05.02.1953
Sameinað þing: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (2564)

159. mál, hafnarsjóður Ísafjarðar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins út af ummælum hv. þm. Ísaf., að ég neyddist til þess að taka hér aðeins til máls. Hann sagði, að það væri vegna þess dráttar, sem hefði orðið á þessu máli hér hjá fjvn., að ekki væri nú hægt að leyfa að byggja á þessu mannvirki aðkallandi verk. (Gripið fram í.) Ja, mér þykir vænt um að heyra það, að hv. þm. segir, að það sé misskilningur, því að fjvn. á enga sök á því, að ekki sé hægt að halda áfram þeim framkvæmdum, sem hann ræddi um. Það er síður en svo. Fjvn. gat ekki undir neinum kringumstæðum lagt til, að greiddar væru 400 þús. kr. úr ríkissjóði mótframlagslaust, fyrr en fyrir lægju frekari upplýsingar í málinu, en það hef ég skýrt áður í minni framsögu. Ef hins vegar svo sterk rök liggja að því, að það beri að bæta þetta mótframlagslaust, þá á hv. þm. aðgang að hafnarbótasjóði samkvæmt fyrirmælum laga þar um, og þarf það þá ekkert að tefja framkvæmdir. Vitað er það og hins vegar, að slíkar framkvæmdir sem hér um ræðir, sem kosta nærri hálfa millj. kr., hefðu nú ekki verið gerðar svo snemma á þessu ári, að ofan á þær hefði verið hægt að byggja mikið af húsum og það áður en vitað var þá, hvort þær umbætur, sem gerðar væru, væru nægilega tryggar. Þetta var annað atriðið. — Hitt atriðið er, að það felst ekki — og það vil ég taka fram — í till. fjvn. neitt loforð um það, fyrr eða síðar, að ríkissjóður taki að sér að greiða þær skemmdir, sem hér hafa orðið á. Það eina, sem felst í till. n., er það, að málið verði rannsakað, síðan verði gögnin lögð fyrir það Alþ., sem ætlazt er til að taki ákvörðun um bætur, og það liggja engin loforð frá núverandi fjvn. um, að þetta verði bætt mótframlagslaust. — Þetta vildi ég láta koma fram í þingtíðindum.