31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég saknaði þess mjög, að hv. þm. N-M. skyldi ekki gera grein fyrir þeim atriðum ræðu sinnar, sem ég sýndi fram á um daginn að voru ærið hæpin. En hann hefur af einhverjum ástæðum talið, að þögnin geymdi sinn málstað bezt, og er hans að dæma um það, en ekki okkar hinna. En það er svar fyrir sig að fá það frá svo málskrafsmiklum manni eins og honum, að hann hefur gefið upp alla vörn fyrir sínum hæpna málstað.

Út af þeirri till., sem hér er fram komin, vil ég vekja athygli á því, sem ég benti á um daginn, að með frv. er í raun og veru eingöngu um að ræða skattlagningu á nokkurn hluta landsmanna til handa öðrum, skattlagningu með ákaflega óeðlilegum hætti. Það er ætlazt til, að komið sé upp nýju skrifstofubákni til þess að jafna þessum álögum niður, og auk þess sem ég tel, að frv. allt horfi í ranga átt og sé til hins lakara, verði til þess að gera kostnað meiri við þessi mál heldur en verið hefur og þarf að vera, þá sýnist mér, að það sé eðlilegra og í alla staði heppilegra að nota þá aðferð til skattlagningar, sem við þegar þekkjum og vitum, hvernig reynist, og þegar eru til skrifstofumenn til að annast, sem sé þá venjulegu skattheimtu ríkissjóðs. Ef illt á að ske, þá sýnist mér sem sagt miklu betra, að ríkið taki að sér að borga þessar greiðslur, sem til jöfnunarinnar þarf, úr sínum sjóði, og síðan sé það innheimt með nýjum sköttum beinlínis á borgarana, heldur en að hafa þá óvenjulegu aðferð, sem hér er ætlazt til. Ég get því ekki annað sagt en að mér virðist þessi till. vera til stórra bóta og vil eindregið mæla með samþykkt hennar. — Ég hef í sjálfu sér ekki meira um það að segja. En, hæstv. forseti, verður ekki hinkrað við eð atkvgr., þangað til allir eru komnir; sem von er á? (Forseti: Það er ómögulegt að lofa því, því að ég veit ekki, á hvaða tíma það verður.) Nei. En ég áskil mér þá rétt til þess að tala aftur, þegar hv. þm. N-M. er kominn, nema það verði samkomulag um að fresta atkvgr.