23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hef áður rætt þetta mál nokkuð og sé því ekki ástæðu til að flytja um það langt mál nú, en vegna þeirra brtt., sem fram hafa komið síðan það var síðast til umr. hér í hv. d., þá vil ég þó segja nokkur orð.

Hv. þm. V-Húnv. mælti hér fyrir till., sem hann og hv. 2. þm. Skagf. flytja á þskj. 570, þar sem um er að ræða mjög mikla og má segja í grundvallaratriðum meginbreytingu á því frv., sem fyrir liggur, eins og það hefur komið frá Ed., og byggði hann röksemdir þeirra fyrir þessum breytingum á því, að í frv. væri gert ráð fyrir of auðveldum aðferðum til þess að breyta skipulagsskrám sjóða og þess vegna þyrfti að setja frekari hömlur en þar væri gert á þær breytingar og þó sérstaklega hvað snertir það, að auðið væri að selja jarðir sjóðanna. Með hliðsjón af þeim rökum, sem liggja til grundvallar því frv., sem upphaflega var flutt í hv. Ed., er það að segja, að brtt. þeirra hv. þm. V-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf. útiloka að minnsta kosti að miklu leyti möguleikana til að ná þeim tilgangi, sem gert var ráð fyrir með flutningi frv. í Ed. Og þar sem ég var samþykkur því frv., eins og það kom frá hv. Ed., þá vildi ég taka það fram hér, að ég er andvígur þeim brtt., sem fluttar hafa verið á þskj. 570.

Brtt. eru rökstuddar með því, að í frv. séu of litlar hömlur settar varðandi breytingu á stofnskrám sjóða. Ég vil taka undir það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði hér, að ég sé ekki betur en nægilega tryggilega sé þar frá því gengið, að ekki verði hrapað að breytingu á stofnskrám sjóða án þess, að full nauðsyn sé fyrir hendi, og þar er beinlínis tekið fram, að skipulagsskrá megi alls ekki breyta, nema knýjandi nauðsyn sé til breytinganna vegna breyttra aðstæðna og viðhorfa, og þá er að sjálfsögðu gengið út frá því, að fyrir þurfi að liggja glögg og ótvíræð rök fyrir því, að skipulagsskráin miði í þá átt, að frekar sé náð þeim tilgangi, sem upphaflega var til stofnað, eða þá að hagkvæmari ráðstafanir verði gerðar og skynsamlegar með ráðstöfun eignanna, vegna þess að niður séu fallnar að verulegu leyti þær röksemdir og forsendur, sem lágu fyrir ákvörðuninni um ráðstöfun eignanna í upphafi. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda, að ástæða sé til að tortryggja, að þeir menn, sem hafa með höndum stjórn þessara sjóða og eiga að sjá um, að gjafabréfum þeirra sé hlýtt, muni gæta þess svo sem verða má, að tilgangi gefendanna verði náð sem bezt eða ef sá tilgangur er ekki lengur til staðar, þá verði farið um ráðstöfun eignanna sem næst því, sem ætla má að til mála hefði komið, ef á sínum tíma hefði verið vitað um, hvernig aðstæður mundu breytast. Og það er ekki aðeins, að það eru stjórnendur sjóðanna, sem hér þurfa að meta þetta mál, heldur er svo fyrir mælt, að eftirlitsmenn opinberra sjóða verði þar að auki að hafa mælt með þessari breytingu, til þess að hún nái að taka gildi.

