20.01.1953
Efri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

177. mál, Greiðslubandalag Evrópu

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjhn. mælir með því, að frv. þetta verði samþ., svo sem fram kemur í áliti n. á þskj. 542. Einn nm., hv. 1. landsk., tók þó enga afstöðu til málsins.

Greiðslubandalag Evrópu var stofnað í september 1950, og í því eru átján ríki. Greiðslubandalagið annast m.a. yfirfærslur meðal aðildarríkjanna þannig, að þegar t.d. Ísland selur saltfisk sinn á Ítalíu, getur það lagt andvirði hans í lírum inn á reikning sinn hjá bandalaginu, en tekið út vörur t.d. í Frakklandi og fengið þær greiddar af innistæðum í reikningnum eftir reglum, sem þar um gilda. Þetta léttir mjög vöruskiptaverzlunina og setur hana á breiðara svið. Enn fremur hafa aðildarríki bandalagsins rétt til yfirdráttarlána úr þessum hlaupareikningi sínum hjá bandalaginu að vissu marki og eftir vissum reglum hvert, en þó þurfa ráðuneyti landanna hvers um sig löggjafarheimildir til þess að nota þennan rétt til yfirdráttarlána. Alþ. veitti 1951 ríkisstjórn Íslands heimild til allt að fjögurra millj. dollara yfirdráttarheimildar hjá Greiðslubandalaginu viðvarandi um tveggja ára skeið. Nú gerir frv., sem hér liggur fyrir, ráð fyrir framlengingu eða endurnýjun slíkrar heimildar jafnhárrar til yfirdráttar um annað tveggja ára tímabil, eða til júliloka 1954, því að þá endar fjárhagsár bandalagsins 1953–54.

Í frv. er svo fyrir mælt, að um leið og yfirdráttarlánið sé tekið hjá bandalaginu, skuli jafnvirði þess í íslenzkum krónum lagt inn á sérstakan reikning í Landsbanka Íslands og því varið, þegar gjaldeyrisástæður leyfa, til greiðslu á yfirdráttarláninu og til einskis annars. Þessari reglu hefur verið stranglega fylgt að undanförnu, og hún er þess vegna ekkert nýmæli. Þegar frv. var samið, var skuldin á reikningnum við Greiðslubandalagið, eins og grg. frv. ber með sér, 1,886 millj. dollara. Fyrir síðustu helgi var hún komin ofan í eina og hálfa millj. dollara. Þannig hreyfist hún eftir viðskipta- og gjaldeyrisástæðum, en innan hinnar heimiluðu fjárhæðar, fjögurra milljóna. Auðskilið er, að þessi yfirdráttarlán eru Íslandi mikil fyrirgreiðsla, af því að útflutningur landsins er ójafn og getur oft og einatt ekki fallið til samhliða innflutningsþörfinni. Þess vegna tel ég einboðið fyrir Alþ. að veita heimildina og samþykkja frv., svo sem og n. leggur til.