03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

201. mál, erfðaleiga af hluta af prestssetursjörðum

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfá orð út af síðustu ræðu hv. frsm. og sérstaklega því atriði, sem rétt er, að það er ekki hægt að stofna nýbýli neins staðar nema með samþykki nýbýlastjórnar. En það er bara sú hlið þess máls, sem snýr að nýbýlastjórn. Hún á að skera úr um það, hvort það sé nægilegt land, sem viðkomandi maður hefur. Ef það er búið af öðrum að ákveða að taka einhvern part af prestssetursjörð út úr og það er nægilegt land til þess að stofna á því nýbýli, þá mundi náttúrlega hvaða nýbýlastjórn sem væri samþ. það. En þar með er ekki sagt, að það sé leitað álits hennar um það og hún hafi neitt vald til að ákveða um það, hvort það sé heppilegt vegna framtíðarinnar að skipta þeirri prestssetursjörð, sem um er að ræða. Það eru tveir ólíkir hlutir. — Og varðandi það, að það sé einhver sérstök þörf á því að samþ. þetta frv. hér nú, þá held ég, að það sé alls ekki neitt, sem gerir það að verkum, að það sé endilega nauðsynlegt að ákveða um heimild til skipta á prestssetursjörðum á þessu þingi.