16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

178. mál, fiskmat

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. er um breyt. á l. nr. 46 frá 5. apríl 1948, um fiskmat og meðferð, verkun og útflutning á fiski, og er flutt eftir ósk atvmrn. og hefur þegar fengið afgreiðslu í hv. Nd.

Frv. felur það í sér, að fjölgað verði yfirfiskmatsmönnum, og er það eftir ákveðinni ósk framleiðenda, að þessari breyt. er hreyft. Nú er það að vísu svo, að með frv. er engan veginn gengið eins langt og óskir framleiðenda voru, og geri ég ráð fyrir, að óánægju kunni að verða vart út af því, að ekki hefur verið farið lengra í þessu máli eins og stendur. En forsaga málsins er sú, að núgildandi l. um fiskmat voru sett 1948, og var það einn þáttur í þeirri litlu viðleitni til sparnaðar, sem ráðuneyti Stefáns Jóh. Stefánssonar beitti sér fyrir, þótt reynslan sýndi, að fæst af því kæmist í framkvæmd, sem þá var fyrirhugað. Þá var svo ástatt í fiskmatsmálunum, að hér voru starfandi 3 matsstjórar: fiskmatsstjóri fyrir saltfisk með sérstaka skrifstofu og 5 yfirfiskmatsmenn sér til aðstoðar, freðfiskmatsstjóri með skrifstofu og 5 yfirfiskmatsmenn sér við hlið, og auk þess var sérstakur skreiðarmatsstjóri.

Á þessum tíma var framleiðsla á saltfiski miklu minni, heldur en hún er nú og framleiðslan á freðfiski líka stórum minni en nú er. Hér við bætist, að skreiðarverkun var svo til engin á þessum tíma og ekki séð þá, að hún hæfist að nokkru verulegu leyti. Það var þó aðallega af sparnaðarástæðum, að ég, sem fór með þessi mál sem sjútvmrh. í þann tíð, áleit, að of mikill kostnaður væri við þetta mat og því mætti fyrir koma á ódýrari hátt og þó á tryggilegan hátt með því að færa saman starfsemina eins og gert var með lagasetningunni frá 1948. Sparnaðurinn við þetta var þá eitthvað um 160 þús. kr. á ári fyrir ríkissjóðinn.

Ég held, að það hafi verið forsvaranleg ráðstöfun að gera það á þeim tíma, sem var. Hitt getur svo aftur komið til mála, að þau lög, eins og önnur lög, þurfi athugunar og breyt. við eftir breyttum aðstæðum. Það var mikill vandi að finna sérstaklega matsstjórann, því að þekking manna í þessum efnum, t.d. á verkun á saltfiski og þvílíku, hafði ekki aukizt á stríðsárunum, heldur þvert á móti. Stríðsárin voru búin að fara svo með þekkingu manna á saltfiski, að það mátti segja, að þar væri hvorki orðin til framleiðsluþekking né matsþekking nema hjá hinum eldri fiskmatsmönnum, sem höfðu fyrir stríð verið við slík störf. Nú sýndi það sig og, þegar saltfisksframleiðsla og saltfisksverkun færðist í aukana eftir stríðið, að við vorum ákaflega illa á vegi staddir, hvað snertir verkun á þessari vöru. Við hlutum af því talsvert mikil og þung áföll á erlendum markaði, fiskurinn þótti illa verkaður og sérstaklega illa metinn o.s.frv. Ég held, að orsökin hafi verið sú, eins og ég benti á áðan, að þekking manna á þessu sviði var svo til niður fallin. Að minnsta kosti hafði henni mjög hrörnað. Og stríðsárin og sú vinna, sem stunduð var á þeim, hvort sem heldur var við framleiðslustörf eða annað, að minnsta kosti í sjávarplássunum, voru sízt til þess fallin að kenna mönnum vandvirkni. Hroðvirkni jókst mjög á ýmsum sviðum á þessum árum og það sýndi sig og kom hart niður einmitt á fiskverkuninni og þá ekki hvað sízt saltfisksverkuninni.

Ég ætla, að nú sé talsvert góðum árangri náð hjá saltfisksframleiðendum og raunar hjá fiskmatinu líka í þessum efnum. Kvartanir yfir fiskinum eru orðnar tiltölulega litlar, í sumum tilfellum engar, og ber og við, að fiskinum er blátt áfram hrósað af kaupendunum, án þess að eftir því hafi verið leitað, eins og átti sér stað með síðustu farma, sem fóru til Spánar og voru verkaður fiskur. Samt sem áður er það svo, að fiskmatið hefur sætt ákaflega mikilli gagnrýni. Ég vil ekki segja, að sú gagnrýni hafi ekki átt rétt á sér í ýmsum tilfellum, en á mörgum sviðum hefur gagnrýnin verið ósanngjörn og of lítið jákvæð.

