04.02.1953
Neðri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Jón Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv. er nú komið hingað aftur frá Ed. og hefur tekið þar allmiklum breytingum, sem okkur sýnist nú sumum Nd.-mönnum að hafi verið lítt til bóta. Ég hef ásamt þremur hv. þm., þeim hv. þm. Snæf., hv. þm. Ísaf. og hv. 2. landsk. þm., borið fram eða við ætlum að bera fram brtt. við frv. eins og það liggur nú fyrir. Þessar brtt. eru í prentun og ekki búið að útbýta þeim, en verður væntanlega útbýtt í kvöld, svo að líklega verður rétt, til þess að málið geti haldið áfram við þessa umræðu, að leggja brtt. fram skriflega. Þær eru þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1) 2. gr. orðist svo: Greiða skal verðjöfnunargjald af olíu og benzíni, sem keypt er til landsins. Gjald þetta ákveður viðskmrn. fyrir missiri í senn, og sé upphæð þess við það miðað, að gjaldið nægi til að greiða flutningskostnað á því magni af olíu og benzíni, sem þarf að flytja frá innflutningsstöðum til annarra útsölustaða, svo að fullnægt verði eftirspurn eftir þessum vörum hvar sem er á landinu. Verðjöfnunargjaldið reiknast af seldu magni af olíu og benzíni, og skulu olíufélögin (innflytjendur) greiða gjaldið til viðskmrn. ársfjórðungslega.

2) Á eftir 2. gr. bætast tvær nýjar gr., svo hljóðandi: a) Verðjöfnunargjald samkvæmt 2. gr. skal leggjast í verðjöfnunarsjóð. Úr verðjöfnunarsjóði skal greiða flutningskostnað á olíu og benzíni frá innflutningsstöðum til annarra útsölustaða. Viðskmrn. annast greiðslur úr sjóðnum eftir reglum, er það setur með reglugerð. — Fé það, sem á hverjum tíma er í verðjöfnunarsjóði, skal ávaxtað í banka á sérstökum reikningi. — b) Nú verður afgangur í verðjöfnunarsjóði í árslok, og skal hann þá yfirfærast til næsta árs. Ef tekjur sjóðsins eitthvert ár hrökkva ekki fyrir öllum gjöldum samkvæmt 3. gr., skal greiða það, sem á vantar, af fyrstu tekjum sjóðsins næsta ár.“

3. brtt. er við 4. gr., að grelnin orðist svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1953“ — og 4. brtt. er um, að ákvæði til bráðabirgða falli niður.

Þessar brtt. eru algerlega samhljóða frv. eins og þessi hv. d. afgr. það með miklum meiri hl., að undanskilinni 3. brtt., þar sem í frv. var ákveðið, að lögin öðluðust þegar gildi, en nú er í þessum brtt. lagt til, að lögin öðlist gildi 1. ágúst 1953.

Ég mun svo ekki segja meira um þetta að sinni, en afhendi hæstv. forseta þessar brtt.