04.02.1953
Efri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég sé enga ástæðu til þess að svara hv. 4. landsk. þm., sem talaði hér áðan. — Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, vil ég aðeins benda á það, að í framsöguræðu þeirri, sem ég flutti fyrir fjárlagafrv., þá lýsti ég því yfir f.h. ríkisstj., að þær lántökur, sem stjórnin yrði að láta sitja fyrir öllu öðru, væru nákvæmlega þessar sömu sem ég lýsti yfir hér áðan, þannig að hv. þm. hefur verið þetta ljóst allan þingtímann, auk þess sem þetta hefur verið margendurtekið í sambandi við umr. um önnur mál. Stjórnin er sem sé sammála um það, að fyrir öllu öðru verði að sitja að útvega fé til þess að ljúka virkjununum og áburðarverksmiðjunni og að útvega smáíbúðalánið, sem samþykkt hefur verið, og lánið til Búnaðarbankans og til sementsverksmiðjunnar. Þessu var lýst yfir af hendi stjórnarinnar í sambandi við framsögu fjárlaganna þegar í byrjun þingsins. Um aðrar lántökur, eins og ég sagði áðan, þá er óákveðið af þessari ríkisstj. um framkvæmdaröð þeirra. Það hafa ekki verið teknar aðrar ákvarðanir af ríkisstj. heldur en þessar varðandi lántökur. Það er sem sagt mál, sem stjórnin á eftir að gera upp við sig. Það eina, sem fyrir liggur, er það, að ég endurtek hér það, sem yfir var lýst í byrjun þingsins.