæðir elli- og örorkulifeyris hækka í 4.400 kr. á 1. verðlagssvæði og 3.300 á 2. fyrir einstaklinga og tilsvarandi fyrir hjón. Í umr. um málið tók hv. 7. landsk. þm. það fram, að hann hefði vel talið athugandi að hafa nokkru hærra launatakmarkið um fjölskyldubæturnar, en þessi upphæð orðið fyrir valinu, vegna þess að í heilbr.- og félmn. d. hefði afstaða einstakra nm. verið orðin mjög vænleg til samkomulags um þessa upphæð, þ.e.a.s. 44 þús. kr. En þá kom til sögunnar ábyrgðartilfinning hæstv. ríkisstj. Hún lýsti sig þeirrar skoðunar, að ef frv. yrði breytt í þessa átt, yrði að líta á sig og Alþingi sem svíkara við það samkomulag, sem gert var til lausnar vinnudeilunum í des. s.l., og meiri hl. n. fylgdi frv. óbreyttu. Hæstv. fors.- og félmrh. mælti á þá leið í báðum d., að öllum má vera ljóst, að hæstv. ríkisstj. er mjög umhugað um, að ekki sé svikið þetta loforð, sem hún telur sig hafa gefið vinnuveitendum, eins og hún segir, en það yrði gert, ef hátekjumenn og auðmenn yrðu ekki styrktir af almannafé til að ala upp 2. og 3. barn sitt.

Sú ábyrgðartilfinning, sem fram kom í því, að felldar voru fyrr nefndar till. í Ed., er vissulega dálitið skrýtin. Þær till. miðuðu sem sagt að því að taka nokkur hundruð krónur, sem hátekjumenn og auðkýfingar eiga samkvæmt frv. að fá af almannafé til að ala upp 2. og 3. barn, og verja þeim til að bæta nokkuð kjör öryrkja og gamalmenna. Öllum kemur saman um, að þetta fólk, öryrkjar og gamalmenni, búi við einna naumust kjör allra þegna þjóðfélagsins, og er þá sannarlega mikið sagt, eins og högum er nú viða háttað á alþýðuheimilum. Við umr. um málið í Ed. kvaðst hv. 7. landsk. geta nefnt mörg mjög átakanleg dæmi um kjör manna, sem ættu fyrir börnum að sjá, en hefðu misst vinnugetu sína. Örorkulífeyririnn hrykki hvergi nærri til að bægja skorti frá heimilum þessara manna. Margir þeirra hefðu leitað til sveitar sinnar um hjálp, og hyrfu menn þó ekki að því ráði fyrr en í síðustu lög, svo þungt félli mönnum yfirleitt að leita á náðir sveitarinnar. Og ekki eru betri kjör gamla fólksins. Einstæðingar í hópi þess hírast víða í þröngum kytrum og eiga varla málungi matar og þaðan af síður auðvitað, að þeir njóti nokkurs í átt við þá hvíld og áhyggjuleysi, sem þetta fólk hefur unnið til með því að fórna þjóðfélaginu allri starfsorku sinni um langa ævi. Ef það er ábyrgðartilfinning að gefa efnamönnum og jafnvel auðmönnum nokkur hundruð krónur til að ala upp börn sín og neita jafnframt þessu fólki um aukinn styrk til að bægja frá sér skorti, þá býst ég við, að margur muni heldur vilja láta kalla sig ábyrgðarlausan mann.

En fyrst nú ríkisstj. telur sig hafa lofað hátekjumönnum og auðmönnum styrk af almannafé til að ala upp börn sín, — og sýnilegt er, að hún slakar hvergi til í því máli, — þá virðist mér ekki, að það mundi verða til neins að halda fast við till. þeirra hv. 7. landsk. og þm. Barð. og flytja þær alveg óbreyttar hér í Nd. Þó hef ég klofið heilbr.- og félmn. í málinu og skilað sérstöku nál., sem var útbýtt hér rétt áðan, og á þskj. 710 flyt ég brtt. við frv.

Till. þessar eru að mestu samhljóða till. hv. 7. landsk. og þm. Barð. í Ed., nema þarna eru hækkuð upp í 50 þús. kr. launatakmörkin um rétt til fjölskyldubóta með 2. og 3. barni. Hins vegar er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði tryggingunum þá fjárhæð, sem þær greiða mönnum, sem hafa yfir 50 þús. kr. í hreinar árstekjur, sem fjölskyldubætur með 2. .og 3. barni.

Með þessu er það sem sé alveg sett í hendurnar á hæstv. ríkisstj. að greiða þá uppeldisstyrki, sem hún telur sig samkvæmt samningum eiga að greiða hátekjumönnum og auðmönnum, og hún efni þannig sjálf sitt loforð. En jafnframt er séð svo um, að tryggingakerfið sjálft, sem nógu slappt er í umönnun sinni fyrir þeim, sem lægst eru settir, sé ekki teygt til hinna ríku og þannig lamað stórlega um leið.

Hins vegar er í minni till. gert ráð fyrir nákvæmlega sömu hækkun á elli- og örorkulífeyri eins og var í till. þeirra hv. 7. landsk. og þm. Barð. í Ed. — Þykist ég svo ekki þurfa að hafa um þetta fleiri orð.