05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

164. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Það stóð til, að hér væri útbýtt brtt. prentaðri, og vel hefði það mátt takast tímans vegna, því að henni var komið í prent núna um hádegið, er þingfundir hófust, en sakir einhverra mistaka er nú ekki búið að útbýta henni, og mun ég þá verða af hálfu allshn. að bera hana fram skriflega, ef henni verður ekki útbýtt hér á meðan ég segi hér nokkur orð.

Þessi brtt., sem n. ber fram, er um að færa 2. gr. frv. í sama horf og hún var, þegar málið fór héðan. Eins og hv. dm. muna, þá voru ákvæði 2. gr. frv., eins og það fór héðan frá þessari hv. d., nákvæmlega hin sömu og voru samþykkt á síðasta þingi og gerð að lögum, og féllst Ed. þá á þá ákvörðun Nd. að hafa þessa skipun á veitingu ríkisborgararéttar. Og eins og fram kom í ræðu hæstv. menntmrh., þegar hann gat þess, hvernig þessir útlendu menn, sem sótt höfðu um ríkisborgararéttinn, hefðu brugðizt við, þá höfðu þeir nær undantekningarlaust tekið upp íslenzk heiti. Það er ekki ástæða fyrir mig að fara að fjölyrða um þetta, það var gert hér rækilega við 3. umr., og þessi hv. d. hefur staðið nær einhuga með því að hafa þessa skipun á þessu máli, bæði í fyrra og nú, svo að það er ekki ástæða til þess að fjölyrða mikið um það, og n. væntir þess, að hv. Nd. haldi uppi þessari venju og láti ekki annað tíðkast um þetta efni. Þá er okkur skylt að vera á verði, að svo miklu leyti sem við getum, um meðferð og verndun okkar móðurmáls, og ætla ég ekki að fjölyrða um það atriði frekar. Það var talað rækilega um þetta mál við 3. umr.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að það getur ekki verið, að neinir hv. þm. leggi það mikið kapp á, að menn haldi hér útlendum nöfnum um leið og þeir öðlast þegnréttindi, að þeir felli frv., þótt það komi í Sþ. Reyndar get ég búizt við, að þó að þeir menn, sem hafa nú stundað þá iðju að láta útlendu nöfnin halda áfram að komast inn í okkar mál, fylki liði, eftir því sem vitað er um fylgi málsins, þá muni vera góðir 2/3 hlutar þings, sem vilja hafa þá skipun á, sem Alþ. hafði á þessu máli í fyrra.

Hvað sem að öðru leyti hefði nú mátt um þetta segja, þá álít ég það alveg ófært fyrir Alþ., að það hringli til um slíkt mál sem þetta frá einu þingi til annars. Þessi regla var tekin upp einhuga að heita mátti í fyrra, að hafa þessa skipun á, og ef nú ætti að fara að víkja frá því á næsta þingi á eftir, hvar lendir það? Í þágu hverra er það gert? Ekki fyrir Íslendinga. Ekki í þágu móðurmálsins. Ekki í þágu þeirra, sem ætla að fá íslenzkan þegnrétt og vera íslenzkir menn í anda og starfi. Ef það eru svo einhverjir, sem meta það svo mikils að halda sínum erlendu nöfnum hér hjá okkur og vilja ekki öðlast borgararétt með því að taka upp íslenzk heiti, þá verður það að vera þeirra mál.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar. Ég vona og veit reyndar fyrir fram, að hv. d. passar upp á þessar sakir og sýnir metnað sinn í því að halda uppi þessu starfi í þinginu, að það sé ekki farið að hringla úr einu í annað og þær reglur, sem settar eru, ekki sízt í þessum efnum, verði haldnar í heiðri, þegar eitt sinn er búið að móta regluna.