15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (2296)

52. mál, hitaveita á Sauðárkróki

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þessari þáltill. okkar þm. Skagf. Þessu máli þurfti að flýta, vegna þess að ekki var hægt að ganga frá lántöku til að ljúka hitaveituframkvæmdunum á Sauðárkróki fyrr, en Alþingi hefði fallizt á að veita þá auknu ábyrgð, sem farið var fram á, og hv. frsm. fjvn. hefur nú skýrt mjög greinilega þá miklu nauðsyn, sem á því er að fá þessa ábyrgðarheimild. En þessi afgreiðsla hins háa Alþingis mun valda því, að hitaveita Sauðárkrókskaupstaðar verður væntanlega, — það má næstum því segja, að það sé víst, að hún verður fullgerð á þessu ári, þannig að heitt vatn verði komið í mikinn hluta af húsum á Sauðárkróki fyrir áramót. Og það er, eins og gefur að skilja, geysilega mikils virði fyrst og fremst fyrir fólkið á staðnum að fá þessi stórfelldu þægindi og þá ekki síður að því leyti, að þá er strax hægt að fara að fá tekjur af fyrirtækinu, ef hægt er að flýta innlagningu í húsin, eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég held það sé óhætt að fullyrða, að þetta verk hafi gengið vel og hafi gengið alveg samkvæmt áætlun. Það var byrjað á verkinu í vor, og væntanlega verður því lokið um áramót að mestu leyti. Í raun og veru hefur verkið ekki farið neitt verulega fram úr áætlun umfram það, sem verðbreytingar einar hafa valdið, og sennilega ekki neitt, því að inn í áætlunina í fyrstu var ekki tekinn kostnaður við boranir, sem gerðar hafa verið sumpart áður en verkið var hafið, en að nokkru leyti kostnaður við boranir, sem framkvæmdar voru nú í sumar. En með þessari áætlun, sem hér er miðað við, er þessi kostnaður að nokkru leyti tekinn með.

Ég vil nú leyfa mér, fyrir það hve þetta er mikilsverð framkvæmd fyrir kjördæmi okkar þm. Skagf., einnig hér, um leið og við þökkum Alþingi ágæta afgreiðslu málsins bæði fyrr og nú, að þakka einnig þeim lánsstofnunum, sem hafa gert kleift að koma þessu í framkvæmd, og er það fyrst og fremst Landsbankinn, en þó einnig Söfnunarsjóður Íslands, en þessar lánsstofnanir hafa að mestu leyti lánað fé til þessara framkvæmda, og svo auk þess auðvitað þau 20%, sem héraðið sjálft eða Sauðárkrókskaupstaður leggur fram, aðallega með framlögum íbúanna sjálfra þar á staðnum.

Þótt þessi framkvæmd sé að sjálfsögðu mest verð fyrir Sauðárkrókskaupstað, þá er þetta þó í raun og veru jafnframt þjóðnytjamál, eins og ég sé að afgreiðsla Alþingis og afgreiðsla fjvn. ber greinilega með sér, því að það er vitanlega ekki lítils virði þjóðhagfræðilega séð líka, að þorp með 1.000 íbúum fái á þennan hátt heitt vatn til upphitunar í stað þess að kaupa kol frá útlöndum til þeirra hluta.

Fleira ætlaði ég ekki að taka fram, en vildi aðeins láta þessi orð fylgja með framsögu frsm. fjvn.