Vel má vera, að það eigi ekki eins vel við nú að hafa allt matið undir einni skrifstofu eða einni yfirumsjón eins og þegar þessi l. voru sett, sem nú er verið að breyta lítils háttar. Ég vil benda á, að ein framleiðslugrein á þessu sviði hefur síðan svo að segja hafið sig upp af jafnsléttu, a.m.k. færzt mjög í aukana, og það er skreiðarframleiðslan. Eins og stendur er markaður góður fyrir þá vöru og líkindi til, að hann haldist, og þess vegna búa sig margir undir það nú að gerast skreiðarframleiðendur, sem ekki hafa gert það áður, og hinir, sem voru byrjaðir á herzlu á fiski til útflutnings, virðast allir færast í aukana og viða að sér efni í trönur til að þurrka skreið á í stórum stíl. Stofnað hefur verið sérstakt skreiðarsamlag, og það fór fram á það við hæstv. sjútvmrh., að matið á skreiðinni yrði algerlega leyst frá öðru fiskmati og settur yrði sérstakur skreiðarmatsstjóri. Ráðuneytið hefur ekki nema að nokkru leyti orðið við þeim tilmælum, en að svo miklu leyti sem það er gert af ráðuneytisins hálfu, þá liggur það fyrir í því frv., sem hér um ræðir. Ráðuneytið hefur tekið þá stefnu í þessu máli að leggja til, að fjölgað yrði fiskmatsmönnunum í 8 úr 6, eins og nú er. En hin raunverulega hækkun er ekki alveg eins mikil, vegna þess að í lögunum frá 1948 var til heimild í þá átt, að einum yfirfiskmatsmanni mætti bæta við, ef nauðsyn krefði, þó að hann væri ekki sérstaklega upp talinn í lögunum. Og hin stórum aukna saltfisksverkun og önnur verkun, t.d. freðfisksverkun, olli því svo að segja þegar í stað, að þessa heimild laganna varð að nota, svo að í rauninni hafa verið starfandi 7 fiskmatsmenn undanfarið, og þó að þeim nú sé fjölgað í 8, þá er hin raunverulega aukning ekki nema einn yfirfiskmatsmaður. Honum er ætlað að hafa sérþekkingu á meðferð og verkun harðfisks, eins og skreiðin er oft nefnd í daglegu tali, og leiðbeina um skreiðarmat um land allt. Það er vissulega mikið varið í það að fá slíkan leiðbeinanda, en ég efast um, að spor hins háa rn. í þessu efni til umbóta sé nógu langt tekið. Hitt skal svo viðurkennt, að það er nokkur umbót, sem hér á sér stað, og rétt að fallast á það eins og við horfir.

Sjútvn. kynnti sér þetta mál og átti þess kost að heyra röksemdir fyrir því. Henni var ekki heldur ókunnugt nm hinar áköfu raddir, sem uppi eru um að gera umbætur á fiskmatinu frá því, sem nú er. En hún réðst ekki í það af sjálfu sér að gera breyt. á þessari till. hæstv. ríkisstj., vegna þess að það er hæstv. ríkisstj., eða sá ráðh., sem fer með þau mál, og það rn., sem verður að undirbúa slíkar breyt. og gangast fyrir þeim, og á síður við, að einstakar n. í þinginu gangi þar fram fyrir skjöldu, nema því aðeins að sýnt sé, að annað tveggja sé fyrir hendi, fullkomið andvaraleysi af hálfu þeirra, er með þessi mál fara, eða þá að till. úr þeirri átt stefni að dómi þm. eða þn. í öfuga átt við það, sem skyldi. Hvorugt tel ég að liggi fyrir. Maður getur ekki sagt, að það sé fullkomið andvaraleysi í þessum málum hjá rn., þó að það láti ekki þegar í stað undan þeim háværu kröfum, sem eru um það að gera breyt. á matinu, og það spor, sem stigið er með frv., er vissulega til fyrirgreiðslu og til nokkurrar úrlausnar í þessu máli, þó að ekki sé það full lausn. Hitt ber svo á að líta, að það mundi eðlilega auka tilkostnað ríkissjóðs mjög verulega, ef ætti að taka upp hið þrískipta gamla matsfyrirkomulag, eins og margir framleiðendur álíta þó að væri rétt.

Sjútvn. þessarar hv. d. féllst því á það eftir atvíkum að mæla með samþykkt þessa frv. án breyt., og er það gert í þeirri von, að sú breyt., sem frv. sjálft gerir á lögunum, geti orðið til nokkurrar hjálpar við framleiðsluna og þá einkum og sér í lagi við framleiðslu skreiðarinnar, þar sem hinum nýja yfirfiskmatsmanni er ætlað að vera þar til leiðbeiningar, ekki einasta á einum framleiðslustað, heldur þeim öllum, sem verða nú í framtíðinni bæði norðan- og sunnanlands og ef til vill líka á Austfjörðum. — Ég vil geta þess við þetta tækifæri, að n. var ekki algerlega fullskipuð, þegar afstaða var tekin til málsins, þar eð einn hv. nm., hv. 6. landsk. þm. (GÍG), sat ekki þann fund, er málið var afgreitt á.