05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

164. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér þykir mjög vænt um það, að hv. Ed. skuli hafa breytt þeim ákvæðum frv., sem skylda hina erlendu ríkisborgara til algerðrar breytingar á nafni sínu, í það horf, sem ég hafði lagt til hér í hv. d., þ.e.a.s. þannig, að þeir breyti aðeins fornafni sínu og hið sama geri niðjarnir og þeir taki síðan þegar í stað að kenna sig við hið íslenzka fornafn föður síns.

Það er auðséð, að ef þessi hv. d. breytir málinu aftur, fer það í Sþ., með þeim afleiðingum, að öllu málinu kann að verða stefnt í hættu. Hv. 1. þm. Árn. sagði, að þessi hv: d. hefði nær einróma samþ. fyrirmælin um hina algeru nafnbreytingu. Þetta er rangt. Það var samþ. hér með 18 atkv. gegn 8, og er það auðvitað fjarri því að vera einróma.

Annars vildi ég segja aðeins örfá orð til viðbótar því, sem ég áður hef sagt um málið, í tilefni af síðustu ræðu hv. 1. þm. Árn. Hann spyr enn: Í þágu hverra er þessi barátta mín, sem hann kallar svo? Hann segir, að það sé nauðsynlegt að vernda málið fyrir hinum erlendu ættarnöfnum. Ég hef áður sagt honum, að um það erum við báðir sammála. Spurningin er aðeins um það, hvort láta á fullorðna menn, sem búið hafa sem Íslendingar hér í landinu árum saman eða áratugum, skipta algerlega um nafn eða hvort á að freista þess að leysa þann vanda, sem hér er, með þeim hætti að láta þá aðeins breyta fornafni sínu, til þess að nöfn barna þeirra geti orðið alíslenzk þegar í stað, en leyfa þeim að halda ættarnafni sínu meðan þeir eru á lífi. Ég fæ með engu móti séð, að íslenzkri tungu eða íslenzkri menningu stafi nokkur voði af því, þótt nokkrir tugir manna fái að bera sitt ættarnafn, þótt erlent sé, meðan þeir eru á lífi, ef það er jafnframt fyllilega tryggt, að börn þeirra taki þegar í stað upp íslenzkt nafn og taki að kenna sig við fornafn föður síns að algerlega íslenzkum hætti. Og ég vil benda á, að hér hafa verið tugir og hundruð erlendra ættarnafna, án þess að tungan hafi af því spillzt meir en orðið er, og þessi nöfn eiga að fá að lifa áfram í friði fyrir hv. 1. þm. Árn. og hæstv. menntmrh.

Ég hef einnig orðið var þess misskilnings, að fái frv. að vera áfram eins og það er nú, þá muni þessi ættarnöfn festast, vegna þess að enginn muni þá nenna að fylgjast með því, hvort þau verði kyrr í málinu eða ekki. Þetta er alger misskilningur. Það hljóta menn að sjá, svo framarlega sem menn lesa frumvarpsgreinina eins og hún er nú, því að þar er skýrum stöfum kveðið svo á, að niðjar hinna nýju ríkisborgara skuli taka upp íslenzkt fornafn og kenna sig við fornafn föður síns, þannig að nafnbreyting þeirra verður alger og algerlega með íslenzkum hætti. Eftirlitið, sem þarf að hafa, ef frv. verður svona, er því sízt meira, heldur minna, en ef fyrirmælin um hina algeru nafnbreytingu ná fram að ganga. Og ég vil endurtaka það, sem ég sagði, þegar mál þetta var hér til umr. áður, að ég tel meiri hættu á því, að hin erlendu ættarnöfn lifi raunverulega í málinu, ef till. hv. allshn. nær fram að ganga, heldur en ef frv. fær að vera óbreytt eins og það er nú, vegna þess að mig grunar, að ýmsir hinna nýju ríkisborgara telji fyrirmælin um hina algeru nafnbreytingu svo ósanngjarna, svo rangláta í sinn garð, að þeir noti hin nýju íslenzku nöfn ekki í daglegu tali, þótt þeir noti þau við allar lögformlegar undirskriftir. Ef svo er og þeir fá almenningssamúð með þessu sjónarmiði sínu, þá er auðvitað verr af stað farið en heima setið. Ég hygg, að auðvelt sé að sannfæra þessa menn, sem hér eiga hlut að máli, um það, að þessi millivegur sé svo miklu sanngjarnari lausn, að allir — bókstaflega allir — muni hlíta þeim fyrirmælum með glöðu geði. Og þá verður þessi leið, þótt vægari sé í fyrstunni, líklegri til árangurs.

Ég vil benda á það, að um þetta mál hefur allmikið verið rætt utan þings hina síðustu daga. Til dæmis ræddi ágætur fyrirlesari málið í útvarpserindi nú fyrir nokkrum dögum. Og hann benti á mjög athyglisverða hlið á málinu. Hann benti á það, að ef fyrirmælin um hina algeru nafnbreytingu ná fram að ganga, þá er ýmsum hinna nýju ríkisborgara skylt að leggja niður nöfn, sem Íslendingum sjálfum er nú heimilt að bera, og nefndi um þetta ýmis dæmi. Það eru til ýmis erlend lögleg ættarnöfn, sem heilar fjölskyldur, tugir manna bera nú. Þessi sömu ættarnöfn verða forboðin, ef þau eru borin af manni, sem sækir um íslenzkan ríkisborgararétt. Þetta er náttúrlega þvílík ósanngirni og í raun og veru svo heimskulegar ráðstafanir, að engu tali tekur. Annaðhvort er erlent nafn óeðlilegt og hættulegt íslenzkri tungu eða það er það ekki. Og það nær engri átt að banna það í einu tilfelli, en leyfa það í öðru, og meira að segja leyfa, að það lifi áfram í gegnum komandi kynslóðir.

Það, sem verður að gera í þessu, er annaðhvort að fara þá miðlunarleið, sem hv. Ed. nú hefur samþ., eða samþykkja jafnframt breytingu á nafnalögunum, sem banni öllum Íslendingum að bera erlend ættarnöfn. Það er í samræmi við stefnu hv. allshn. þessarar d., og það gæti ég í sjálfu sér virt við hv. n., ef hún tæki þá stefnu upp og vildi framfylgja henni. En að setja skilyrði um algera nafnbreytingu vegna útlends ættarnafns við hina nýju ríkisborgara eina, en láta sömu ættarnöfnin fá að haldast á þeim, sem eru ríkisborgarar fyrir, það er ósamkvæmni í með ferð mikilvægs máls, sem er hinu háa Alþingi alls ekki samboðin. Þess vegna vil ég leyfa mér að vænta þess, að þessi hv. d. samþ. frv. eins og það er orðið núna. Það verður að öllu leyti affarasælast. Og ég er sannfærður um það, að til lengdar verður það líka hin bezta og farsælasta vernd fyrir íslenzka tungu, eins og okkur hv. 1. þm. Árn. er hugleikið að verða megi.