Ég sé ekki betur en að á þennan hátt sé fullkomlega nægilega vel frá því gengið, að gætt verði allra þeirra atvíka, sem taka þarf tillit til hverju sinni varðandi breytingar á stofnskrám sjóðanna, þannig að ekki verði að breytingu hrapað, nema ótvíræð rök séu þar fyrir hendi. Fljótt á litið kynni að mega segja sem svo, að það ætti ekki að saka, þótt brtt. á þskj. 570 yrðu samþ., og hv. frsm., þm. V-Húnv., skýrði hér frá því, að það væri einmitt höfuðtilgangurinn með þeim breytingum að reyna að fara þarna bil beggja og án þess að skapaðar yrðu of auðveldar leiðir til breytinga, þá væri þó tryggt, að það kæmi ekki til vandræða vegna þess, að ekki mætti breyta stofnskrám sjóðanna. En þetta er þó ekki nema að nokkru leyti rétt, og þótt þessi breyting yrði að lögum, þá útilokar hún ekki nema að nokkru leyti þau vandkvæði, sem hér er við að fást, auk þess sem þess er að gæta, sem að hefur veríð víkið, að breyt. sem þessi mundi mjög torvelda möguleikana á því, að frv. þetta næði fram að ganga á þessu þingi, sem ég tel mjög mikla nauðsyn til að verði.

Það er gert ráð fyrir því í brtt. þessum á þskj. 570, að heimilt sé að selja jarðir, ef ekki er hægt að byggja þær. Nú er því þar til að svara, að þar sem mér er kunnugt um, þá hagar svo til, að þetta mundi ekki gefa fullnægjandi tryggingu. Það má að vísu segja, að það mundi að nokkru leyti tryggja sjóðinn sem slíkan, en ég álit, að það beri einnig að líta á fleiri sjónarmið, sjónarmið, sem ég tel jafnvel nokkurn veginn víst að stofnendur sjóða hefðu haft í huga og viljað taka tillit til, hefðu þeir mátt ráða, og það er um það, hvort þetta leiði til þess, að ábúandi jarðar verður að hrökklast af jörð, hún kynni að vísu að lenda í ábúð einhvers og einhvers, það kynni eins vel að vera einhver kaupstaðarmaður, sem keypti þá jörð, án þess að hugsa sér að búa á henni, og það væri að minnsta kosti á engan hátt tryggilega frá því gengið og jafnvel útilokað, að viðkomandi ábúandi gæti áfram búið á jörðinni. Ég skal taka til alveg ákveðið dæmi í því sambandi. Þannig er ástatt með eina slíka þjóðjörð, sem er eign legats Jóns Sigurðssonar, að ábúandi hennar hefur byggt upp á jörðinni og hefur lagt í mikinn tilkostnað. Honum hefur að vísu verið veitt veðleyfi, sem að vísu má segja að sé hæpið, að heimilt sé að veita, og hann hefur tekið lán út á jörðina, en mjög óhagstæð lán, sem hann hefur fengið. Nú standa sakir þannig, að hann telur sér ekki fært að standa undir þessum lánum og leggja á sig það erfiði, sem því fylgir, nema því aðeins að hann geti þá fengið jörðina keypta og fullan ráðstöfunarrétt yfir henni að því leyti sem eigandi. En verði svo ekki, þá standa sakir þannig, að það er ekki um annað að ræða en að jörð þessi verði seld nauðungarsölu. Þá er auðvitað mjög undir hælinn lagt, að þessi ábúandi jarðarinnar geti fengið hana keypta, vegna þess að á nauðungaruppboði kynni að mega segja, að tryggðist fullt verð fyrir jörðina, en það yrðu miklum mun óhagstæðari greiðsluskilmálar, en auðið kynni að vera að veita ábúandanum, ef selja mætti jörðina á venjulegan hátt, jafnvel þótt hagsmuna sjóðsins væri fyllilega gætt í því sambandi. Ég nefni nú þetta aðeins sem dæmi, að þarna er um að ræða jörð, sem búið er að byggja upp á, þannig að það leysir ekki þann vanda, sem um er að ræða í brtt. á þskj. 570, að losaðar séu kvaðir af sjóðunum að byggja upp. Og það gefur að sjálfsögðu að skilja, að ef menn hafa lagt í miklar framkvæmdir á jörðum, sem þeir eiga ekki og alger óvissa er um þeirra umráðarétt yfir eða hvort þeir nokkurn tíma fá að eignast, þá geta oft skapazt mikil vandkvæði í þessu sambandi. Það má ef til vill segja sem svo, að það eigi ekki að taka tillit til hagsmuna ábúenda jarðanna, það eigi fyrst og fremst að líta á hagsmuni sjóðanna, og það má til sanns vegar færa. En ég held nú samt, að þegar er hægt að sameina það tvennt að taka tillit til hagsmuna ábúenda og hagsmuna sjóðanna, þá sé sjálfsagt að gera það, og það er hægt í þessu sambandi, því að ef ekki tekst t.d. í sambandi við þetta mál, sem ég gat um, að leysa þann vanda, sem þar er við að stríða, þá verður jörðin seld á nauðungaruppboði, hvaða ráðstafanir sem annars verða gerðar í því sambandi, ekki sízt vegna þess, að sjóður sá, sem um er að ræða, hefur ekki yfir neinu fé að ráða til þess að leysa jörðina úr þeim böndum, sem á henni hvíla.

