29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

18. mál, bæjanöfn o. fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal nú lofa því fyrir n. hönd að athuga þetta, sem hér hefur komið fram hvort tveggja, bæði það, hvort heppilegra þykir að láta aðra en örnefnanefnd fjalla um þetta, eins og hv. þm. Barð. minntist á, og eins hitt, sem reyndar hefur vakað fyrir n., að n. ætti að vinna að þessu, en ekki að það væri skylda, en ég skal athuga, hvort það er ekki hægt að hafa orðalagið þannig, að það sé ótvírætt.

Ég get sagt frá því, til þess að mönnum sé ljósara, að það sé þörf á þessu, að ég hef tvivegis fengið skökk veðbókarvottorð vegna þess, að jarðir hafa heitið sömu nöfnum, þegar ég var að taka lán fyrir bændur. Þannig er það ekki alveg víst, að það komi ekki að sök. Ég áttaði mig undireins á því, og það kom ekki að sök, en bankinn, sem hlut átti að máli, hefði ekki áttað sig á því. Það var bara af því að ég vissi, hvað átti að hvíla á jörðinni, sem ég átti að taka lán út á fyrir viðkomandi bónda, og sá, að veðbókarvottorðið gat ekki átt við þá jörð, af því að það voru allt aðrar tölur, svo að ég símaði til viðkomandi sýslumanns, sem áttaði sig þá á því. Jú, það var önnur jörð, sem hét sama nafni, sem hann hafði tekið í misgripum. Enn fremur get ég sagt frá því, að það kemur fyrir, — ég vil ekki segja vikulega, en mánaðarlega, að mennirnir á pósthúsinu hringja í mig og segja: Á hvaða Hóli á nú þessi maður heima? Geturðu sagt mér, á hvaða Hóli það er, sem hann býr, maður, sem heitir Jón Pétursson eða eitthvað annað? — Og oftast nær get ég leyst úr því, en ekki ævinlega. Þannig koma samnefnin líka þar að sök. Enn fremur er það á hverju hausti nokkrum sinnum, sem hringt er til mín, bæði frá Keldum og eins frá prófessor Dungal, og sagt: Hvaðan heldur þú, að hann sé, maðurinn, sem á heima á einhverjum bæ, Gili eða einhvers staðar, sem heitir þetta eða hitt og biður mig að senda sér bóluefni í svona margar kindur? Á hvaða Gili heldur þú, að hann búi? Hvert heldur þú, að ég eigi að senda það? — Þetta kemur líka fyrir. Það er auðvitað af því, að mennirnir hafa ekki sjálfir nógu greinilega sagt, hverjir þeir væru, þegar þeir skrifuðu bréfið. En þetta kemur fyrir á hverju einasta hausti, þegar verið er að senda út bóluefni, bæði bráðapestarbóluefni og eins bóluefnið núna frá Keldum, svo að það er ekki alveg einskis virði að hafa nöfnin sem greinilegust. En ég get verið sammála þeim, sem hér hafa rætt um það, að það var ekki meining okkar að gefa nefndinni hér óskorað vald, einmitt af því, að við vitum nú, hvað nöfnin eru mönnum viðkvæm. Það var ekki meining okkar að gera það að skyldu, og það er fyrir klaufalegt orðalag hjá okkur, sjálfsagt mér að kenna, að það er komið inn, því eins og ég veit, að létt er að afnema sumar samnefnurnar, eins erfitt verður að afnema aðrar. Þó er ég ekki viss um það. Ég tel t.d., að það muni verða tiltölulega auðvelt að þurfa ekki að hafa tvær Þverár í Svarfaðardal, það muni vera tiltölulega mjög auðvelt að fá breytt nafni á annarri. En ég býst við með Þverá í Öxnadal og Þverá í Öngulsstaðahreppnum, að þar vilji hvorugur eigandi sleppa nafninu af sinni Þverá. Þess vegna verður þetta dálítið misjafnt, og þess vegna skal ég sem sagt lofa að athuga þetta og geri ráð fyrir, að d. geti orðið sammála um það atriði. — Að öðru leyti held ég ekki að ég þurfi að segja neitt frekar.

Það getur nú vel verið, að hæstv. ráðh. finnist ekki við eiga, að þingið sé að koma með svona miklar breyt. við lög, sem hæstv. ríkisstj. sá ekki ástæðu til að koma með nema sáralitlar breyt. við. En ég vil nú halda, að það hafi ekki komið þannig frá ríkisstj. af því, að hún sé því mótfallin, að það sé fleiru breytt í lögunum og tekin upp þessi ákvæði, sem hér eru, heldur bara af því, að hún hafi ekki lagt eða látið leggja neina vinnu í frv. Og ég býst bara við, að ef stjórnin hefði spurt örnefnanefnd, hvort hún vildi ekki breyta því meira, þá hefði hún komið sjálf með miklu ýtarlegri breyt. heldur en stjórnin kom með. Ég geri ráð fyrir þessu, án þess að ég þó viti þetta. Og þess vegna held ég, að ríkisstj. sem slík þurfi ekkert að fyrtast við það á nokkurn hátt, þó að við tökum upp meiri breyt. á frv. heldur en hún lagði til. Það er ekkert vantraust á henni frá okkar hálfu á nokkurn hátt, þó að við tökum upp fleiri breyt. þarna við frv., breyt., sem þeir menn, sem unnið hafa að þessu, eru sammála um að séu til bóta.