07.11.1952
Neðri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

127. mál, menntaskóli

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta mál er búið að ganga aftur þrisvar sinnum, og því ætlar að verða erfitt um að deyja endanlega. Það er alltaf vakið upp á hverju þingi, og það lítur út fyrir, að það sé ætlunin að gera það framvegis, þó að sýnilegt sé, að það sé móti, — ja, sennilega þingvilja, að þessi breyting sé gerð varanlega á skólakerfinu. Það hefur á undanförnum árum marizt í gegnum þingið, þó aðeins með því, að það væru gefnar yfirlýsingar um það, að þetta væri ekki breyting á skólakerfinu, heldur eingöngu bráðabirgðabreyting. Þegar málið var flutt í fyrsta skipti fyrir þremur árum, var því lýst yfir, að þetta væri einungis breyting, sem ekki yrði beðið um aftur af flutningsmönnum, og þetta stafaði eingöngu af því, að það vekti fyrir flm. að nota húsrými í Menntaskólanum á Akureyri. Síðan hefur það verið framlengt tvisvar, alltaf til nefndra bráðabirgða, og seinast þegar þetta marðist gegnum Ed. og við skildumst við málið á síðasta þingi, þá lýsti hæstv. menntmrh., Björn Ólafsson, yfir því, að þetta yrði ekki framkvæmt nema þannig, að þær deildir, sem þá væru komnar inn í miðskólann við menntaskólann á Akureyri, fengju að halda áfram námi upp úr, en það yrðu ekki teknir nýir nemendur. Við þetta mun nú hafa verið staðið, svo að ef þetta frv. yrði samþ., þá yrði þarna eyða á milli, af því að nú er horfið enn frá því að standa við þessa yfirlýsingu hæstv. menntmrh.

Það fyrsta, sem er að þessu sinni furðulegt við búning þessa frv. og hefur alltaf verið, er það, að það er lagt til, að það komi sú breyting á l. um menntaskóla, að fræðslumálastjórnin geti heimilað, ef ástæða sé til, að halda uppi miðskóladeild við menntaskóla. Nú er skólakerfið þannig up~ byggt, að það eru í fyrsta lagi l. um fræðsluskyldu, annars staðar eru svo l. um gagnfræðanámið, í þriðja lagi l. um menntaskóla og miðskóladeildirnar, þær eru hluti af gagnfræðastiginu. Ef það væri nokkur heil brú í formi frv., þá hefði þetta átt að vera breyting á l. um gagnfræðaskóla í landinu, en ekki á l. um menntaskóla. Það á að fara að setja ákvæði um viss atriði í gagnfræðanáminn inn í l. um menntaskóla, og þarna hafa hv. flm., þó að þeir séu 6 eða 7 talsins, farið alveg húsavillt og gert brtt. við vitlaus l. og eru að gera það núna í annað eða þriðja sinn, og er alveg furðulegt. Þetta hefur þeim þó verið bent á áður af ekki ómerkari aðilum en mþn. í skólamálum, sem samdi menntamálalöggjöfina, af tveimum menntmrh. og af þm. undir umræðum málsins í þrjú skipti. En aldrei geta þeir lært þetta, að þeir eiga að gera brtt. við l. um gagnfræðaskóla, en ekki við l. um menntaskóla, þegar þeir eru að fjalla um atriði um miðskólakennsluna. Þetta er nú út af fyrir sig. Það má vel vera, að hv. fim. að þessu sinni fáist til þess að breyta frv. á þann veg undir meðförum þess, ef það fer mjög langt gegnum þingið, þannig að þegar þeir vilja fá breytta lagasetningu um miðskólanám, þá láti þeir það vera breytingu á þeim l., sem fjalla um miðskólanám, en það eru l. um gagnfræðaskóla, en ekki um menntaskóla.

Þegar mþn. í skólamálum lagði til, að gagnfræðadeildir yrðu lagðar niður við menntaskólana í landinu, þ.e.a.s. menntaskólann í Reykjavík og menntaskólann á Akureyri, þá vakti það fyrir mþn. að skapa aukið jafnrétti fyrir æskulýð landsins, hvar sem hann væri búsettur, með því að menntaskólarnir yrðu beinlínis fjögurra ára skólar og engin gagnfræðadeild við þá starfandi, vegna þess að það var orðin margföld reynsla, að þegar gagnfræðadeildir voru við báða menntaskólana, þá fylltust skólarnir af nemendum neðan frá. Gagnfræðadeildirnar voru fullskipaðar nemendum, fyrst og fremst menntaskólinn í Reykjavík af ungu fólki úr Reykjavík, og menntaskólinn á Akureyri fullskipaði gagnfræðadeildina af nemendum úr Akureyrarkaupstað og nágrenninu þar. Þegar nemendur vestan af landi eða austan af landi eða af fjarlægari byggðum við þessa skólastaði sóttu svo um skólavist, þá var sagt: Ja, það er vafasamt, að það geti gengið, lærdómsdeildir skólanna fyllast af nemendunum úr gagnfræðadeildunum okkar. Og það er því aðeins hægt að fullnægja þessum umsóknum, að það verði eitthvað autt pláss, að það hætti einhverjir við námið úr gagnfræðadeildunum. Og það tókst stundum að koma nemendum inn náttúrlega, en sumum var líka synjað, af því að það var ekki pláss, skólarnir voru fylltir neðan frá af fólkinu úr viðkomandi bæjum og næsta nágrenni við skólana.

