28.10.1952
Efri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil með nokkrum orðum fylgja úr hlaði frv. þessu á þskj. 126, sem ég er flm. að ásamt hv. 2. þm. S-M. og hv. 8. þm. Reykv. Frv. er till. um, að Búnaðarbanka Íslands, byggingarsjóði verkamanna og lánadeild smáíbúðarhúsa verði gefin eftir nokkur lán, sem þessum stofnunum hafa verið veitt úr ríkissjóði eða af fé, sem gert var ráð fyrir að ríkissjóður tækl við, þegar skilað yrði. Öllum þessum stofnunum er fjárvant. Allar hafa þær lánastarfsemi að sinna, sem ekki má niður falla. Enginn þeirra má við því að skila fénu, ef rétt er á litið. Að vísu var lánadeild smáíbúðarhúsa við fæðingu í fyrra ekki hugsað fyrir nema einu tillagi í eitt skipti og ef til vill ekki ætlaðir langir lífdagar, en því meiri nauðsyn er henni nú á að þurfa ekki að skila þessu fé, vegna þess að það hefur í ljós komið, að hlutverk hennar er nauðsynlegt, og því fer fjarri, að hún hafi tæmt verkefni sín, enda hefur hæstv. ríkisstj. nú lagt fram frv. um heimild til að afla erlends láns handa deildinni.

Í raun og veru eru þessar stofnanir eins og myllur, sem verða alltaf að mala fyrir land og lýð. Ef vatnið er tekið af þeim eða þrýtur, þá hætta þær að hreyfast. Nú hafa þær alls ekki nóg aðstreymi af nýju vatni, þess vegna verður að mynda hringrás og láta sama vatnið óskert knýja þær áfram. Að því er stefnt með frv. Óafturkræf framlög eiga að vera viðvarandi og margendurnotað hreyfiafl. Búnaðarbanka Íslands er ætlað með lánveitingum sínum að aðstoða fyrst og fremst það fólk, sem er að nema landið, rækta það við sjó og í sveitum og byggja upp sveitir landsins. Landnám er dýrt og er gert að mjög miklu leyti fyrir komandi tíma. Þess vegna er bæði nauðsynlegt og eðlilegt, að lán til þess séu löng og vaxtalág.

Ræktunarsjóður Búnaðarbankans lánar aðallega til 20 ára gegn 2½% vöxtum og heimtir inn með jöfnum árgjöldum, sem leiðir af sér, að afborganirnar eru lægri framan af lánstímanum. Ríkissjóður hefur lánað ræktunarsjóði fyrst á árunum 1948–51 20 ára lán með 1½% vöxtum. Það lán er 9 millj. 875 þús. kr. Í öðru lagi lánað af gengishagnaði 1950 6.874.946.51 kr. með 2% ársvöxtum. Þetta lán á að endurgreiða á 20 árum með jöfnum afborgunum. Í þriðja lagi lán af tekjuafgangi ríkissjóðs 1951 7½ millj. með 5½% ársvöxtum. Þetta lán á að vera afborganalaust 3 fyrstu árin, en endurgreiðast síðan á 20 árum með jöfnum afborgunum. Í fjórða lagi hluta af landbúnaðarláni frá Alþjóðabankanum 1952, ca. 8 millj. 250 þús. með 4½% ársvöxtum auk ¾% lántökugjalds. Afborgunarlaust á þetta lán að vera fyrstu 3 árin, en endurgreiðast síðan á 17 árum. Þessi ríkissjóðslán, bein og óbein, til ræktunarsjóðs eru samanlagt 32.499.946.51 kr. Augljóst er það, að ræktunarsjóður getur hvorki látið þau bera sig að vöxtum né afborgunum. Frv. gerir ráð fyrir, að hann verði látinn hafa tvö þeirra sem óafturkræf framlög, lánið af gengishagnaðinum frá 1950 og lánið af tekjuafganginum 1951, en það eru samtals 14.374.946.51 kr. Þegar þetta væri að lögum orðið, yrði nær lagi um hag ræktunarsjóðs og starfsemi hans á næstu árum.

