20.11.1952
Sameinað þing: 15. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2571)

15. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, þá er í ráði að stofna sérstakt varnarbandalag Evrópu, sem á að vera í nánu sambandi við Atlantshafsbandalagið, og hefur því þótt nauðsynlegt að gera viðbótarsamning við hinn upphaflega Atlantshafsbandalagssamning um það, að sú ábyrgð eða trygging, sem veitt er ríkjum í Atlantshafsbandalaginu, taki einnig til aðila varnarbandalags Evrópu. Þetta hefur þó efnislega enga breytingu í för með sér frá því, sem verið hefur, þó að það sé formsbreyting, þar sem ábyrgðin eða tryggingin tekur nú þegar til allra þeirra landa, sem hér eiga hlut að máli; þó með þeirri breytingu, að þar sem ábyrgðin eða tryggingin nær nú til hernámsliða bandalagsríkjanna í Evrópu, þ. e. a. s. í Þýzkalandi, og þá þar með til þess, ef á þau verður ráðizt í Þýzkalandi, og á Þýzkaland yrði ekki ráðizt eins og nú standa sakir, nema á þessi hernámslið væri fyrst og fremst ráðizt, þá er nú ætlazt til þess, að sambandslýðveldið þýzka gerist beinn aðili samningsins og ábyrgðin taki því formlega til þess. Hér er því einungis um formsbreytingu að ræða, en ekki skuldbindingu, sem út af fyrir sig láti ábyrgðina eða trygginguna ná til stærri landssvæða, en fram að þessu hefur verið. Þar sem þetta varnarbandalag Evrópu mun, ef það kemst á stofn, veita mjög aukna tryggingu fyrir vörnum Vestur- Evrópu og þar með mjög auka líkurnar fyrir því, að friður haldist í heiminum, þá er einsýnt að fallast á þann viðbótarsamning, sem hér um ræðir, og legg ég til, að hv. Alþ. geri það af sinni hálfu.