14.01.1953
Sameinað þing: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (2390)

157. mál, smíði fiskibáta innanlands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það er ekki allfjarri réttu lagi, sem fram kom í ræðu hv. þm. Ísaf., að orðalagið á brtt. er kannske í vægara lagi samanborið við það, sem sagt hefur verið í framsögunni, en ég bið hv. þm. að virða á betri veg fyrir n. að því leyti til, að hún leyfði sér með þessu orðalagi að skírskota til skilning hjá hæstv. ríkisstj., en verið getur, að henni hafi þar skotizt í því efni; það er óráðin gáta.

Hv. þm. N-Þ. kemur hér með brtt., sem í sjálfu sér er hvorki óeðlileg né óskynsamleg, en málið sjálft er mjög þýðingarmikið, og ég vildi sízt af öllu, að það, sem hv. Alþingi samþykkir í þessu máli, yrði á nokkurn veg þannig, að hægt yrði að teygja það til eins eða hins, sem fer utan hjá kjarna málsins. Ég held þess vegna, að ég hverfi að því ráði að fram kominni brtt. þeirri, sem hér var nú lýst, að biðja hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá, því að ég vildi gjarnan eiga þess kost að ráðfæra mig við hv. samnefndarmenn mína í allshn. um það, sem hér hefur farið fram og fram hefur komið, og jafnvel um breyt. á því orðalagi, sem er í brtt. á þskj. 511, því að ég vil í lengstu lög seilast til þess, að hér sé rétt stefnt og ekki afgr. þannig, að það sé hvorki fugl né fiskur, sem samþ. verður í þessu efni.

Ég býst ekki við, að það þurfi að tefja málið neitt verulega, þótt þessi frestur yrði veittur og hæstv. forseti yrði við óskum mínum í þessu efni, en tilgangurinn er að gera málið eftir fram komna brtt. ljósara og skýrara.