02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

139. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Mig undraði ekki neitt á orðum hv. þm. Barð. (GJ) um það, hvað veiðiþjófarnir slyppu billega frá sínum veiðiskap, en ég hjó eftir þeim orðum, sem hann hafði eftir hæstv. landbrh. Það má vera, að hann hafi sagt það, en þó trúi ég því tæplega, því þó að þessir „atvinnurekendur“, og það ætti hv. þm. að vita, gjaldi sektir, sem eru refsing á þá, þá eru þeir samt sem áður skaðabótaskyldir landeigendum eða árleigjendum, og því hefur hvorugur tekið eftir, býst ég við, þegar þeir ályktuðu þetta. Auðvitað verða þeir þá að greiða allt andvirði þess lax, sem þeir taka, ef krafizt er bóta af landeigendum eða þeim, sem hafa þann hyl á leigu, sem þeir eyðileggja, og verða að borga að fullu þann lax og fisk, sem þeir hafa tekið, auk annars tjóns, sem þeir hafa valdið. Og þá verð ég að segja, að mér finnst eitthvað loðin sú röksemd hjá þeim mönnum, að þeir geti farið og haft gróða upp úr því, þegar þeir auk skaðabóta og andvirðis þess afla, sem þeir fá, verða að bæta ofan á tugum þúsunda í sektir. Þetta er það atriði, sem ég held að hafi verið misskilningur hjá þessum tveimur hv. ræðumönnum og ég vildi leiðrétta. Því aðeins var það af því, að við höfðum þetta í huga, að við vildum ekki fara hærra í sektir en nál. greinir, og þá skulu allir vera fullvissir um, að ef rekið er réttar síns í þessum málum, þá verður það seintekinn gróði fyrir þjófa og illræðismenn að fara í ár annarra, ef næst í þá náunga.