16.12.1952
Neðri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

118. mál, hundahald

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þessu frv., sem hafði gengið í gegnum hv. Nd., hefur nú verið breytt allverulega í hv. Ed. Hins vegar eru þær breytingar flestar þannig, að landbn. sér ekki ástæðu til að gera þær að neinu þrætumáli. En varðandi skattinn, sem hér er um að ræða, þá þykir landbn. þessarar deildar hann vera fullhár og hefur því leyft sér að flytja brtt. á þskj. 475 um að færa hann aftur í svipað horf eins og gengið var frá í frv. hér, og vænti ég, að hv. deild geti á það fallizt. Þar að auki var mér bent á, að það hefur verið tekin upp aftur grein í þetta frv. í hv. Ed., sem hafði verið felld niður hér í þessari deild og lagt til, að yrði reglugerðarákvæði á hverjum stað. Það er um meðferð á sollnu slátri úr skepnum. Vill landbn. leggja til breytingu á einu orði, sem er ákaflega ljótt orð og er hér í þessari gr., en það er „sullamengað“. Leggur n. til í skrifl. brtt., sem ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir, að í staðinn fyrir „sullamengað“ komi: sollið.

Að öðru leyti skal ég ekki fyrir hönd n. fjölyrða um þetta mál.