29.01.1953
Sameinað þing: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (2398)

168. mál, Vestmannaeyja- og Akureyrarflugvellir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og þskj. 612 ber með sér, er hv. .þm. Ak. frsm. í þessu máli, en af sérstökum ástæðum gat hann ekki mætt hér á fundinum, og hef ég því lofað að hafa hér framsögu í málinu.

Till. er borin fram á þskj. 306 og er þess efnis, að Alþ. skorar á ríkisstj. að láta ekki niður falla, heldur hraða svo sem unnt er framkvæmdum þeim við flugvöll Vestmannaeyja, sem aðkallandi eru til þess að bæta lendingarskilyrði og annað, sem að öryggi flugsamgangnanna lýtur.

N. hefur athugað þessa till. Henni er fullkomlega ljóst, að þróunin í flugmálunum á Íslandi er slík, að allt verður að gera til þess, sem mögulegt er, að skapa öryggi í þeim samgöngumálum, sem þá felst fyrst og fremst í því að stækka svo flugvellina, að það sé áhættulaust að lenda á þeim, hvernig svo sem veðurskilyrðin eru, ef flugveður er á annað borð. En það er svo í Vestmannaeyjum, eins og kunnugt er, að þar er ekki hægt að lenda og ekki heldur hægt að taka af nema í sérstökum áttum vegna þess, að þar er aðeins um eina braut að ræða, og er því mjög nauðsynlegt, að breytt sé þannig flugbrautinni, að hægt sé að taka þar af og lenda, þó að vindur blási þar af, fleiri en einni átt.

Hins vegar er reyndin svo á Akureyri, eins og kunnugt er, að þar er flugvöllur sá, sem nú er notaður, mjög óöruggur, og hefur verið ráðizt í það að búa til nýjan flugvöll nær kaupstaðnum, sem kostar mjög mikið fé. Fjvn. er ljóst, að báðir þessir staðir eru þannig settir, að það þarf að bæta flugskilyrðin á báðum stöðunum, en ekki aðeins á öðrum. Hún vill því ekki vera neinn Salómonsdómari í því máli út af fyrir sig, hvort af þessum mannvirkjum skuli ganga fyrir, heldur skjóta því að sjálfsögðu til þeirra aðila, sem hafa tæknilega þekkingu á því og bera ábyrgð á þeim málum, og er það þá fyrst og fremst flugráð og flugvallastjóri eða flugmálastjórnin yfirleitt ásamt hæstv. flugmrh.

N. leggur því til, að þessi till. verði samþ. með nokkrum breytingum, eins og kemur fram á þskj. 612, en breytingin er fyrst og fremst þessi, þ. e. a-liðurinn, að fyrir orðin „flugvöll Vestmannaeyja“ í tillgr. komi: flugvellina í Vestmannaeyjum og við Akureyri. — Er þá ekki gert neitt upp á milli þessara tveggja staða. Og svo er b-liðurinn, að fyrir orðið „Vestmannaeyjaflugvelli“ í fyrirsögn kemur: Vestmannaeyja- og Akureyrarflugvöllum. — Þetta er ágreiningslaust álit n., og mælir hún með því, að till. verði samþ. og afgr. á þann hátt, sem ég þegar hef lýst.