Mþn. segir: Ráðið við þessu er það, að menntaskólarnir séu skólar út af fyrir sig, séu ekki með undirbúningsskóla, sem leggur þeim til nemendafjölda upp úr, og loki þannig leiðinni fyrir öðrum. — Þá er gerð sú breyting á löggjöfinni jafnframt, að stofnaðir skuli miðskólar um allt land og lokaprófið úr miðskólunum skuli vera fullgilt inntökupróf jafnframt í 1. bekk menntaskólanna. Þar með gat ungur sveinn eða stúlka úr hvaða héraði landsins, þar sem aðgangur var að miðskóla, lokið undirbúningsnáminu heima í sínu héraði og gengið undir landspróf, sem er eins alls staðar um landið og veitir fullan rétt til náms í menntaskóla. Þar með sátu allir við sama rétt og sömu aðstöðu um inngöngu í menntaskólana. Þar voru engir nemendur fyrir, sem tóku upp sætin og útilokuðu eins og áður var, og það er öllum auðsýnilegt, að þetta var til stórkostlega aukins jafnréttis, sem nú sýnist vera ein af höfuðhugsjónum flm. þessa frv. ár eftir ár að gera að engu aftur. Skil ég ekkert, hvað fyrir þeim vakir um það að koma fram með hégómaástæðu eins og þá, að það sé gott, að nemendur séu 6–7 ár í sama skólanum, og sé eitthvert sáluhjálparatriði; það held ég að engum uppeldisfræðingi takist nokkurn tíma að leiða nokkur rök að. Það er miklu fleira, sem mælir gegn því að hafa nemendur á svo ólíku þroskastigi í sama skóla, eins og gerist þegar nemendur koma 12 ára inn í skóla og eru þar fram undir tvítugt. Þeir eiga enga samleið, 12 og 13 ára piltarnir og stúlkurnar, í félagslífinu með hinum fullorðnu mönnum, og hygg ég þó, að þeir eigi að notfæra sér sama rétt og bera sömu skyldur í skólanum eins og þeir. Það hentar annað 12 og 13 ára unglingum í ýmsum þáttum í skemmtanalífi og félagslífi heldur en hinum 20 ára gamla námssveini. Leiðir af því margs konar erfiðleika fyrir stjórnendur skóla að hafa fólk á svo ólíku þroskastigi undir sömu stjórn og þátttakandi í skólalífi hlið við hlið. Ég hygg, að það sé miklu betra að hafa fólk í þrjú eða fjögur ár saman, eins og nú gerist samkvæmt hinni nýju skólalöggjöf, í miðskólunum og gangfræðaskólunum og svo aftur unglingana frá 16 ára til tvítugs í menntaskólunum út af fyrir sig. Þá er hvor tveggja hópurinn þannig settur, að hann á miklu betur samleið, sá yngsti og sá elzti í viðkomandi skóla, en með því að hafa unglinga saman frá 12 ára og upp að tvítugu. Sem skólamaður þori ég að fullyrða, að það væri líka spor aftur á bak að taka upp hið eldra fyrirkomulag að því er þetta snertir, að ætla unglingum frá 12 ára og upp til tvítugs að eiga samleið í sama skóla.

Þegar verið er að segja manni það, að í þessu frv. felist því ekki breyting á gildandi fræðslulöggjöf, þá er það auðvitað sagt annaðhvort af ókunnugleika ellegar visvitandi til þess að blekkja. Þetta er vitanlega gagnger breyting á núverandi fræðslulöggjöf og er það alveg jafnt fyrir það, þó að hún sé gerð á þann afkáralega hátt að setja ákvæðin um framkvæmd kennslu á miðskólastiginu inn í menntaskólalögin. Það er algerlega í framkvæmdinni jafnþýðingarmikil og gagnger breyting á fræðslulöggjöfinni, þó að forminu sé hagað á þennan hátt.

Þá sagði hv. frsm., að ef þessi breyting fengist ekki fram, þá yrði ekki nægilegt verkefni fyrir menntaskólann á Akureyri. Hvílík fásinna! Norðlendingar rökstuddu það mjög vel á sínum tíma, að þeir hefðu mikið verkefni fyrir menntaskóla Norðurlands, og það verkefni hefur síður en svo minnkað; það hefur aukizt og vaxið. Menntaskólinn á Akureyri er nú skóli með hátt á annað hundrað nemendum í lærdómsdeildunum, eða kannske um tvö hundruð. Það er alveg nægilega stór unglingaskóli. Það er alls ekki keppandi að því að gera Menntaskólann á Akureyri eða neinn skóla að skólabákni með 300-400 nemendum. Við það verður hver skóli verri skóli. Það verður miklu sterkari, nánari og persónulegri uppeldismótun, sem á sér stað í skóla, sem ekki er með yfir 200 nemendum. Munu flestir skólamenn vera sammála um það, hvar sem er í heiminum, að það sé æskilegt, að skólastofnanir séu ekki stærri stofnanir en það. Þegar menntaskólinn í Reykjavík er kominn með 400–500 nemendur, þá fullyrði ég það að, að óbreyttu kennaraliði, að óbreyttri stjórn skólans, er hann orðinn verri skóli en hann mundi vera, ef hann væri með ekki yfir 200–300 nemendum. Og það væri því sízt af öllu ávinningur í því að fara að reyna að búa til svipað skólabákn úr Menntaskólanum á Akureyri með því að tengja við hann 200–300 nemenda gagnfræðadeild.

