05.12.1952
Neðri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

140. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þessu máli var frestað hér á fundi í gær eftir ósk frá mér. Síðan hefur sjútvn. athugað málið nokkru nánar og þá sérstaklega það ákvæði í 16. gr. frv., sem ég gerði hér athugasemd við, og m.a. var staddur á fundi sjútvn. forstjóri Samábyrgðarinnar, sem hefur með þessi mál að gera í framkvæmd. En þrátt fyrir þær upplýsingar, sem að vísu komu fram á þessum fundi, þá gat ég nú ekki fallizt á sjónarmið meiri hl. n. og hef því flutt við þessa grein brtt., sem er að finna á þskj. 377.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa brtt., því að ég rakti það að mestu í gær, en aðalatriðin eru þessi: Í 16. gr. frv. er svo fyrir mælt, að krefjast skuli lögtaks á öllum ógreiddum vátryggingariðgjöldum fiskiskipa, þegar liðnir eru 3 mánuðir frá gjalddaga iðgjaldsins. Mín brtt. fjallar um það, að í staðinn fyrir orðin „3 mánuðir“ komi: 6 mánuðir, — og það verði ekki bundin í lögum skilyrðislaus skylda til þess að krefjast lögtaks fyrir vangoldin iðgjöld fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því að gjalddagi var.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að gjalddagar séu á þessum iðgjöldum tveir á hverju ári, og eru iðgjöldin reiknuð fyrir fram. Í framkvæmdinni yrði því þetta þannig, ef mín till. yrði samþ., að þegar þeir 6 mán. eru liðnir, sem vátryggingariðgjaldið reiknast fyrir, þá verði krafizt lögtaks. En í hinu tilfellinu, eins og segir í frv. nú, þá yrði krafizt lögtaks í rauninni miðað við 3 mánuði fyrir fram, eða á miðjum þessum iðgjaldstíma. En hver iðgjaldstími er raunverulega þarna 6 mán.

Ég óttast það sem sagt, að úr þessu verði hin mestu vandkvæði hjá mörgum fiskibátum, ef innheimtan ætti að vera svona harkaleg í öllum tilfellum, og ég þykist vita það, að ýmis tilvik séu þannig, að það verði ekki komizt hjá því að bíða nokkuð með það að gera lögtök vegna þessara gjalda, þó að mér sé það hins vegar alveg ljóst, að það verður að vera talsverð hörð innheimta, því að nú er svo komið með Samábyrgðina, að hún er í hreinustu vandræðum með að standa við sínar skuldbindingar vegna þess, hve innheimtan hefur verið í lélegu ástandi. En mér finnst þó, að þessi till. mín sé í rauninni alveg lágmark í þessu efni, þar sem vátryggingarfélögin hafa alltaf rétt til þess hvenær sem er að láta lögtakið fara fram, en að þau séu þó ekki skylduð til þess með lögum að láta lögtakið fara fram fyrr en að 6 mánuðum liðnum, eða frá því að sá tími er raunverulega liðinn, sem tryggingartímabilið þá hefur náð yfir.

Ég ætla, að það eigi að vera full aðstaða og góð aðstaða fyrir vátryggingarfélögin að halda uppi sæmilega góðri innheimtu á iðgjöldum, þó að þessi till. yrði samþ., en hins vegar mundi samþykkt hennar koma í veg fyrir allmikil vandræði í mörgum tilfellum, sem mundu hljótast af framkvæmdinni, ef henni væri hagað eins og frv. mælir nú fyrir.