02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

203. mál, klakstöðvar

Pétur Ottesen:

Eins og hv. frsm. landbn. gat um, þá er aðalbreyting þessa frv. frá núgildandi l. fólgin í því, að ríkisstj. er heimilað að reisa klakstöðvar í samvinnu við aðra aðila, og er ég hv. frsm. og landbn. alveg sammála um, að þessi breyting er til bóta og á að geta verið nokkurt öryggi fyrir því, að ráðizt verði í framkvæmdir í þessu efni, þannig að betur verði á málum haldið, en reynslan sýndi að var hér fyrir allnokkru, þegar ríkið hófst handa um þessar framkvæmdir.

En ég vil í sambandi við þetta frv. benda á það, að á s.l. ári hófst maður, Skúli Pálsson að nafni, handa um það hér uppi í Mosfellssveit að setja á stofn silungauppeldi, svo kallað regnbogasilungsuppeldi, í tjörnum, sem hann hefur komið upp þar. Þetta er gert að fyrirmynd nágrannaþjóða okkar, sem reka þetta í allstórum stíl, og hefur tekizt að ala þar upp með hagkvæmum hætti silung, þannig að stór verðmæti hafa orðið úr og ekki einasta til heimanotkunar, heldur hefur sumum tekizt að gera þetta að mjög verðmætri og eftirsóttri útflutningsvöru. Hér er þess vegna vissulega farið af stað með einn þátt þessara okkar mála, sem ætti að geta haft mikla þýðingu fyrir Íslendinga í framtíðinni. Jafnframt þessari starfsemi hefur þessi sami maður, Skúli Pálsson, komið upp hjá sér klakstöðvum, og hyggst hann reka þetta að því leyti til með öðrum hætti en gert hefur verið hjá okkur að undanförnu að ala seiðin nokkru lengur, en venja hefur verið til. En við það að geta alið seiðin lengur og gert þau þroskameiri, áður en þeim er sleppt í árnar, þá hafa þau meiri mótstöðukraft til þess að sigra þær hættur, sem eru í byrjun á leið þeirra í ám og lækjum. Notar hann í þessu efni heitt vatn, sem flýtir mjög fyrir þroska silungsins á hæfilegu stigi, og hefur þannig tök á því að gera þetta með hagkvæmum hætti.

Ég vildi nota þetta tækifæri hér til að benda á það, að heppilegt mundi vera, að ríkisstj. gerði einmitt samning við þennan mann um klakstarfsemina og einmitt á þeim grundvelli, sem heimilað er í 1. gr. þessa frv. Ég geri ráð fyrir því, að af því gæti gott leitt fyrir okkur og að það gæti orðið sterkur liður í því, sem nauðsynlegt er, að leggja stund á fiskiklak í vötnum hér á landi og halda þar með betur við og auka silunga- og laxastofninn í landinu. Það er ekki vafamál, að laxveiði- og silungsveiðiárnar hér á Íslandi eru þegar orðnar okkur allmjög verðmætar, og það verðmæti á að geta aukizt í verulegum mæli, ef skynsamlega er þar á haldið, og einn þátturinn er vitanlega í því fólginn að taka föstum tökum á silunga- og laxaklakinu.

Ég vildi þess vegna mega vænta þess, að þegar frv. þetta er orðið að l., sem það nú verður bráðlega, áður en þessu þingi lýkur, þá vildi ríkisstj. eða sá ráðh., sem fer með þessi mál, athuga þann möguleika, sem þarna er fyrir hendi, að hafið yrði samstarf við Skúla Pálsson á grundvelli þess klakstöðvarstarfs, sem hann hefur þegar komið á fót.