Það er líka óþarfi að ræða um þetta mál. Undirtektirnar hafa sýnt það, að málið á ekki rétt á sér. Þegar málið var flutt fyrst, þá hygg ég, að þáverandi menntmrh. hafi beitt sér á móti málinu. Síðan kom Björn Ólafsson í sæti menntmrh. Hann snerist einnig á móti málinu. Og hann tók það skýrt fram, þegar hann lét þó til leiðast að beita sér ekki gegn því í því bráðabirgðaformi, sem það var afgr. seinast, að hann væri jafnandvígur málinu eftir sem áður, en vildi þó lofa því að fara í gegn þannig, en með því skilyrði, að nýir nemendur yrðu ekki teknir framvegis í skólann og aðeins þeim, sem þá voru komnir inn í skólann, leyft að ljúka þar miðskólanáminu. Hafa nokkrir fleiri verið á móti þessari breytingu, en tveir menntmrh. í röð? Jú, fræðslumálastjóri hefur frá öndverðu verið algerlega á móti málinu og hefur lagt höfuðkapp á, að það yrði ekki látið ná fram að ganga, ekki einu sinni sem bráðabirgðabreyting. Hafa fleiri andmælt, sem hafa verið dómbærir um skólamál? Jú, mþn. í skólamálum hefur verið spurð í hvert skipti, og í hvert skipti hefur hún beitt sér af alefli á móti málinu. Frá öllum þessum aðilum hafa komið ýtarlegar grg. gegn málinu, en ekkert hefur hrokkið fyrir samtökum um það að reyna að knýja það fram í einhverri mynd. Flutningsmannahópurinn að þessu máli hefur borið svip af undirskriftasmölun í þinginu, sem er eiginlega algerlega óþingleg aðferð við flutning mála. Sjái maður 6 eða 7 flm. að einhverju máli, þá sjá menn og skilja, að menn eru að rotta sig saman um eitthvert mál, sem þeir vita að hefur ekki lífsgildi út af fyrir sig. Og þessi sönnun er prentuð ár eftir ár efst á blaði á þessu frv. Þeir vita það þess vegna ósköp vel, þessir menn, að þeir koma málinu ekki fram með því að spyrða saman tvo og tvo menn bara úr einum flokki. Það verður að ná í spyrðuband úr hverjum flokki þingsins, til þess að þeir hafi nokkra möguleika til þess að koma því í gegn, og er þó hæpið, að þeim takist það. Ég er sjálfur úr skólanum á Akureyri, gekk þar að námi í þrjú ár og þykir ekki vænna um neinn annan skóla á Íslandi heldur en Akureyrarskólann. Ég hefði aldrei látið mér detta í hug að beita mér á móti þessari breytingu, sem þarna er verið að þrástagast á, af annarri ástæðu en þeirri, að ég veit, að skólanum sjálfum sem uppeldisstofnun verður spillt með þessari breytingu, að það er gengið á jafnréttið, sem átti að tryggja og var tryggt með skólalöggjöfinni frá 1946, og þessu jafnrétti er spillt með þessu frv. Það er enn fremur verið að spilla Menntaskólanum í Reykjavík með þessu. Hann var í yfirfylltum húsakynnum, hann er í yfirfylltum húsakynnum, hann er svo yfirfylltur núna, að hann sennilega stæðist alls ekki neitt heilbrigðiseftirlit. Samt á að vera að rogast með að skapa honum heimildir til að hafa líka miðskóladeild, og þar að auki er hann orðinn allt of stórt skólabákn, þegar í viðbót við fjögurra ára menntaskóla þar er komin þriggja ára miðskóladeild neðan við, eða þó að ekki væri nema tveggja. Hann er þá orðinn 500–600 nemenda skóli í einu vetfangi, og það er allt of stór ungmennaskóli. Það er svo stór skóli, að í Reykjavíkurborg fer stjórn slíks skóla meira og minna úr böndunum og verður allt annað, en uppeldisstofnun á ýmsum sviðum. Það er einhvers konar blind keppni um það, að hægt sé að státa af hárri hausatölu í Menntaskólanum á Akureyri, sem knýr þetta frv. fram, og það er algerlega ósæmilegt að láta það vera grundvöllinn undir frv., sem á þó að heita frv. um skólamál.