Í sambandi við þetta mál almennt er enn fremur það að segja, — ég tek undir það, að það á ekki að breyta stofnskrám sjóða, nema fullkomin nauðsyn sé fyrir hendi, — að því er ekki að leyna, að aðstæður hafa svo stórlega breytzt í okkar þjóðfélagi á mörgum sviðum, að það getur verið komið allt annað ástand en var, þegar sjóðirnir voru stofnaðir og ákveðið var um, hvernig arði af jörðum skyldi ráðstafa, og tilgangurinn, sem hugsað var að ná með gjafabréfinu, er ekki lengur fyrir hendi. Og þegar svo er ástatt, er að sjálfsögðu engin skynsemi í öðru en að breyta til og reyna að ná einhverju skynsamlegu markmiði, sem má telja að sé þó nánast því, sem ætla mætti að gefendur hefðu hugsað sér, ef þeir hefðu mátt um það segja, þótt það verði náttúrlega aldrei nema getgátur. En þá er það að sjálfsögðu ekki nema eðlileg og skynsamleg ráðstöfun að breyta til, þegar svo háttar málum. Og svo sem ég áðan gat um, þá tel ég ekki vera ástæðu til að álíta, að þá aðila, sem veitt hefur verið forráð sjóðanna, þurfi að tortryggja um það, að þeir muni gáleysislega fara með það vald, sem þeim kynni að verða veitt eða þeir kynnu að fá í hendur, ef frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir, enda, eins og ég gat um áðan, eru þar enn frekari skilyrði sett, að það má ekki staðfesta þá breytingu, nema fyrir liggi fullkomin rök um það, að hennar sé nauðsyn, að hún sé eðlileg og enn fremur að trúnaðarmenn ríkisins, sem til þess eru settir að fylgjast með opinberum sjóðum, hafi léð samþykki sitt til þess.

Með hliðsjón af því, sem ég hef sagt, vil ég því ítreka það, að ég mæli mjög eindregið á móti brtt. þeirri, sem fyrir liggur á þskj. 570, og þá eigi síður þeim brtt., sem fyrir liggja á þskj. 561 frá hv. 2. þm. Reykv., því að þar er ekki um annað að ræða en það, að það skuli safna vissum upplýsingum og síðan á grundvelli þeirra upplýsinga leggja frv. fyrir Alþingi, ef ástæða þykir til, og það hefur nánast sagt litla þörf, virðist manni, að vera að samþ. sérstök lög um það, að það skuli undirbúa frv. til þess að leggja fyrir Alþingi. Það er þó nokkuð öðru máli að gegna um brtt. á þskj. 570, því að þar er gert ráð fyrir efnislegri breytingu í málinu. Varðandi brtt. þá, sem um er að ræða á þskj. 550, frá hv. 2. þm. Skagf., þá tek ég undir það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði hér, að ég gæti nánast fallizt á þá till., ef þingið að öðru leyti teldi sér fært að samþ. bana, um það, að nokkur trygging væri sett fyrir því, að sjóðirnir héldu sínu fulla gildi og rýrnuðu ekki að verði frá því, sem nú er, enda þótt jarðeignirnar yrðu seldar og fé þeirra ávaxtað í peningum. En ég vil að síðustu leggja á það áherzlu, að ég tel mjög æskilegt og nauðsynlegt, að frv. nái fram að ganga í því formi, sem það hefur komið í frá hv. Ed.