Þá er byggingarsjóður Búnaðarbankans. Hann lánar til bygginga í sveitum til 42 ára með 2% ársvöxtum. Lán, sem ríkissjóður hefur veitt honum, eru: Vaxtalaust lán 1948 til 42 ára 4 millj. 797 þús. kr. Annað er gengishagnaðarlán 1950 með 4% vöxtum. Það á að endurgreiðast með hluta Búnaðarbankans af stóreignaskatti, og er upphæð þess 6.874.946.51 kr. Þriðja er lán af tekjuafgangi ríkissjóðs 1951. Það er með 5½% ársvöxtum, afborganalaust í 3 ár, en endurgreiðist síðan með jöfnum afborgunum á 20 árum. Lánsupphæðin er 7½ milljón. Og fjórða lánið er hluti af landbúnaðarláni frá Alþjóðabankanum 1952, ca. 8 millj. 250 þús., vextir 4½%, lántökugjald ¾%. Það á að vera afborganalaust 3 fyrstu árin, en endurgreiðast síðan með jöfnum afborgunum á 17 árum. Samtals eru lán þessi hjá byggingarsjóði ea. 27.421.946.51 kr. Engum manni getur dulizt, að byggingarsjóður er ósjálfbjarga með þessi lán og starfsemi hans sligast, ef ekkert er að gert. Frv. ætlast til, að tvö lánin, gengishagnaðarlánið og tekjuafgangslánið, verði óafturkræf framlög. Þau eru samtals 14.374.946.51 kr. Verður þá sjóðnum rekstur og útlánastarfsemi allmiklu björgulegri.

Veðdeild Búnaðarbankans fékk eina millj. króna að láni af tekjuafgangi ríkissjóðs 1951 með 5½% vöxtum til 20 ára jafnra afborgana. Hún lánar venjulega til 30 ára með 4½%. Allir geta séð, hvernig henni muni ganga að standa undir lántökunni hjá ríkissjóði. Frv. gerir ráð fyrir því, að þessi eina milljón hjá veðdeildinni verði óafturkræft framlag.

Svo er byggingarsjóður verkamanna. Byggingarsjóður þessi fékk gengishagnaðarlán 1950, 6.874.946.51 kr. með 4% vöxtum og á að skila því með hluta sínum af stóreignaskatti jafnharðan og hann kemur inn. Enn fremur fékk hann að láni af tekjuafgangi ríkissjóðs 1951 4 milljónir til 20 ára með 5½% vöxtum. Byggingarsjóður verkamanna lánar út til bygginga í kaupstöðum og bæjum lán til allt að 75 ára gegn 2% og vantar fé tilfinnanlega vegna húsnæðisvandræða á þessum stöðum. Frv. leggur til, að lán þau, er honum voru veitt af gengishagnaðinum og tekjuafganginum í fyrra, verði óafturkræf framlög. Þau gera samtals 10.874.946.51 kr.

Á lánadeild smáíbúðarhúsanna minntist ég áðan. Hennar stofnlán var 4 millj. kr. til 20 ára með 5½% vöxtum og á samkvæmt frv. að vera óendurkræft. Hún lánar út til 15 ára með 5½% vöxtum.

Samanlagðar eru þessar lánsupphæðir allar, sem í frv. er lagt til að gerðar verði óafturkræf framlög, 44.124.839.53 kr. auk ógreiddra vaxta af lánunum, en ekki veit ég, hvað þeir eru miklir nú áfallnir. Þessi upphæð, rúmlega 44 millj., er mikil upphæð, það skal ég játa. Þó mundi þessara milljóna ekki gæta mikið sem eyðslueyris hjá ríkissjóði árlega á afborgunartímanum. Þær mundu hverfa eins og dropar í hafi eyðslunnar og gleymast eins og étinn matur. En segjum, að þær yrðu ekki gerðar að eyðslueyri, heldur lagðar í nauðsynleg fyrirtæki, og þá vil ég spyrja: Eru nokkrar líkur til, að þær yrðu lagðar í nauðsynlegri fyrirtækl en þau, sem þær standa inni hjá nú? Er annað til, sem kallar meira að? Eða væri nokkurt vit í því fyrir ríkið að krenkja starfsemi þessara lánsstofnana nú með því að taka af þeim féð, láta þær bíða mikinn rekstrarhalla af vaxtagreiðslum og afborgunum og tærast upp af þeim sökum, verða svo að jafna það á eftir, að svo miklu leyti sem jafnað yrði, með ærnu gjaldi? Nei, það væru bágborin búhyggindi. Ég er raunar hissa á því nú, að þegar féð var upphaflega veitt, skyldi það ekki vera haft óendurkræft, svo augljóst mátti vera, að það gat ekki orðið að viðunandi notum sem lánsfé eftir reglum og verkefnum stofnanana. Það var stofnfé til eignar, óafturkræft fé, sem þessar stofnanir vantaði til þess að vera viðvarandi vatn á myllu sinni. Frv. er lagt fram til þess að ráða nokkra bót á þessu.

Ég leyfi mér að vænta þess, að frv. verði vel tekið, og legg til, að því verði vísað til hv. fjhn. að umræðu þessari lokinni.