02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

139. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Frv. um breyt. á laxveiðilöggjöfinni var lagt fram vegna þess, að það var aðkallandi þörf að breyta refsiákvæði löggjafarinnar, og þarf það mál ekki útskýringa við. En það, sem olli því, að þetta hefur verið gert og athugað, eru afbrot, sem komið hafa fyrir í sumar og frá hefur verið skýrt opinberlega. En það kemur í ljós, að það getur verið mjög arðvænleg atvinnugrein að stunda veiðiþjófnað og þola þó allar þær sektir, sem eru í löggjöfinni eins og hún er nú. Hins vegar var það augljóst mál, að það var ekki hægt að gera aðrar breyt. á veiðimálalöggjöfinni eins og nú standa sakir, og ástæðan er sú, að mönnum er ljóst, að veiðilöggjöfin þarf margra breyt., eins og eðlilegt er um löggjöf, sem staðið hefur um þetta skeið og reynsla hefur komið á, en ef það væri byrjað að breyta einhverju meiru en hegningarákvæðunum, refsiákvæðunum, þá mundi eðlilega rísa ágreiningur, því að margt af því, sem breyta þarf, er órannsakað mál og um það skiptar skoðanir. Þess vegna var ekki farið lengra, en að breyta aðeins refsiákvæðunum. Hins vegar er mér ljúft að lýsa því yfir, að þessi löggjöf verður tekin til endurskoðunar, því að um það hefur komið fyrir nokkru beiðni frá veiðimálan. og ábendingar, sem rökstyðja það fyllilega, að endurskoðun sé nauðsynleg, eins og hv. þm. Barð. hefur hér bent á. Endurskoðunin verður því framkvæmd á næstunni, og skal ég ekki lengja mál mitt með því að lýsa þeim mörgu ákvæðum, sem þarf að taka til athugunar í þeirri löggjöf.

En út af því, sem sagt var hér um veiðimálastjóra, þá er rétt að upplýsa það fyrir hv. þd., eins og þm. er ef til vill mörgum kunnugt, að veiðimálastjóri sagði lausu embætti fyrir að mig minnir tveim árum, og þá var reynt að fá annan mann í embættið, mann, sem hefði lokið því prófi, að líklegt mætti teljast, að starf hans gæti orðið að gagni fyrir þessi mál. Það var síðan beðið í tvö ár eftir því, að þessi tiltekni maður lyki prófi, en án árangurs. En á þeim tíma snerist núverandi veiðimálastjóra hugur, og hann óskaði eftir því að taka við embættinu að nýju, sem var samþykkt, þar sem ekki hafði verið fundið að hans störfum í embættinu og ástæðan til þess, að hann fór úr því, hafði eingöngu verið samkvæmt eigin ósk. Af þessum ástæðum hefur orðið dráttur á ýmsu, sem gera þarf í veiðimálunum. Og án þess að hafa miklar málalengingar um þau mál, sem eru þó einna merkust af þeim, sem við höfum hér milli handanna í þessu landi, þá er það alveg rétt, að það komi að minnsta kosti hér fram, að það hefur orðið dráttur m.a. á því, að byggð yrði klakstöð, sem átti að byggja hér skammt frá bænum og í samstarfi við bæinn. Ástæðan til þess er það, að annar aðili hefur haft framtak um það atriði. Hins vegar er það alveg vitað mál, að það er næstum því útilokað, að þær rannsóknir, sem þarf að framkvæma í sambandi við veiðimál, og þótt ekki sé nema ein einasta grein í sambandi við klak og uppeldi fiska, verður ekki gerð af einum einstaklingi, vegna þess að það fyrirtæki er svo fjárfrekt.

En í sambandi við þetta mál hefur komið upp einmitt atriði, sem mér þykir rétt að vekja athygli hv. alþm. á. Það er t.d. fullyrt í sambandi við þær tilraunir, sem nú hafa verið gerðar af þessum manni, sem með miklum dugnaði hefur beitt sér fyrir klaki, að regnbogasilungur sé sérstaklega góður og hentugur fiskur til uppeldis. Það er að vísu reynt annars staðar, að hann er það, og að sjálfsögðu alveg rétt. Það eru stór hús, sem ekkert gera annað en að framleiða þessa fisktegund í stórum stíl, og má benda á það t.d. núna, að Danir selja til einnar þjóðar aðeins fyrir um 30 milljónir af fiski, sem þeir ala upp á visst aldursskeið og selja síðan.

En þetta er alveg órannsakað mál hér. Ég bendi á þetta til þess, að hv. alþm. geri sér ljóst, hvaða óskaplegt verksvið er hér fram undan. Það er alveg órannsakað mál, hvort einhver íslenzk fisktegund er eins góð eða betri tegund heldur en regnbogasilungurinn. T.d. með murtuna úr Þingvallavatni er aðeins byrjað á örlitlum tilraunum um það, en við vitum ekkert, hvað það tekur langan tíma að ala hana upp í þá stærð, sem hún er í Þingvallavatni, þegar hún veiðist þar á haustin og er ótakmarkaður markaður fyrir, að því er virðist, eða lítt takmarkaður. Alveg sama er að segja um bleikjuna í Þingvallavatni. Það getur vel verið, að hún sé sá silungur, sem við eigum að taka til að ala. Svo er urriðinn, við vitum ekkert hvaða tegundir, þær eru margar. Bleikjan, sem gengur til hafs og er aðallega í ánum á Norðurlandi og Vesturlandi, — það getur vel verið, að hún sé tegundin, sem við eigum að taka og ala upp. Allt er þetta órannsakað mál og verður ekki gert nema afla verulegs fjármagns til þess að framkvæma þessar rannsóknir. Og þær verða aldrei gerðar af neinum einstaklingi, því að svo kostnaðarsamar eru þær. En hitt er líka alltaf yfirvofandi hætta, þegar einstaklingar taka að sér þessi verk, eins og hefur sýnt sig á ýmsum öðrum sviðum, þó að ég sé ekki að segja það, að þessi maður, sem fæst núna við klak og uppeldi, geri það, þá eru gefnar út yfirlýsingar um eitt og annað, fullyrðingar, sem ekki fá staðizt og eru meira til að villa heldur en til þess að leiðbeina þeim, sem á eftir koma og ætla sér að stunda atvinnu á þessu sviði.

Eins og ég sagði, er þetta mál, sem hér liggur fyrir, mjög viðtækt, og mætti margt um það segja. En ég ætla ekki að gera það á þessu stigi. Mér er ljúft að geta þá yfirlýsingu af ástæðum, sem ég sagði áðan, að lögin um lax- og silungsveiði verða endurskoðuð, og þá kemur vitanlega margt til athugunar, sem getur beðið þess tíma og þá einnig þess, að það verði rætt frekar, en ég hef gert hér í þessum fáu orðum.