04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

115. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. lýsti, þá ber ég fram á þskj. 360 brtt. um það við 1. gr., að 1. tölul. greinarinnar falli niður, en það er,að haldið verði áfram að kenna þýzku í sjómannaskólanum. Samkvæmt lögunum ber að kenna þýzku í skólanum, en þó ekki fyrr en við farmannapróf. Það hefur aldrei verið tekin upp þýzkukennsla samkvæmt lögunum fyrir fiskimannaprófið, og hefði þó verið full ástæða til þess.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að síðan skólinn var stofnaður, hefur sú breyting orðið á, að langflestir nemendur skólans ljúka nú gagnfræðaprófi eða a.m.k. miðskólaprófi, þar sem þeir hafa fengið allmikil undirstöðuatriði í málakennslu, bæði í íslenzku, dönsku og ensku. Þar af leiðandi þurfa þeir að verja miklu minni tíma til tungumálanáms nú í sjómannaskólanum, heldur en þeir þurftu áður, t.d. fyrir 20–25 árum, auk þess sem þeir hafa fengið miklu meiri undirbúning nú einnig í stærðfræði og öðrum almennum fræðum.

Ég vil einnig í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að farskipaflotinn siglir mjög mikið á þýzkumælandi lönd, og það er ákaflega mikið fjárhagslegt atriði fyrir útgerðina og fyrir landið í heild, að þeir menn, sem sigla sem skipstjórar og yfirmenn, kunni þau mál, sem töluð eru í þeim löndum, sem þeir koma við í. Breytir þar ekkert um, þó að önnur miklu stærri þjóð eins og Englendingar taki ekki upp tungumálakennslu, þar sem þeir ætlast beinlínis til þess, að aðrar þjóðir tali þeirra mál. Væri miklu nær, ef nemendur stýrimannaskólans eru það tornæmir, — sem ég ekki trúi, — að þeir treysti sér ekki til þess að bæta við sig einu tungumáli enn þá við námið, að fella þá niður dönskuna eða Norðurlandamálin heldur en að fella niður þýzkuna. Ég vil enn fremur leyfa mér að benda á, að þeir menn, sem hér um ræðir, eru menn, sem hafa allt að 300 þús. kr. laun á ári, þegar um er að ræða skipstjóra eða yfirmenn á togaraflotanum, og á annað hundrað þúsund krónur í verzlunarflotanum. Ef ekki er hægt að gera þá kröfu til þeirra manna, að þeir kunni sæmilega mál, sem töluð eru í þeim löndum, sem þeir eiga að sigla á og hafa viðskipti við, þá er full ástæða til þess að fara að taka það til alvarlegrar athugunar, hvort rétt sé að láta slíka menn hafa þau launakjör, sem hér um ræðir. Ég vil enn fremur leyfa mér að benda á, að skólastjórinn sjálfur viðurkennir hér í sínu bréfi, að það sé nauðsynlegt til þess að geta fengið próf við síðustu deild skólans, þ.e. við varðskipin, að þessir aðilar hafi lokið námi í þýzkri tungu, en þá á það aðeins að vera þannig, að það séu rétt undirstöðuatriði. Nú má geta nærri, hvort það er styrkleikur fyrir okkur hér í sambandi við landhelgisgæzluna, að þeir menn, sem eiga að vera þar í broddi fylkingar, skuli aðeins kunna undirstöðuatriði í tungu þeirra landa, sem senda skip sín hingað á veiðar, þegar jafnframt er vitað, að taka verður þau í landhelgi og halda réttarhöld yfir skipstjórum þeirra vegna lögbrota. Og hversu miklu eðlilegra væri þá ekki fyrir þessa menn að byrja á þessum undirstöðuatriðum fyrr heldur en að byrja á þeim, þegar þeir eru komnir í þá deild, sem hér um ræðir? Ég vil einnig leyfa mér að benda á, að ef frv. verður samþykkt eins og það liggur fyrir hér og mín till. felld, þá er nauðsynlegt að breyta hér annarri grein síðar í lögunum í sambandi við þýzkukennsluna, en það verður sjálfsagt athugað af nefndinni fyrir 3. umr.

Ég skal viðurkenna, að þó að mín till. verði felld hér nú og frv. nái fram að ganga, þá er síður en svo, að það þurfi að kosta það, að þýzkan verði útilokuð úr skólanum, því að sjálfsögðu er hægt að taka kennsluna upp með reglugerð. Hitt verður ekki tekið sem góð og gild ástæða, að skólastjóri lýsi því yfir, að það sé ómögulegt að kenna þessa námsgrein í skólanum. Ef hann ætti að komast upp með slíkt, ef nokkur skólastjóri ætti að komast upp með slíkt, að afnema námsgrein í skóla vegna þess, að nemendurnir hefðu ekki áhuga fyrir að læra námsgreinina eða gáfur til þess að læra hana, þá væri hægt fyrir hverja nemendur í hvaða skóla sem er í landinu að gera einhvers konar stéttarfélag og gera verkfall hjá skólastjóra og segja: Þessa námsgrein viljum við ekki læra, — og síðan ætti það að verða til þess, að skólastjóri kæmi á Alþ. og segði: Ég get ekki fengið nemendurna til þess að læra námsgreinina. Þess vegna verður að fella námsgreinina í burtu úr skólanum. — Mig undrar, að jafnágætur maður eins og hér á í hlut, skólastjórinn við stýrimannaskólann, skuli láta hafa slík orð eftir sér. Um hitt verður ekki deilt, að það er stórkostlegt fjárhagslegt tjón fyrir útgerðina og stórkostlegt fjárhagslegt tjón fyrir þetta land, að felld sé í burtu tungumálakennslan fyrir þá menn, sem eiga að sigla fyrir Íslands hönd til þeirra landa, sem hér um ræðir. Og þó að mín till. verði ekki samþykkt nú samkvæmt ósk hv. sjútvn., þá verður þetta mál áreiðanlega tekið upp síðar, því að það verður ekki þolað lengi, að þeim mönnum, sem hér starfa og hafa þau kjör, sem ég hef lýst, verði gefið eftir að undirbúa sig ekki sæmilega undir lífsstörf sín.