03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. N-M. flutt hér brtt. á þskj. 725. Ég mun ekki ræða þetta mál almennt. Það hafa þegar farið fram um það, bæði fyrr og síðar, allmiklar og ýtarlegar umr. hér á hv. Alþingi. En ég vil aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir þessari brtt.

Brtt. felur það í sér, og í rauninni það eitt, að í stað þeirra bráðabirgðaákvæða, sem samþ. voru inn í frv. á síðasta fundi þessarar hv. d., komi það, að lögin taki gildi 1. ágúst 1953. Ég lít svo á, að bráðabirgðaákvæði það, sem ég hef áður vikið að, sé vægast sagt mjög vafasamt. Í fyrsta lagi hlýtur það alltaf mjög að orka tvímælis, þegar fjárlög hafa verið samþ., að samþykkja þá lög, sem fela í sér meiri og minni útgjöld fyrir ríkissjóð, útgjöld, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í fjárlögum. Þetta ætti í rauninni aldrei að eiga sér stað og er a. m. k. alltaf mjög hæpið. Hér við bætist svo það, að eins og hv. alþm. öllum hlýtur að vera ljóst, þá var afgreiðsla fjárlaganna nú þannig, að það er kannske síður en oft áður hægt að leyfa sér þetta. Ég fæ ekki betur séð, en bráðabirgðaákvæðið gæti leitt til þess, að ríkissjóður þyrfti að greiða verðjöfnunargjald um óákveðinn tíma. Mér skilst, að ef kaup- og kjarasamningarnir frá í vetur yrðu framlengdir í vor, þá framlengdist bráðabirgðaákvæðið líka af sjálfu sér.

Það er svo í annan stað ákaflega hæpið að miða gildistöku löggjafar við niðurfellingu tiltekinna samninga, hvers konar samninga sem þar væri um að ræða, enda ætla ég, að það sé venja, að l. segi alveg ákveðið til um það, hvenær þau taki gildi, eða a. m. k. vitni ekki í svona hluti um gildistöku.

Það er óhætt að fullyrða, að fram hefur komið alveg ótvíræður þingvilji fyrir verðjöfnun á olíum og benzíni án þess að greiða mismuninn úr ríkissjóði. Um það bera vitni bæði þær atkvgr., sem fram hafa farið um málið fyrr og síðar, og einnig umr. En svo kemur fram núna allt í einu á þessu stigi málsins ótti nokkurra hv. þm. um það, að l., ef samþykkt yrðu, kynnu að brjóta í bága við kjarasamningana. Á þetta gátu sumir hv. þm. að vísu ekki fallizt, eins og atkvgr. í gær bar með sér, hvorki við, sem flytjum þessa brtt., né heldur nokkrir aðrir hv. dm. En við flm. till. viljum þó gjarnan koma til móts við aðra stuðningsmenn verðjöfnunarinnar með því að breyta 6. gr. l. þannig, að gildistöku l, seinki til 1. ágúst. Hitt virðist í alla staði óeðlilegt, að láta ríkið grípa inn í þetta mál á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í bráðabirgðaákvæðinu, fyrir fáa mánuði eða kannske óákveðinn tíma, þegar það er ekki hugsað sem framtíðarlausn á málinu, að ríkið borgi mismuninn. — Ég hef sýnt fram á það, að ef fresta á framkvæmd þessara l., þá er eðlilegra að gera það á þann hátt, sem brtt. okkar felur í sér, með því að tiltaka ákveðinn dag, og ég vænti þess, að allir, sem í alvöru vilja stuðla að því að koma á verðjöfnun á olíu og benzíni, geti fallizt á þessa till.